Efndir við loðdýrabændur
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið vil ég í fyrsta lagi taka það fram að það situr síst á Alþb. að vera að hneykslast yfir því að bankar taki lántökugjald á sama tíma og það er látið óátalið af landbrh. að því fé sem veitt er í Framleiðnisjóð landbúnaðarins skuli eytt til þess að greiða stimpilgjöld af lánum loðdýrabænda, stimpilgjöld sem renna í ríkissjóð og var ekki til þess ætlast þegar sá sjóður var stofnaður að þeim fjármunum yrði varið til þess að greiða opinbera skatta fyrir fólk.
Ég held að hv. þm. Suðurl. og Alþb. ættu að taka þetta mál upp í stað þess að vera að veitast að öðrum.
    Ég vil í annan stað taka það skýrt fram að ég var síður en svo ánægður yfir því hvaða undirtektir loðdýrabændur fengu hjá þeirri ríkisstjórn sem ég studdi. Ég sat á þeim tíma í nefnd með hv. þm. Stefáni Guðmundssyni og Árna Gunnarssyni og ég vissi ekki betur en okkur hefði tekist að komast nokkuð áleiðis. En því miður strönduðu okkar tillögur í Alþfl. og við undum svo illa hversu þessi mál gengu hægt fram, við Egill Jónsson, að við skrifuðum þáv. hæstv. landbrh. Jóni Helgasyni bréf til þess að undirstrika óánægju okkar yfir því hversu illa og hægt gengi að veita loðdýrabændum viðunandi úrlausn. Ég vil að þetta komi fram og ég vil aðeins ítreka, hæstv. forseti, að ég tel að þingið eigi eftir að greiða loðdýrabændum þá miklu skuld sem þinginu ber að greiða vegna þess hversu haldið hefur verið á málefnum þeirra.