Fangelsi og fangavist
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Eins og fram kom við umræðu um þetta frv. hér í hv. Ed. í gær, þá undirrituðu þrír fulltrúar í allshn. Ed. undir nál. með fyrirvara. Það voru auk mín hv. 6. þm. Reykn. og hv. 3. þm. Reykv. Við lýstum þá öll okkar fyrirvörum varðandi samþykkt frv. Ég vil benda á að kjarninn í þeim brtt. sem eru hér á þskj. 810 er að hlutverk Fangelsismálastofnunar sé skilgreint þegar grípa þarf til agaviðurlaga í fangelsum landsins. Við viljum með þessum brtt. tryggja að Fangelsismálastofnun komi formlega að málum þegar ákvarðanir eru teknar. Einnig er ákvæði í 2. gr. þar sem kveðið er á um að ákvarðanir um agaviðurlög skuli bókaðar og birtar fanga í viðurvist vitnis. Það er einnig nýtt í þeim tillögum sem fyrir liggja á þskj. 810. Þetta er rökrétt framhald af þeirri umræðu og þeim sjónarmiðum sem fram komu í hv. allshn.
    Ég vil minna á að í hv. Nd. gerðu fulltrúar í allshn. einnig brtt. Það var hv. þm. Ólafur G. Einarsson og fleiri sem fluttu brtt. sem gekk heldur lengra en sú sem hér liggur fyrir, en það má segja að sú brtt. sem við höfum lagt fram hér sé nokkurs konar málamiðlun þar á milli og vil ég hvetja hv. þingdeildarmenn til þess að styðja hana.
    Ég vil endurtaka að kjarni málsins felst í því að tryggt sé að Fangelsismálastofnun ríkisins komi til skjalanna þegar ákvarðanir eru teknar um agaviðurlög gagnvart föngum.
    Ég gleymdi að geta þess hér í upphafi máls míns og tel rétt að bæta því við að við flytjum þessa brtt. þrjú, þ.e. þeir hv. þm. sem gerðu fyrirvara við nál. sem mælt var fyrir í gær, en það eru auk mín hv. þm. Salome Þorkelsdóttir og Eyjólfur Konráð Jónsson.