Tekjuskattur og eignarskattur
Mánudaginn 11. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þetta frv. er þáttur í þeirri breytingu sem verið er að gera á íslenska skattkerfinu með hliðsjón af annars vegar alþjóðlegri aðlögun og hins vegar þeirri staðreynd að við erum nú blessunarlega búin að ná verðbólgunni niður í lága eins stafs tölu og nauðsynlegt er að breyta lögum um skattlagningu fyrirtækja til þess að taka mið af því svo að minnkandi verðbólga komi ekki fram í aukinni skattbyrði fyrirtækjanna.
    Þegar frv. um tryggingagjald var afgreitt hér á Alþingi fyrir jól, þá lýsti ég því yfir að ég mundi flytja frv. af þessu tagi eftir áramótin. Frv. hefur nú verið flutt. Það hefur verið unnið að því í samráði við forsvarsmenn atvinnulífsins með margvíslegum hætti og vona ég að frv. fái greiðan gang hér í gegnum þingið.
    Í frv. eru breytingar sem taldar eru, eins og ég sagði áðan, nauðsynlegar vegna þeirrar hjöðnunar verðbólgu sem hér hefur átt sér stað og hins vegar breytingar sem taka mið af þeirri þróun sem er í okkar helstu viðskiptalöndum varðandi grundvallarbreytingar á skattlagningu á atvinnulíf sem felast í því að fækka frádráttarliðum og undanþágum frá skatti og breikka skattstofninn en lækka jafnframt skatthlutfallið.
    Þannig er í þessu frv. gert ráð fyrir að skatthlutfallið lækki úr 50% í 45%. Þá er einnig gerð tillaga um að verðbreytingafærslan taki breytingum. Í 1. gr. frv. er gerð tillaga um þá breytingu sem víkur að því. Þessi breyting getur þó ekki verið afturvirk og kemur því ekki til framkvæmda fyrr en við álagningu 1992. Er þess vegna í bráðabirgðaákvæði með frv. gert ráð fyrir að leiðrétta misræmið vegna álagningar á árinu 1991 með því að hækka hlutfall sérstakrar afskriftar á reiknuðum tekjum vegna verðlagsbreytinga úr 40% í 50%.
    Þá er gerð tillaga um að lækka heimildir til að leggja hluta af hagnaði í sérstakan fjárfestingarsjóð úr 15% í 10%.
    Með þessum breytingum er tryggt að raungildi skatthlutfalls fyrirtækjanna verði óbreytt á milli áranna 1990 og 1991 en ella mundi sú skattbyrði þyngjast allverulega.
    Þá eru í frv. gerðar fáeinar breytingar varðandi frádrátt vegna hlutabréfaviðskipta. Þær heimildir voru rýmkaðar allverulega á síðasta ári og leiddu til þess að gífurleg aukning varð í hlutabréfaviðskiptum. Þó er greinilegt að með einhverjum hætti hafa menn nýtt sér skattaheimildirnar meira í því skyni að fá skattafrádrátt heldur en að setja peninga með eðlilegum hætti inn í atvinnulífið. Þess vegna er gerð sú breyting með þessu frv. að viðkomandi eigi hlutabréfin í a.m.k. tvö ár þannig að ljóst sé að hér sé um raunverulegt viðbótarfjármagn inn í atvinnulífið að ræða.
    Ég vona t.d. að allir þingmenn séu sammála um það að sú skipan sem nú er í lögum og býður upp á það, svo ég taki dæmi, að við tveir, ég og hv. þm.

Eyjólfur Konráð Jónsson, sem báðir ættum hlutabréf í Eimskipafélaginu værum að selja þau hver öðrum til skiptis ár eftir ár og fengjum skattafrádrátt vegna þeirra viðskipta með reglubundnu millibili. Það erum við sammála um að er ekki eðlilegt því það væri ekkert nýtt fé sem kæmi inn til Eimskipafélags Íslands miðað við slíkt ákvæði. Aftur á móti ef um raunverulegt viðbótarfé inn í atvinnulífið er að ræða, þá gildi þessi heimild áfram.
    Hins vegar er líka lagt til að frádrátturinn verði lækkaður um fjórðung og ástæða þess er sú að þegar þetta er skoðað nánar þá kemur í ljós að samkvæmt þeim skattareglum sem gilda í okkar viðskiptalöndum, t.d. skattareglum OECD-landanna og einnig á væntanlegu evrópsku efnahagssvæði, þá eru slíkir frádrættir taldir ígildi ríkisstyrkja til atvinnurekstursins og eru óheimilir. Þess vegna er það líka þáttur í alþjóðlegri aðlögun íslenska skattkerfisins að draga hægt og bítandi úr slíkum heimildum. Ég veit að það eru ýmsir á vettvangi atvinnulífsins sem líta öðrum augum á þetta en staðreyndin er hins vegar sú að í þeim löndum sem við viljum taka mið af og þurfum að laga okkur að er litið á slíka frádrætti sem ígildi ríkisstyrkja.
    Ég tel, virðulegur forseti, að það sé í raun og veru ekki meira um þetta að segja. Annað frv., sem því miður er víst ekki komið inn í þingið, er eins konar fylgifrv. með þessu frv. og felur í sér breytingar á tölugildum og bið ég menn að hafa það í huga í hv. fjh.- og viðskn. ef það verður ekki komið hér á borð þingmanna á eftir, en nefndarmenn geta fengið það að sjálfsögðu um leið og þeir óska eftir því.
    Ég mælist til þess, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr. og vænti þess að Alþingi afgreiði þetta frv. sem lög áður en þingstörfum lýkur.