Starfskjör presta þjóðkirkjunnar
Mánudaginn 11. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í greinargerð þess frv. sem ég mæli hér fyrir um starfskjör presta, þá hefur Prestafélag Íslands farið fram á það að kjör presta verði ákveðin af Kjaradómi. Það hefur farið fram atkvæðagreiðsla meðal allra félagsmanna í Prestafélagi Íslands og með yfirgnæfandi meiri hluta var samþykkt að óska eftir þessum breytingum. Ástæðurnar eru m.a. þær að störf presta eru þess eðlis að mjög erfitt er fyrir presta að heyja venjulega kjarabaráttu, efna til verkfallsaðgerða eða grípa til hliðstæðra aðferða til þess að knýja fram breytingar á sínum kjörum. Prestar eiga erfitt með að fella niður jarðarfarir um lengri tíma eða fresta ýmsum öðrum prestsverkum, t.d. ef jólahátíðir og páskahátíðir og hvítasunnuhátíðir lenda inni í verkfallstímanum. Þess vegna vænti ég að það sé skilningur á því hér í þessari hv. deild eins og í hv. Ed. að þessi breyting sé sjálfsögð og eðlileg og mæli með því að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og fjh. - og viðskn.