Ferðaþjónusta
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Hér liggur frammi frv. um eina vænlegustu og blómlegustu atvinnugreinina sem dafnar nú í þjóðfélagi okkar og það er í sjálfu sér fagnaðarefni. Ég vildi aðeins segja hér nokkur orð til að fagna þessu frv. og benda á að við stöndum frammi fyrir því að þurfa að huga að nýjum leiðum til þess að nýta landið, að nýta það á annan hátt en þann hefðbundna sem við þekkjum, og þar hefur ferðaþjónustan óumdeilanlega sannað gildi sitt.
    Eins og fram kom í máli hæstv. samgrh. er e.t.v. mikilvægust breytt skipan stjórnsýslunnar varðandi ferðamálin. Það kemur reyndar fram að það eru auðvitað ekki allir á eitt sáttir um þá skipan enda erfitt að finna þá stjórn eða ráð fyrir stofnunum í þessu landi að allir telji sig eiga þar hlut að máli sem telja að þeir hafi þar hlutverki að gegna. En sú leið sem hér er farin er e.t.v. málamiðlun sem flestir geta fallist á.
    Það kemur fram hér í 12. gr. frv., um fjármögnun ferðamála, að starfsemi Ferðamálaráðs er áfram fyrirhugað að fjármagna með mörkuðum tekjustofni sem eru 10% af vörusölu Fríhafnarinnar. Ég vil minna á hvernig ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa staðið sig í þeim efnum en vona nú að í ljósi þess að ég held að flestir hafi komið auga á mikilvægi þessarar atvinnugreinar fyrir okkur öll, þá verði látið af því að skerða þann eyrnamerkta tekjustofn sem þarna er ætlaður til ferðamála.
    Þá vil ég líka benda á það hér að það er nauðsynlegt að huga sérstaklega að menntun fólks í ferðaþjónustu. Það er mjög mikilvægt til þess að við getum staðið okkur í samkeppninni við önnur lönd að í ferðaþjónustunni starfi vel menntað fólk. Þá vil ég einnig taka undir það sem hæstv. samgrh. sagði um upplýsingaöflun sem hefur fram farið samhliða vinnunni við þetta frv. og eins við þá þáltill. sem lögð var fram í Sþ. Ég held að það sé góður gagnagrunnur sem á eftir að nýtast þessari atvinnugrein og e.t.v. öðrum atvinnugreinum líka í framtíðinni.
    Ég vil síðan að lokum minnast á það að auðvitað er mikilvægt að hér er verið að opna leið fyrir minni aðila í ferðaþjónustu að verða sér úti um þau leyfi sem þarf til þess að reka lítil fyrirtæki. Það er ekki síst mikilvægt úti á landsbyggðinni þar sem bændur hafa í síauknum mæli farið út í ferðaþjónustu. Og það er greinilegt að e.t.v. þurfa fleiri að snúa sér að því í framtíðinni. Þá komum við auðvitað að því sem við þurfum öll að hafa í huga og það er að samhliða uppbyggingu í ferðaþjónustunni fari fram öflug fræðsla til þess að styrkja vitund fólks um umhverfi okkar og auka virðingu landsmanna fyrir sínu eigin umhverfi.
    Ég tel líka mjög mikilvægt það sem kemur fram í frv. um að stuðla að stofnun upplýsingamiðstöðva í öllum landshlutum. Við fyrstu sýn, eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið í hv. Nd., sýnist mér vera á þessu frv. sá svipur að hér sé verið að skapa ramma utan um þessa blómlegu atvinnugrein, en ég hefði sérstakan áhuga fyrir því að kynna mér þetta mál betur

og fá að fylgjast með störfum þeirrar nefndar sem um það mun fjalla nú næsta daga. Og þar sem Kvennalistinn á ekki fulltrúa í hv. samgn. Ed. vildi ég fara fram á að við fengjum áheyrnaraðild meðan verið er að fjalla um þetta mál a.m.k.