Stjórnarráð Íslands
Mánudaginn 11. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Ég hygg að það væri kannski rétt áður en við segjum skilið við þetta litla frv. um breytingar á lögum um Stjórnarráðið að fá upplýst hér í deildinni af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað líði frv. til laga um allt Stjórnarráðið. Þegar þetta litla frv. var til 1. umr. spannst nokkur umræða hér um heildarendurskoðun laganna um Stjórnarráðið og mörgum þótti óeðlilegt að vera að tína til litla hluta af stjórnarráðslögunum og knýja þá hér í gegn, þó út af fyrir sig sé kannski ekki efnislegur ágreiningur um þau atriði.
    Þetta frv. sem nú er til umræðu snýst um það að leggja niður hagsýslustofnun sem sérstakt ráðuneyti. Eflaust mætti hugsa sér að gera þær breytingar á stjórnarráðslögum sem menn ætla sér í litlum bútum með því að flytja eitt og eitt frv. um að fækka ráðuneytum eða gera breytingar á Stjórnarráðinu að öðru leyti, en það er auðvitað ekki hin rétta leið þó svo að menn hafi ekki mikið á móti þessu tiltekna frv. sem nú er á ferðinni. Og fyrst enginn hefur orðið til þess að inna eftir því, hvorki við 2. umr. né við 3. umr., þá tel ég rétt að grennslast fyrir um það hjá ríkisstjórninni: Hvað líður heildarendurskoðun laganna um Stjórnarráðið? Hvenær kemur frv. um það efni hér í þingið? Verður það eitt af því sem lagt verður hér fram í þessari viku til sýningar, eða ekki? Verður það látið bíða næsta hausts?