Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég get vel tekið undir það, sem ég skynjaði sem afstöðu hv. fyrirspyrjanda, að þessi þróun er vægast sagt óæskileg, ég segi ekki ógeðfelld. Ég tel að okkur sé skylt, eins og ég sagði, í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur á síðustu mánuðum eða missirum í þessum efnum að íhuga það mjög vandlega hvort ekki er óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða. Við höfum fylgst mjög grannt með þessu og ég ræddi m.a. snemma á árinu 1989 við forsvarsmenn íslensku kaupskipaútgerðanna, sjómannasamtakanna, farmannasamtakanna og Siglingamálastofnun. Við höfum enn fremur fylgst með þeirri þróun sem er að verða í þessum málum í nágrannalöndunum. Þá var mat okkar það að enn gætti þessa ekki í neinum þeim umtalsverðum mæli, að útflöggun væri komin af stað á Íslandi, að ástæða væri til að fara fram með miklu óðagoti. Sérstaklega vegna þess að hér er á ferðinni viðkvæmt mál vegna starfsréttinda íslenskra farmanna. Við töldum að ástandið, eins og það var á þeim tíma, væri það gott að enn væri ekki ástæða til að grípa til aðgerða, en nú er því miður mjög að síga hér á ógæfuhliðina.
    Ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa nokkuð skoðað þetta á nýjan leik að sú aðferð sem Danir hafa valið sé hin æskilega. Er nú skaði að hæstv. fjmrh., og flokksbróðir okkar, mín og fyrirspyrjanda, skuli ekki vera á svæðinu því auðvitað væri æskilegt að fá einhvers konar stuðning við það af hálfu fjmrh. og yfirmanni skattamála að unnt væri að grípa til ráðstafana sem því tengdust. Af þeirri ósköp einföldu ástæðu að við erum að missa þessar tekjur og þessi verðmæti og þessi störf út úr landinu og það hlýtur að vera þjóðhagslega skynsamlegt að sporna gegn því að svo fari.
    Sú aðferð sem Danir nota er sanngjörn. Hún tryggir réttláta samkeppnisstöðu innlendu útgerðanna gegn hinum erlendu sem greiða lægri vinnulaun og bjóða lélegri starfskjör. Við hljótum að ætla okkur að standa nákvæmlega þannig að málum að íslenska útgerðin geti verið samkeppnisfær þrátt fyrir að hún bjóði góð kjör og búi sínu starfsfólki mannsæmandi starfsumhverfi.
    Við munum hins vegar ekki, og á það vil ég leggja áherslu að lokum, snúa þessari þróun við né hefta hana með höftum eða bönnum af þeirri ósköp einföldu ástæðu að siglingar eru eitt það svið flutninga og viðskipta sem hvað lengst hefur verið algerlega frjálst í heiminum. Það er þannig að allar siglingar til og frá landinu eru frjálsar og ósköp einfaldlega mundi íslensk kaupskipaútgerð, ef ætti að stoppa þessa þróun með bönnum, láta undan síga með þeim hætti að hún tapaði í samkeppninni við erlendar sem þá mundu væntanlega sjá sér leik á borði að hefja hingað siglingar. Þess vegna held ég að aðferðin sé sú, sem ég áðan nefndi, að taka með einhverjum hætti á starfsskilyrðum hinna íslensku skipafélaga þannig að það sé sæmilega fýsilegt fyrir þau að halda áfram að skrá sín skip hér. Þannig náum við að tryggja störf, réttindi og

kjör íslenskra farmanna og standa að þessum hlutum með mannsæmandi hætti. Því það er rétt sem hv. fyrirspyrjandi sagði að það væri mikil og óskemmtileg niðurlæging, m.a. fyrir óskabarn þjóðarinnar svonefnt, að þurfa að ýtast lengra og lengra út á þessa braut.