Grunnskóli
Mánudaginn 11. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Þær auglýsingar sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni vöktu vissulega mikla athygli hér fyrir helgi, svo ósmekklegar sem þær nú eru. Ég tel hins vegar að hæstv. menntmrh. hafi beðist afsökunar á þessum auglýsingum í máli sínu hér áðan. Hann lýsti því yfir að birting auglýsinganna á þessum tíma væru mistök og harmaði þessa birtingu. Það má segja að hann sé maður að meiri fyrir vikið en vissulega er það mikið álitamál hversu einstök ráðuneyti eiga að ganga langt í því að birta auglýsingar um einstök mál sem þessi ráðuneyti eru með á sinni könnu. Ég held að þó að hæstv. utanrrh. hafi auglýst fund einn sem hann hélt hér á veitingastað í borginni fyrir tugi þúsunda í dagblöðunum, þá sé það ekki fordæmi sem önnur ráðuneyti ættu að taka sér til fyrirmyndar, eða yfirleitt að vera að taka hér upp einhverjar áróðursherferðir í fjölmiðlum vegna mála sem í gangi eru í þinginu. Það nær engri átt að láta ráðuneytin borga slíkan áróðurskostnað. En nóg um þessar auglýsingar. Ég tel að það sé komin skýring á þeim. Eftir stendur hins vegar það sem ráðherrann segir í Morgunblaðinu í gær með stórri fyrirsögn: ,,Sjálfstæðisflokkurinn er á móti uppbyggingu grunnskóla.``
    Ég veit ekki hvar þessi hæstv. menntmrh. hefur alið manninn að undanförnu ef þetta er sú ályktun sem hann dregur af umræðum hér í þessari deild um þetta frv. ,,Sjálfstæðisflokkurinn er á móti uppbyggingu grunnskóla,`` segir hér. Það er langt seilst í málefnafátækt virðulegs ráðherra þegar slíkt er borið á borð fullum fetum eftir þær umræður sem orðið hafa um þetta mál hér í deildinni. Þetta er auðvitað öldungis fráleitt og hreinasta ósvífni að bera svona fullyrðingar á borð í blöðum landsins.
    Ráðherrann segir hér enn: ,,Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er á móti uppbyggingu grunnskóla og vill ekki taka þátt í þeirri framsýnu stefnu sem við höfum verið að móta.``
    Ég held að ráðherrann ætti að gera það sama og hann gerði varðandi auglýsingarnar hér áðan, að koma hér upp og segja að þetta hafi líka verið mistök og átti ekki að birtast á þessum tíma, þessi ummæli. Þá getum við tekið þau af dagskrá eins og þessar auglýsingar sem gerðar hafa verið að umtalsefni.
    Það fer nú að sneiðast um tímann hér í þessari hv. deild áður en þingi verður slitið hér væntanlega síðar í vikunni og ég skal ekki eyða miklum tíma til viðbótar í þetta mál hér við 3. umr.
    Ég gerði við 2. umr. málsins athugasemdir við fjölmörg atriði sem ég taldi ástæðu til að nefna og ég hef síðan leyft mér að flytja á þskj. 812 nokkrar brtt. við frv. sem réttast væri reyndar, eins og lagt var til við 2. umr., að vísa til ríkisstjórnarinnar. En fari svo að þetta frv. verði afgreitt og fái hér framgang, þá tel ég þó rétt að freista þess að fá örfáum atriðum breytt þó að þau séu í sjálfu sér ekki stór og þó svo að hinum stóru spurningum um kostnaðarhlið málsins sé vissulega ekki svarað þannig að fullnægjandi sé.
