Ferðaþjónusta
Mánudaginn 11. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði að hæstv. ráðherra hafði ekki orðið við beiðni minni um að láta mér í té og virtist ekki hafa neinar upplýsingar frá Fjárlaga - og hagsýslustofnun um þann kostnaðarauka sem þetta frv. felur í sér, en þeirri stjórnardeild er skylt að láta Alþingi í té slíkar upplýsingar þegar stjfrv. eru lögð fram. Er auðvitað óhjákvæmilegt að slíkt yfirlit berist samgn. sem fær þetta mál til meðferðar.
    Ég veit að ég þarf ekki að rifja það upp fyrir ráðherranum hvar þá lagagrein er að finna og auðvitað er óhjákvæmilegt að við reynum að standa við lögin. Þessi lög voru á sínum tíma sett fyrir frumkvæði Alþb. og Framsfl. svo að ég veit að sú ríkisstjórn sem nú situr, Steingríms Hermannssonar, er sérstaklega áfram um það að standa við sín eigin fyrirheit, þær vinnureglur sem þessir sömu stjórnmálamenn hafa kosið að festa í lög, ekki einu sinni heldur tvisvar, því að áður var þessi lagafyrirmæli að finna í svokölluðum Ólafslögum og voru á þeim tíma nýmæli. Ég veit að hæstv. ráðherra skilur að óhjákvæmilegt er að Fjárlaga - og hagsýslustofnun láti í té fullnægjandi upplýsingar um þann kostnaðarauka sem í frv. felst. (Gripið fram í.) Ég er ekki að tala um fjmrn., ég er að tala um annað ráðuneyti sem heitir Fjárlaga - og hagsýslustofnun.
    Ég vil vekja athygli á því í annan stað að hæstv. ráðherra vék ekki einu einasta orði að þeirri fyrirspurn minni sem lýtur að því hvort hann hafi tekið upp viðræður um það við hæstv. fjmrh. eða hvaða skoðun hann hefði á því að stíga skrefið til fulls, viðurkenna ferðaþjónustu sem samkeppnisiðnað og útflutningsiðnað í þeim skilningi að ferðaþjónusta aflar orðið verulegra gjaldeyristekna og er auðvitað rétt í samræmi við það að leggja aðstöðugjald á eins og um útflutningsframleiðslu væri að ræða. Ég hygg að svo sé gert víða í grannlöndum okkar, áreiðanlega í löndum eins og þeim sem liggja að Miðjarðarhafinu. En á hinn bóginn mun það vera svo, á sumum Norðurlöndum a.m.k., að þeir skattleggja ferðaþjónustu með svipuðum hætti og hér er gert, þó ekki eins afkáralega mikið, sem auðvitað verður ferðaþjónustu í þessum löndum fjötur um fót. En það er erfitt að bera slíkar óskir fram við fulltrúa Alþb., að hann skilji að það kunni að vera nauðsynlegt að leggja af opinber gjöld því að ær og kýr alþýðubandalagsmanna eru nú einu sinni þær að auka það sem kallað hefur verið samneysla sem hefur það í för með sér að skattar aukast og sem hefur það í för með sér einnig að halli á ríkissjóði eykst og farið er í kringum fjárlög og skuldbindingar ríkisins eftir því sem verkast vill.
    Ég geri ekki ráð fyrir því, herra forseti, að samgrh. geti töfrað fram álit Fjárlaga - og hagsýslustofnunar um útgjaldaauka þessa frv. með þeim hætti að hann geti nú dregið álitið upp úr vasa sínum eða tösku sinni ef honum hefur láðst að biðja Hagsýslustofnun um að gera þá athugun sem ég tala um. Raunar á ekki að vera þörf á því að við alþingismenn köllum sérstaklega eftir slíku mati
þar sem Fjárlaga- og hagsýslustofnun hlýtur að vera kunnugt um lagaskyldur sínar og það álit sem ég fer fram á að fá hlýtur í rauninni að liggja fyrir í Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Nú er ég auðvitað ekki að tala um einhver almenn orð á litlu blaði, heldur er ég að tala um raunverulega úttekt á efnisatriðum frv. þar sem auðvitað hlýtur að vera reynt að brjóta til mergjar hina einstöku þætti.
    Mér þótti athyglisvert að hæstv. ráðherra kaus að ræða ekki einstök efnisatriði frv. Kaus að gera ekki grein fyrir því nákvæmlega hvað hann hefur í huga í sambandi við eitt og annað sem í þessu frv. stendur. Vil ég af því tilefni, herra forseti, vekja athygli á 17. gr. frv., en þar stendur: ,,Ferðamálasjóði er heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að taka lán til starfsemi sinnar, annaðhvort í eigin nafni eða fyrir milligöngu annarra, þannig að hann geti á viðunandi hátt gegnt hlutverki sínu.
