Ferðaþjónusta
Mánudaginn 11. mars 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Mér þykir leitt að geta ekki fært hv. þm. álit Fjárlaga- og hagsýslustofnunar en ég man ekki betur, ég verð bara hreinlega að játa það, að ég man ekki betur en slíkt álit hafi verið tekið saman því þegar ég kynnti frv. í þingflokkum þá rekur mig ekki minni til annars en að ég hafi haft þá meðferðis hefðbundið álit Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, enda er það prinsippregla hjá fleiri en einum þingflokki stjórnarliðsins að samþykkja ekki framlagningu stjfrv. nema slíkt álit fylgi þeim. Ég held ég megi því fullyrða að slíkt álit sé til og ég mun að sjálfsögðu sjá til þess að það berist hv. samgn. eða það verði þá útbúið ella ef það er ekki þegar fyrir hendi, þannig að það vil ég gera.
    Varðandi skattlagningu og það hvort ekki sé rétt að viðurkenna ferðaþjónustu sem útflutnings- og í raun og veru samkeppnisgrein, þá get ég tekið undir með hv. þm. að ég tel að nauðsyn beri til þess að afla ferðaþjónustunni viðurkenningar sem slíkrar. Við sjáum það á ýmsan hátt að hún hefur ekki notið slíkrar viðurkenningar og það er ekki fyrr en í raun hin allra síðustu ár sem menn eru farnir, t.d. í atvinnuvegaskýrslum og gjaldeyrisöflunarupplýsingum, að viðurkenna ferðaþjónustuna sem slíka grein. Til að mynda er nú farið að skipta upp í tekjum hótela og veitingahúsa gjaldeyristekjuþættinum sem af ferðaþjónustunni stafar. Það er jafnframt ætlunin, t.d. með samræmingu á launasköttum, með endurskoðun á aðstöðugjöldum og fleiri slíkum aðgerðum, eins og hv. þm. veit væntanlega, að reyna að samræma skattlagningu hinna einstöku atvinnugreina. Til að mynda er ætlunin að sá mismunur sem verið hefur á launaskatti og öðrum slíkum gjöldum hverfi smátt og smátt.
    Það hvernig ferðaþjónusta kemur út úr virðisaukaskatti er allflókið mál. Vissulega væri hægt að hugsa sér að hún nyti enn meiri ívilnana á því sviði en hún gerir. En það er þó þannig að að mörgu leyti kemur virðisaukaskattskerfið ekki illa út fyrir ferðaþjónustuna, ýmsar greinar hennar hafa jafnvel frekar styrkt stöðu sína ef eitthvað er með tilkomu virðisaukaskatts í staðinn fyrir söluskatt vegna þess að þar eyðast og hverfa þau uppsöfnunaráhrif sem áður voru fyrir hendi.
    Um 17. og 18. gr. og þær greinar sem lúta að starfsemi Ferðamálasjóðs er það rétt hjá hv. þm. að sú heimild sem sett er inn í lögin um áhættulánadeild í Ferðamálasjóði er ekki útfærð í einstökum atriðum hvernig með það yrði farið. Það yrði væntanlega gert fyrst og fremst með tvennum hætti, annars vegar reynir þá á það hvort Alþingi vill leggja til fjármagn sérstaklega til að gera Ferðamálasjóði kleift að sinna því verkefni sem hann hefur ekki getað undanfarin ár, að veita annað tveggja, nema hvort tveggja væri, beina styrki til uppbyggingar eða sérstök hagstæð lán, t.d. til þróunarstarfsemi, til sérstaklega áhættusamrar uppbyggingar úti á landsbyggðinni o.s.frv. Hins vegar var það vilji ferðamálanefndarinnar að hafa þessi ákvæði inni í lögunum um Ferðamálasjóð þannig að ef til

þess fengist fjármagn þá væri heimildin fyrir hendi til að veita til viðbótar hefðbundinni lánafyrirgreiðslu slíka styrki og slík hagstæð lán eða áhættulán út í greinina. Það held ég að sé eðlilegt og heppilegt atriði þó svo að það sé ekki útfært í smáatriðum hvernig frá slíku yrði gengið enda yrði það væntanlega með reglugerð um sjóðinn og á ábyrgð stjórnar sjóðsins að útfæra það og fara með það vald í einstökum atriðum.
    Herra forseti. Ég vona að þetta hafi svarað hv. þm. Jafnframt býð ég fram alla þá aðstoð við hv. samgn. í störfum hennar sem óskað verður eftir.