Mannanöfn
Mánudaginn 11. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það er rétt út af þeim umræðum sem urðu hér við 2. umr. um þetta mál um dagsektir sem gert er ráð fyrir í 23. gr. frv. Það hafa orðið hér nokkrar umræður um þetta atriði og ég vil aðeins láta það koma fram að að fengnum þeim skýringum sem hv. 4. þm. Norðurl. v. gaf hér við 2. umr. um þetta atriði, þá sé ég ekki ástæðu til að flytja þá brtt. sem ég hafði þá boðað. Hins vegar er alveg ljóst að sú skýring sem hann kom þar með á þessum málum er nokkuð seint fram komin miðað við allar þær umræður sem fram hafa farið um þetta atriði hér við 1. og 2. umr.
    En til þess að það liggi alveg fyrir hvernig þetta mál bar að, þá er nauðsynlegt að það komi fram að í frv. eins og það var upphaflega flutt var ekki gert ráð fyrir ákveðinni upphæð í dagsektir. Hins vegar kom tillaga frá dómsmrn. til hv. menntmn. um að þessar dagsektir yrðu 2000 kr. en nefndin ákvað að hafa þær 1000 kr. Og að fengnum þeim skýringum sem hv. þm. Ragnar Arnalds, formaður menntmn., gaf um eðli þessara sekta, þetta væru þvingunarúrræði en ekki refsiúrræði, þá sé ég ekki ástæðu til að amast frekar við þessum texta. Hitt er annað mál að hæstv. menntmrh. og sömuleiðis hæstv. dómsmrh. hafa sagt það hér við umræður um þetta mál að þeir séu andvígir sektum í þessum efnum eða eins og hæstv. menntmrh. sagði þá væri hann ekki sektartrúar.
    Ég ætla ekki að lengja þessar umræður, virðulegi forseti. Ég tel að þetta mál hafi fengið ágæta meðhöndlun í hv. deild og treysti því að það verði afgreitt eins og það er nú orðið eftir afgreiðslu deildarinnar.