Tekjuskattur og eignarskattur
Mánudaginn 11. mars 1991


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Mér mun nægja að rökræða í stuttu máli við hæstv. ráðherra um þetta frv. Það er vissulega athyglisvert að ráðherra vinstri flokks skuli flytja þetta frv. Að vísu er það nú til þess að draga úr haldi því sem menn hafa í ráðuneytinu að hann skuli hafa samþykkt þessa stefnu á sínum tíma og vilja um þetta ræða.
Það er tímanna tákn að íslenska þjóðin er að reyna að dreifa auðinum meðal þjóðarinnar til þátttöku í atvinnurekstri. Við vitum öll hve mikill skortur er á áhættufé í atvinnuvegunum og höfum náð alla vega þegjandi samkomulagi um það að reyna að greiða úr þeim vanda einmitt með því að gera sem allra flestum unnt að fjárfesta í atvinnuvegunum og þá auðvitað fyrst og síðast í stórum félögum, almenningshlutafélögum. Um það hef ég reyndar fjallað í áratugi og gleðst þess vegna mjög yfir því að skilningur á þessu málefni hefur farið vaxandi. Ég ætla ekki fyrir fram að fordæma þær hugmyndir sem eru uppi hjá hæstv. ráðherra nú. Málið fer til nefndar sem ég á sæti í og þar mun ég greiða fyrir því að málið fái afgreiðslu, jafnvel þó ég greiði kannski atkvæði á móti því atriði sem ég var núna síðast að nefna.
    En ég skal samt geta um það hér að t.d. þegar Volkswagen-verksmiðjunum var breytt í almenningshlutafélag þá var það svo að þegar t.d. tekjulágt fólk og raunar aðrir festu fé í þessu merka fyrirtæki á vildarkjörum þá misstu þeir þau ef þeir seldu bréfin ýmist innan þriggja ára, ef ég man rétt, eða innan einhverra annarra tímamarka. Þetta var þannig líka að fjölskyldur fengu ákveðinn frádrátt, bréfin voru seld á mismunandi verði eftir því hvort um tekjuháa menn eða eignamenn, var að ræða til að dreifa þeim sem allra mest. Reyndin varð sú að mjög fáir seldu bréfin aftur, þau urðu flest í eigu kaupendanna, almennings þessi þrjú ár. Ég held að fimm ára mörk hafi verið þar líka.
    Það er því ekkert nýtt sem ráðherrann er hér að tala um og sannleikurinn er nú sá að ef menn kynna sér hlutafélagalög og sögu hlutafélaga í gegnum aldirnar þá er þetta hreint ekki nýtt form eða ný aðferð til þess að dreifa auði og koma á stofn fjárfrekum fyrirtækjum. Þess vegna er það alveg sjálfsagður hlutur að skoða þetta allt með opnum huga og velvild og ég fagna því enn að svona víðtækt samkomulag skuli orðið um þessa hugsun, þá hugsun að fólkið í landinu eigi í sem ríkustum mæli að eiga hlutdeild í atvinnuvegunum, að hún skuli núna beint og óbeint vera á stefnuskrá allra íslenskra stjórnmálaflokka. Það er ekki lítill árangur og sýnir að menn vilja allir, hvar í flokki sem þeir standa, hafa opin augun þegar um slík þjóðþrifamál er að ræða.
    Þetta minnir mann raunar á það sem gerðist fyrst á öldinni eða aðallega á öðrum áratug aldarinnar þegar Eimskipafélagið var stofnað sem hæstv. ráðherra vék að áðan og mörg félög önnur, hin merkustu félög. Þá var einmitt keppt að því að dreifa auðindum og völdunum eins mikið og kostur var. Það tókst allvel framan af en síðan urðu breytingar á fyrir ýmissa hluta sakir sem ég ætla ekki að rekja. Við settum mjög góð hlutafélagalög um 1978, mjög merkilega löggjöf sem hefur reynst vel á þessum byrjunarárum auðstjórnar almennings, ef ég má kalla það það. Þetta stefnir nú allt saman að því að auka fjárhagslegt vald fólksins yfir atvinnuvegunum og auka almenna eignamyndun sem hlýtur að vera takmark allra þeirra sem nú hafa öðlast þennan skilning sem ég áðan var að fagna. En tækifæri gefst til að ræða þetta nánar þegar málið kemur úr nefndinni, sem ég vænti að verði. Þó hér sé tímaþröng og verði þessa vikuna ætti að vera smuga til að ræða málið og þá kannski við hæstv. ráðherra eitthvað meira en málið skal ég svo sannarlega skoða.