Mannanöfn
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir brtt. þeim sem settar eru fram á þskj. 790. Ég vil taka fram að þær fengu jákvæðar undirtektir meðal fleiri fulltrúa í menntmn. þó að ákveðið hafi verið að ég flytti þær ein. Þingflokkur Kvennalistans styður tillögurnar.
    Fyrst er lagt til að breyting verði gerð á 7. gr. sem fjallar um eiginnöfn. Lagt er til að niðurlag 4. mgr. orðist svo: ,,Sú ákvörðun skal jafnan háð samþykki barnsins sjálfs sé þess kostur.``
    Breytingin felst í því að í stað ,,sé barnið orðið 12 ára`` kemur: sé þess kostur. Rökstuðningur minn fyrir þessari breytingu er einfaldlega sá að það getur verið nógu erfitt fyrir barn að vera ættleitt við ákveðnar kringumstæður þó að nafni þess verði ekki breytt líka gegn vilja þess. Slíkt má skoða sem átroðning á sjálfsmynd barns. Mér er kunnugt um að í sifjarétti er oft miðað við að börn séu orðin 12 ára til að vera spurð um lagaleg mál er varða þau sjálf, en ég tel að börn séu fullkomlega fær um að hafa skoðun á svona máli mun fyrr.
    Síðari tvær brtt. eru við 9. gr. frv. sem á við kenninöfn. Lagt er til að upphaf greinarinnar orðist svo: ,,Hver maður, sem hefur ekki ættarnafn, sbr. 2. mgr., skal kenna sig til föður, móður eða föður og móður þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum
komi`` o.s.frv.
    Þessi tillaga heimilar að börn kenni sig bæði við föður sinn og móður án þess að hrófla við íslenskri nafnahefð. Samkvæmt frv. er heimilt að kenna sig við annað hvort foreldra en ekki bæði. Íslensk kenninafnahefð er mjög sérstök og full ástæða til að halda í hana. Hefðin sýnir þó leifar af föðurréttarsamfélaginu en þetta frv. tekur á því með því að leyfa val á milli þess að kenna sig við föður eða móður. Það er mín skoðun að þetta val sé til bóta, en í reynd muni það ekki breyta miklu nema í þeim tilfellum að börn vilji ekki eða geti ekki kennt sig við föður. Hefðin að kenna sig við föður er það sterk að hætt er við að það yrði túlkað sem óvirðing við föður ef nafn móður yrði valið.
    Frá kvenfrelsissjónarmiði hefur íslensk kenninafnahefð víða vakið athygli, ekki síst vegna þess að konur geta haldið eigin nafni við giftingu sem getur skipt afar miklu máli þar sem nafn er mikilvægur hluti af sjálfsímynd fólks. En með því að kenna okkur eingöngu við föður ber okkar kerfi sterkari einkenni föðurréttarsamfélags en kerfi nágrannalandanna þar sem víða er heimilt að halda bæði nafni föður og móður. Þetta er jafnréttismál og alls ekki viðeigandi annað að mínu mati en að fólk geti valið sjálft að kenna börn sín við báða foreldra í stað þess að lögin takmarki það val. Þegar er nokkuð um að þetta sé gert og ég á ekki von á að þetta verði mikið notað.
    Ég vil að lokum geta þess að helstu rökin gegn síðarnefndu brtt. sem fram komu í viðtölum menntmn. við mannanafnasérfræðinga voru þau að tilhneiging væri til að setja fyrra kenninafnið inn án viðtengisins dóttir eða son og það væri síðan notað án þess síðara sem væri þá gjarnan fellt niður. Eftir stæði nafn eins og t.d. Ingibjargar án íslenskrar kenninafnaendingar. Þetta tel ég auðvelt að útiloka með því að skylda það eins og segir í frv. að viðtengin son eða dóttir komi á bæði kenninöfnin.
    Mér er einnig kunnugt um að tæknilegir örðugleikar gætu komið til vegna þess að nöfn yrðu of löng fyrir sum tölvukerfi, en slík rök finnst mér ekki vega þungt í svo mikilvægu jafnréttismáli.
    Ég vil að lokum endurtaka að fram komu jákvæðar undirtektir í menntmn. gagnvart þessum tillögum og að þingflokkur Kvennalistans er þeim sammála.