Efndir við loðdýrabændur
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Það er nú svo að flest af því sem ég vildi segja hér hefur þegar komið fram. Ég vil samt sem áður undirstrika það með hverjum hætti þessi búskapur fór
af stað. Menn voru hvattir til að taka upp nýja búgrein og jafnframt því afsöluðu margir sér framleiðslurétti þannig að þeir hafa ekki í neitt að venda á nýjan leik þegar þessi búgrein er hrunin í höndunum á þeim.
    Ég hef litið svo á allar götur síðan fór að halla undan fæti fyrir loðdýrabændum að stjórnvöld bæru nokkra ábyrgð á því hvernig þeirra staða er. Þeim var hreinlega lofað gulli og grænum skógum tækju þeir upp þessa búgrein og þeir fengu ómælt fé, þeir fengu í rauninni, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði áðan, alla þá peninga sem þeir báðu um. Og þegar svo er komið sem nú er þá er ábyrgð stjórnvalda þó nokkur. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans áðan. Þau sýna þó að búið er að gera töluvert mikið í þessum málum en samt sem áður hafa þessar aðgerðir gengið afskaplega hægt. Það eru of margir enn sem vita ekki hvar þeir standa og hver þeirra staða er. Þeir vita ekkert við hverju þeir mega búast í framtíðinni. Þeir þora varla að horfa fram á veginn því þeir vita ekki hvað þeir geta gert. Að vísu er bjartara fram undan núna í skinnasölumálum og það má vera að greinin eigi sér viðreisnar von. Reyndar hef ég alltaf verið þeirrar trúar að ef loðdýrabúskapur gæti yfirleitt þrifist, þá væri það hér. Ég er því ekkert búin að afskrifa þessa búgrein með sjálfri mér. En ef maður má segja svo ljót orð, þá var asnast af stað í þennan búskap með engri fyrirhyggju, ónógri þekkingu og ónógri ráðgjöf og af því súpum við seyðið. En ég vil óska þess í lok máls míns að þeir sem enn eiga eftir að fá úrlausn sinna mála þurfi ekki að bíða mikið lengur því, eins og sagt var hér úr þessum ræðustól áðan, það er meðal þeirra fólk sem ekki á fyrir matnum á morgun.