Mannanöfn
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég sá hæstv. menntmrh. á förnum vegi hér rétt áðan. Mér þætti rétt að hann yrði aðeins við vegna þess að hann flutti þetta mál við 1. umr. og þá á þeim grundvelli að hann væri ekki sektartrúar, teldi ekki rétt að beita sektum við því ef mönnum verður á í messunni og seinkar við að gefa börnum nafn. En hv. menntmn. hefur, þvert ofan í skoðanir ráðherrans sem málið flytur, frekar hert á þeim ákvæðum sem gilda um dagsektir í þessu máli og leggur hér til að menn verði sektaðir um 1000 kr. á dag fyrir að fremja þau hrikalegu brot að láta ekki skíra börnin sín innan tiltekins tíma.
    Ég geri ráð fyrir að ekki þurfi mikið ímyndunarafl til að láta sér detta í hug aðstæður þar sem það getur verið óhjákvæmilegt að seinka skírn eða nafngift af ýmsum ástæðum. Ég sé ekki ástæðu til þess að nefna slíkar aðstæður hér en ég vil bara vekja athygli á því þar eð hæstv. menntmrh. hefur lýst því yfir að hann væri ekki sektartrúar í þessum efnum og reyndar dómsmrh. líka sem á nú að fara með forræði þessa máls, nái þetta frv. í gegn. Það er engu líkara heldur en meiri hl. stjórnarliða í menntmn. fari þvert gegn vilja ráðherranna beggja í þessu máli. Ég tel eðlilegt að lækka þessa upphæð til muna ef þetta ákvæði á að vera óbreytt og mun beita mér fyrir því við 3. umr. málsins ef ekki verða aðrir til þess.
    Að öðru leyti vil ég segja það, virðulegi forseti, að þó að ég telji feng í því að fá þetta mál afgreitt sem lög frá Alþingi, þá ganga þær brtt. sem ég hef flutt, og að því er mér sýnist einnig þær brtt. sem Kvennalistinn hefur flutt, út á það að auka örlítið það svigrúm í lögunum sem þarf að vera fyrir hendi til einstaklingsbundinna ákvarðana, til ákvarðana einstakra manna. Það má kannski segja að hér sé verið að gefa sérvitringunum í þjóðfélaginu örlítið svigrúm til þess að fara að vild sinni og ég sé ekkert sakleysislegra heldur en lög um mannanöfn til þess að koma til móts við þá aðila í þjóðfélaginu sem eiga auðvitað sinn rétt eins og aðrir. Og miðað við það hve margir sérvitringar sitja á Alþingi ætti þinginu ekki að verða skotaskuld úr því að opna aðeins fyrir möguleika í þessu efni fyrir fólk úti í þjóðfélaginu sem vill fara pínulítið aðrar leiðir en almennt gerist að því er varðar mannanöfn.
    Ég hef þegar gert grein fyrir mínum brtt. í minni fyrri ræðu og skal ekki endurtaka það. Þær eru meira og minna innbyrðis sjálfstæðar og þar af leiðandi ekki allar fallnar þó að ein þeirra falli, en ég tel að í þessum efnum eigi að vera meira svigrúm en minna og banna heldur minna en meira.