Samvinnufélög
Mánudaginn 11. mars 1991


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Fjh. - og viðskn. hefur haft til meðferðar frv. til laga um samvinnufélög og skilar meiri hl. hennar nál. á þskj. 827.
    Nefndin hefur fjallað um frv. á mörgum fundum, sjö að mig minnir. Hún fékk á sinn fund til viðræðna um það Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóra, Ævar Ísberg vararíkisskattstjóra, Stefán Má Stefánsson lagaprófessor, Geir Gunnarsson, endurskoðanda Sambands ísl. samvinnufélaga, Ragnar Hafliðason frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands og Steingrím Ara Arason frá Verslunarráði Íslands.
    Niðurstaða meiri hl. er sú að mæla með samþykkt frv. með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj., þ.e. þskj. 828. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kunna að koma. Undir þetta rita Páll Pétursson, Guðmundur G. Þórarinsson, Ragnar Arnalds, Jón Sæmundur Sigurjónsson og með fyrirvara þeir Friðrik Sophusson og Matthías Bjarnason.
    Brtt. á þskj. 828 eru tvær. Fyrri brtt. er þannig að í stað 2. mgr. 44. gr. komi fjórar nýjar málsgreinar er orðist svo:
    ,,Um framsal og veðsetningu samvinnuhlutabréfa gilda venjulegar reglur um viðskiptabréf nema annað sé tekið skýrt fram í bréfinu.
    Samvinnufélag má aldrei eiga lengur en þrjá mánuði meira en 10% af hlutum eigin B-deildar stofnsjóðs. Eignist félagið meira af slíkum hlutum, svo sem með kaupum eða fyrir annað framsal, skal það hafa selt hlutina þannig að lögmæltu marki sé náð innan þriggja mánaða.
    Nú eignast dótturfélag samvinnufélags hluti í móðurfélaginu, eða tekur þá að veði, og eiga þá ákvæði 3. mgr. við.
    Samvinnufélagi er óheimilt að taka eigin samvinnuhlutabréf að veði til tryggingar lánum til eigenda slíkra bréfa.``
    Það er um þessar brtt. að segja að meiri hl. nefndarinnar þótti sem eðlilegt væri að um samvinnufélög giltu svipaðar reglur og um hlutafélög og þessari brtt. er ætlað að stuðla að því að þar sé jafnræði á milli.
    Hin brtt. er um að við ákvæði til bráðabirgða bætist svohljóðandi málsgrein:
    ,,Viðskrh. skal eftir setningu laga þessara skipa nefnd sem hafi það hlutverk að gera tillögur um framtíðarskipan innlánsdeilda samvinnufélaga. Skal nefndin skila áliti í síðasta lagi 1. júlí 1992. Jafnframt skal nefndin gera tillögur um þær lagabreytingar sem nauðsynlegar kunna að verða til þess að fella reglur um rekstur innlánsdeilda að almennum reglum sem gilda um aðrar innlánsstofnanir og jafnframt taka tillit til sérstöðu starfandi innlánsdeilda og þýðingar þeirra fyrir hlutaðeigandi samvinnufélög.``
    Það er um brtt. að segja, herra forseti, að meðhöndlun innlánsdeilda samvinnufélaganna í frv. var ekki einróma fagnað, menn höfðu ýmsar athugasemdir fram að færa og var horfið að því ráði að fresta afgreiðslu þess þáttar málsins og menn komu sér saman um að viðskrh. skipaði nefnd til að fara sérstaklega yfir þann þátt laganna og skal hún skila áliti í síðasta lagi 1. júlí 1992. En þar til lögum hefur verið breytt starfa innlánsdeildir að sjálfsögðu svo sem verið hefur.