Efndir við loðdýrabændur
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Í sjálfu sér þarf ég ekkert að bera af mér sakir enda ekkert til saka unnið. En vegna ummæla hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, þar sem hann vitnar í viðtal í útvarpi um að einhver maður hafi einhvern tímann sagt að það ætti að grafa skinn þá harma ég að svona ómerkilegar setningar skuli hér bornar upp. Auðvitað fellur mönnum ýmislegt úr munni við hin ýmsu tækifæri. Einhvern tímann sagði ég hér í baráttu fyrir loðdýrabændur að ef hlutirnir færu ekki að gerast þá yrðu þeir annaðhvort að sleppa kvikindunum út eða slátra þeim. Þetta hefur verið barátta en ég held að loðdýrabændur og aðrir verði að viðurkenna það sem landbrh. hefur sagt: Málin hafa þokast áfram. Ég ætla bara að ítreka það hér að öll mál loðdýrabænda eru í friði í Stofnlánadeild, öll loðdýramál eru í friði í Stofnlánadeild landbúnaðarins. Það var fyrsta verk nýrrar stjórnar að svo yrði.
    Ég ætla líka að ítreka það hér að allir dráttarvextir af skuldbreytingarlánum í Búnaðarbanka Íslands hafa verið felldir niður og settir á samningsvextir. Þannig höfum við reynt af fremsta megni að koma til móts við þessa menn, við munum gera það áfram og reyna að leiða þessa grein til nýrrar sóknar. Og ég vona að það takist. Hvað lántökugjöldin varðar þá hefur formlega, hvorki af ráðherra né þessum bændum, verið farið fram á það. Bankaráðinu hefur ekki enn borist um það bréf. Ég tel það mannasiði allra manna ef þeir ætla að vinna máli framgang að leita eftir hlutunum eftir formlegum leiðum. Og ég tel það skynsamlegt, þó við höfum ekki enn komið öllum þessum málum í höfn, að vinna þau í friði af festu og öryggi á næstu mánuðum heldur en í fjölmiðlum. Þar með hef ég lokið máli mínu.