    Fjármálaráðherra er heimilt að ábyrgjast slík lán fyrir hönd ríkissjóðs.``
    Það er eftirtektarvert þegar maður flettir upp í skýringum við þessa grein að þar eru þessi litlu orð: ,,Þarfnast ekki skýringa.`` Ég er ekki á sama máli. Það er svo, sem ég veit að þingdeildarmenn vita jafn vel og ég, að í tengslum við fjárlagaafgreiðslu er jafnan lagt fram frv. til lánsfjárlaga. Það er að vísu svo í þetta skipti að ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um frágang á því lagafrv. Venjan er að afgreiða slíkt lagafrv. fyrir jólin. Venjan er, ef það dregst og tekst ekki, að viðkomandi ráðherrar, og fjmrh. kannski fyrst og fremst, reyna að þrýsta á það að fá lánsfjárlög afgreidd vegna sóma síns og auðvitað vegna þess að í lánsfjárlögum er ævinlega að finna ýmsar lagaheimildir sem varða bæði fjárfestingarsjóði atvinnugreina, sem varða sveitarfélög og ótal marga aðra aðila.
    Í I. kafla þeirra laga er einmitt fjallað um þá stofnlánasjóði sem ríkisábyrgð er á og hefur verið talið óheimilt að sjóðirnir taki lán umfram það sem í lánsfjárlögum stendur. Nú er það alveg ljóst ef við horfum á 17. gr. eins og hún stendur í frv. að slík almenn heimild gefur naumast leyfi til erlendrar lántöku. Ég hygg líka að grein af þessu tagi sé almennt til þess fallin að draga úr þeirri ráðdeildarsemi sem nauðsynleg er í sambandi við opinbera sjóði og auðvitað eru engin lagarök fyrir heimild af þessu tagi. --- Það er nú leiðinlegt, herra forseti, að aumingja ráðherra skuli þurfa að fylgjast með í báðum deildum og er svona við þröskuldinn, svona í gættinni. Hann er mikill íþróttamaður ráðherrann þannig að hann hnýtur ekki um þröskuldinn.
    Ég var að víkja að því að slík almenn heimild um ríkisábyrgð eins sérstaks sjóðs, atvinnuvegasjóðs, ég er ekki viss um að sambærileg heimild sé í lögum. Ég man ekki eftir því að fjmrh. sé heimilt án atbeina Alþingis að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs svo og svo mikið af lánum. Allt slíkt kemur hér fram með einum eða öðrum hætti. Ég hafði ekki veitt þessu athygli en mun að sjálfsögðu, þegar málið kemur til

nefndar, gera athugun á því hvort sambærilegar heimildir séu fyrir hendi í öðrum sjóðum.
    Í öðru lagi er þetta athyglisvert vegna þess að hæstv. ríkisstjórn, og einkum Alþfl., hefur haft það mjög við orð að nauðsynlegt sé að steypa fjárfestingarsjóðum atvinnuveganna saman í einn sjóð og reka slíkan sjóð á þeim grundvelli að hann geti verið fjárhagslega sjálfstæður. Og það hefur lengi verið mikið baráttumál Alþfl. að opnar ríkisábyrgðir séu ekki veittar einstökum sjóðum. Hér er sem sagt á ferðinni ákvæði sem er í öfuga átt við yfirlýsta stefnu Alþfl. í þessum málum og er raunar öndvert þeim hugmyndum að steypa saman sjóðum atvinnuveganna sem ég hef lauslega fengið spurnir af en ríkisstjórnin hefur að vísu ekki lagt fram á hinu háa Alþingi.
    Ég vil sérstaklega spyrja hæstv. ráðherra að því hvað hann hafi nákvæmlega í huga þegar hann talar hér í 20. gr. um að Ferðamálasjóður skuli starfrækja áhættulánadeild, sem veiti lán til þróunarverkefna í ferðaþjónustu samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar að höfðu samráði við Ferðamálaráð. Ef horft er til umsagnar um 20. gr. í grg., stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ákvæði 1. málsliðar greinarinnar um stofnun sérstakrar áhættulánadeildar er nýmæli, en í gildandi lögum er Ferðamálasjóði heimilt að leggja fram styrki og óafturkræf framlög til gistirýmis og annarrar starfsemi til þróunar ferðamála. Til að áhættulánadeild verði annað en nafnið tómt þarf að tryggja sjóðnum sérstakar tekjur í þessu skyni.``
    Eins og frv. er úr garði gert virðist mér sem Alþingi eigi að veita Ferðamálasjóði opna heimild til að taka lán til starfsemi sinnar, fjmrh. skuli að vísu samþykkja slíka lántöku. Síðan er gert ráð fyrir því að Ferðamálasjóður geti starfrækt sérstaka áhættulánadeild og að sjóðnum verði að afla sérstaka tekna í þessu skyni.
    Mig langar að fá upplýsingar um það frá ráðherra hvað hann hafi nákvæmlega í huga með þessu. Hvað er hæstv. ráðherra að tala um mikla fjármuni á hverju ári? Erum við að tala um 10 millj. kr., erum við að tala um 1 millj. á ári eða 100 millj.? Hver er nákvæmlega hugmynd hæstv. ráðherra? Hann hefur ekki komið inn á það og raunar hagað málflutningi sínum með þeim hætti að erfitt er að taka á einstökum atriðum.
    III. kafli frv. ber yfirskriftina ,,Fjármögnun ferðamála`` og sé ég ekki að þar sé minnst einu einasta orði á þetta atriði.
    Ég vil sem sagt spyrja hæstv. ráðherra þeirrar spurningar sem ég hef hér vikið að.