    Ég ætla að leyfa mér að renna yfir þessar brtt.,

virðulegur forseti. Hin fyrsta gerir ráð fyrir að skipan grunnskólaráðs verði breytt frá því sem ráð er fyrir gert í frv. þannig að fulltrúum Kennaraháskólans fækki um einn en í staðinn komi fulltrúi foreldrafélaga í dreifbýli. Ég legg þetta til vegna þess að ég tel eðlilegt að foreldrar og félög þeirra hafi meiri ítök í þessu grunnskólaráði heldur en frv. gerir ráð fyrir og þeir fái tvo fulltrúa í staðinn fyrir einn. Þá þarf að fækka um einn einhvers staðar annars staðar og án þess að ég hafi neitt á móti því að Kennaraháskóli Íslands eigi þar sína fulltrúa, þá tel ég að það ætti að nægja til þess að koma sjónarmiðum Kennaraháskólans á framfæri að þar væri einn fulltrúi í stað tveggja. Því er þessi tillaga flutt við 3. mgr. 9. gr. frv.
    Í öðru lagi, virðulegi forseti, hef ég gert brtt. við 17. gr. frv. Hún er þess efnis að gert er ráð fyrir því að það sé í verkahring sveitarstjórna í hinum fjölmennari sveitarfélögum að skipta sveitarfélögunum í skólahverfi án atbeina menntmrn. Tillagan gerir ráð fyrir því að sveitarstjórnum í fjölmennari sveitarfélögum sé heimilt að skipta þeim í skólahverfi. En í frv. eins og það er núna segir að sveitarstjórnir annist þá skiptingu með samþykki menntmrn. Ég tel að íhlutun menntmrn. um þetta atriði sé gjörsamlega óþörf.
    Við 18. gr. hef ég lagt fram þá tillögu að það verði hnykkt á því hvert hlutverk skólanefndar í hverju skólahverfi sé að því er varðar tillögur um umbætur í skólastjórastarfi. Ég vil að það sé gert ákveðnara og orðalagið verði eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Enn fremur er það hlutverk skólanefndar að gera tillögur til skólastjóra í skólahverfinu um umbætur í skólastarfinu.``
    Þá hef ég, virðulegi forseti, leyft mér að gera tvær brtt. við 26. gr. Önnur er um það að brott falli sú málsgrein þar sem segir að áður en framkvæmdir hefjist við skólamannvirki skuli leita eftir samþykki menntmrn. fyrir viðkomandi mannvirki. Ég tel ástæðulaust að sveitarfélag sem á annað borð treystir sér til þess að ráðast í framkvæmdir við skólamannvirki þurfi að leita samþykkis menntmrn. til að geta ráðist í þær framkvæmdir eða hafið þær.
    Loks er tillaga við 26. gr. um að í stað þess að skólanefnd geri tillögu um nafn skóla sem menntmrn. staðfesti að fenginni umsögn örnefnanefndar komi einfaldlega: ,,Skólanefnd ákveður nafn skóla og tilkynnir menntamálaráðuneytinu.``
    Þetta er að vísu ekki stórt mál en engu að síður tel ég það eðlilegt og reyndar sjálfsagt að skólanefndir á hverjum stað geti sjálfar gefið skólum í sínu umdæmi nöfn, enda ekki ástæða til að ætla að slíkar skólanefndir geri annað en að vanda valið á nöfnum þessara stofnana. Ég býst við því að hver skólanefnd leggi metnað sinn í það að velja nýjum skólum í umdæminu falleg og hæfandi nöfn.
    Ég kem þá að fimmtu brtt. á þskj. 812. Hún lýtur að 52. gr. frv. Þar hef ég leyft mér að leggja til, í samræmi við það sem ég sagði við 2. umr., að kveðið verði á um það í lögunum að komið verði í ríkara mæli heldur en nú er til móts við nemendur sem náð hafa afburða árangri í námi eða eru að dómi

skólastjóra almennt þroskaðri heldur en gerist og gengur meðal jafnaldra þeirra.
    Ég fór um þetta nokkrum orðum í ræðu minni hér við 2. umr. og það er vissulega umhugsunarefni að í öllum grunnskólalögunum skuli ekki vera neitt kveðið á um hvernig koma skuli til móts við þarfir þessara einstaklinga. Ekki vegna þess að hæfileikar eða dugnaður einstakra nemenda sé vandamál, heldur vegna þess að það hefur sýnt sig, og það hefur komið í ljós í könnunum sem gerðar hafa verið um það efni, að til að mynda kennarar telja að slíkum nemendum sé haldið niðri eins og skólastarfi er háttað í dag.
    Ég tel mjög nauðsynlegt að það sé hlúð að hæfileikum slíkra einstaklinga og þeir fái jafnan eðlileg tækifæri til þess að finna kröftum sínum viðnám. Ég treysti mér hins vegar ekki til að segja fyrir um það hvernig eigi að hátta slíku í einstökum atriðum. Mér finnst eðlilegt að í þessum lögum sé kveðið á um það að nemendur sem náð hafa afburða árangri í námi og hafa meiri þroska en almennt gerist, að dómi skólastjóra, eigi þess kost að ljúka skyldunáminu á styttri tíma heldur en gengur og gerist, þ.e. á styttri tíma heldur en tíu árum. Mér finnst eðlilegt að um þetta sé beint ákvæði í lögunum og það sé lagt í vald viðkomandi skólastjóra og kennara að meta hverju sinni hvernig best er að framkvæma þetta ákvæði og að sjálfsögðu í góðu samkomulagi við viðkomandi nemendur og forráðamenn þeirra. Auðvitað er ekki víst, eins og ég gat um við 2. umr., að allir nemendur sem hér ættu hlut að máli kærðu sig um að flýta náminu. Það er auðvitað ekkert þar með sagt. En það er eðlilegt að mínum dómi að þarna sé möguleiki fyrir hendi í sjálfum lögunum.
    Síðasta brtt. mín, virðulegur forseti, á þskj. 812 lýtur að 72. gr. frv. Þar segir í næstsíðustu málsgrein: ,,Einkaskólar eiga ekki kröfu til styrks af almannafé.`` Og í síðustu málsgrein: ,,Skólagjöld eru háð samþykki menntamálaráðuneytisins.`` Ég tel að í þessu felist mótsögn og legg til að síðari málsgreinin falli brott, um að skólagjöld skuli vera háð samþykki menntmrn. Ég tel reyndar að ef skólinn uppfyllir allar þær kröfur sem ráðuneytið gerir, faglegar kröfur, þá geti þetta ákvæði í raun drepið niður þá starfsemi sem skólinn hefur með höndum og hyggst standa að. Ég tel því að þetta ákvæði eigi að falla brott, jafnvel þó að um þetta kunni að vera einhver ákvæði í hinum svokölluðu skólakostnaðarlögum sem ráðherra vék hér að við 2. umr. Það væri þá kannski nær að breyta þeim ákvæðum til samræmis við þá brtt. sem ég hef hér flutt.
    Virðulegi forseti. Ég sagði að ég hygðist ekki flytja hér langt mál að þessu sinni. Ég vildi gera grein fyrir mínum brtt. eins og eðlilegt er, en ég stend við það sem fram kom við 2. umr. að langeðlilegast er í þessu máli að fresta afgreiðslu þess, gefa meiri tíma til að ná víðtækara samkomulagi um málið heldur en greinilega er fyrir hendi nú.
    Það þýðir ekki fyrir hæstv. menntmrh. að skeyta skapi sínu á aðilum utan þings sem mælt hafa gegn

samþykkt þessa frv. og kenna Sjálfstfl. um það. Sannleikurinn er sá að um þetta mál er ekki sú sátt sem ætti að vera um sjálf grunnskólalögin og eftir stendur jafnframt, eins og fram hefur komið í máli margra þingmanna, stjórnarandstæðinga sem stjórnarliða, að kostnaðarhlið málsins er óljós og fyrir henni hefur ekki verið séð. Og þegar af þeirri ástæðu væri eðlilegt að bíða með afgreiðslu málsins til næsta þings í stað þess að freista þess að pressa það gegnum þingið við núverandi aðstæður í krafti meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna.