Samningar um álver
Mánudaginn 11. mars 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um samninga um álver í Vatnsleysustrandarhreppi sem er prentað á þskj. 841. Tillagan er á þessa leið, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Alþingi ályktar að halda skuli áfram samningaviðræðum um byggingu og rekstur álvers með um 210.000 tonna ársframleiðslugetu og viðræðum um kaup á jarðnæði fyrir álverið og höfn vegna þess í samvinnu við Vatnsleysustrandarhrepp. Þegar samkomulag hefur tekist um orkuverð og mengunarvarnir skulu niðurstöður lagðar fyrir Alþingi.``
    Frú forseti. Tilgangurinn með þessari tillögu er að fá fram skýra jákvæða afstöðu Alþingis til samningagerðar um álver við Keilisnes í Vatnsleysustrandarhreppi. Það mun styrkja samningsstöðu Íslands. Það mun auðvelda fjármögnun þessara verkefna. Það mun greiða fyrir lokaumfjöllun um samningana í stjórnum álfélaganna þriggja sem við eigum nú í samningum við.
    Samhliða þessari þáltill. hefur verið lögð fram sérstök skýrsla iðnrh. til Alþingis um álverið á Keilisnesi. Í skýrslunni koma fram drög að frv. til heimildarlaga sem fylgiskjal. Jafnframt þessu hafa verið gerðar tvær tillögur um heimildir á lánsfjárlögum fyrir árið 1991 vegna undirbúnings fyrir álversframkvæmdirnar.
    Í fyrsta lagi er þar gerð tillaga um að gera Vatnsleysustrandarhreppi kleift að kaupa jarðnæði fyrir álverið og í öðru lagi er gerð tillaga um lántökuheimild fyrir Landsvirkjun vegna virkjanaundirbúnings á árinu 1991 til að hægt verði að sjá nýju álveri fyrir raforku frá áramótunum 1994 -- 1995. Nánari grein er gerð fyrir þessum heimildum í grg. með þáltill.
    Það er brýnt að Alþingi samþykki þessar þrjár tillögur og leggi með því af Íslands hálfu grunn að því að álver á Keilisnesi geti tekið til starfa frá áramótunum 1994 -- 1995. Með samþykkt tillagnanna má tryggja að gangsetning álversins frestist aðeins um fimm mánuði frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir og ráðgert var við undirritun yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda og Atlantsálsaðilanna 13. mars 1990. Þá var reiknað með að upphaf framleiðslunnar yrði í ágústbyrjun 1994 en nú er reiknað með því að upphaf framleiðslunnar verði um áramótin 1994 -- 1995. Þetta á að vera unnt þótt samningagerðin um álverið og viðræður um fjármögnun þess taki nokkuð lengri tíma en áður var gert ráð fyrir.
    Frú forseti. Orkufrek stóriðja hlýtur að vera snar þáttur í atvinnuuppbyggingu hér á landi svo okkur takist að halda hér lífskjörum sem eru sambærileg við það besta sem gerist með nálægum þjóðum. Við verðum að horfast í augu við það að á síðustu árum hefur dregið úr hagvexti á Íslandi á sama tíma og hann hefur heldur aukist í iðnríkjunum. Það lætur nærri að litið yfir síðustu tíu ár sé hagvöxtur hér helmingi lægri en hann er í hinum auðugu iðnríkjum innan OECD. Á undanförnum árum hefur því heldur dregið í sundur með Íslendingum og hinum auðugu iðnríkjum á mælikvarða þjóðartekna. Takmarkaðir fiskstofnar kringum landið setja auðvitað vaxtarmöguleikum sjávarútvegsins skorður. Það er því mikilvægt fyrir áframhaldandi hagvöxt að auka afrakstur þessara fiskstofna en við verðum að hafa það í huga að það er einungis unnt með umbótum sem hljóta að taka verulegan tíma að skila sér. Nýjar atvinnugreinar verða því að koma til eigi lífskjörin hér að verða sambærileg við það sem þau eru í okkar nágrannalöndum. Nýting orkulindanna til atvinnuuppbyggingar er því afar mikilvæg en eins og kunnugt er hafa þær enn aðeins að litlu leyti verið nýttar. Meginmarkmiðin með nýtingu orkulindanna til eflingar atvinnu eru þessi:
    1. Að treysta grundvöll atvinnu í landinu.
    2. Að auka hagvöxt og kaupmátt tekna almennings.
    3. Að byggja hér upp kunnáttu og hugvit á sviði orkuvinnslu og stóriðju.
    4. Að auka útflutningstekjur.
    5. Að jafna hagsveifluna.
    6. Að nýta okkar náttúruauðlindir skynsamlega.
    7. Að eiga þátt í að leysa orku - og umhverfisvanda jarðarinnar og efla um leið atvinnuvegi Íslendinga.
    8. Að laða að erlent áhættufé til atvinnuuppbyggingar í stað erlendrar skuldsetningar.
    Bygging og rekstur álvers við Keilisnes fellur vel að öllum þessum langtímasjónarmiðum um hagnýtingu íslenskra orkulinda.
    Þjóðhagsstofnun hefur kannað þjóðhagsleg áhrif Atlantsálsfyrirtækisins. Hún hefur gert það með því að bera saman tvö dæmi um líklega hagþróun næstu árin. Annars vegar svokallað grunndæmi þar sem ekki er gert ráð fyrir stóriðjuframkvæmdum og hins vegar dæmi sem hún nefnir áldæmi. Í grunndæminu er gert ráð fyrir óbreyttum fiskafla en lítils háttar aukningu verðmætis og hækkunar verðs á sjávarafurðum. Í áldæminu er gert ráð fyrir framkvæmdum vegna álvers, virkjana og annarra framkvæmda sem nauðsynlegar eru til þess að sjá þessu mikla iðjuveri fyrir raforku og þjónustu. Helstu niðurstöður þessara athugana Þjóðhagsstofnunar, sem gerðar voru seint á liðnu ári, eru þessar:
    1. Í áldæminu verður árlegur hagvöxtur næstu fimm ár að jafnaði um 2,5% sem er um 1% hærra hvert ár en í grunndæminu.
    2. Eftir að álverið er komið í eðlilegan rekstur mun það auka landsframleiðsluna varanlega um 4%.
    3. Kaupmáttur ráðstöfunartekna almennings verður fyrir bragðið 4% hærri en annars væri.
    4. Atvinna á framkvæmdartímanum verður að jafnaði 0,5% meiri en annars væri.
    5. Útflutningur Íslendinga verður um 20% meiri þegar álverið er komið í fullan rekstur en hann er í grunndæminu.
    Nú stendur yfir endurmat á þjóðhagslegu mikilvægi álversins. Fyrstu vísbendingar frá því starfi styrkja í öllum greinum þessar fyrri niðurstöður og sýna að með því að hefja þessar framkvæmdir má

rjúfa þá kyrrstöðu, mér liggur við að segja stöðnun, sem því miður hefur ríkt í efnahagslífi okkar undanfarin ár. Nýtt álver verður mikilvægt skref í iðnþróun hér á landi. Fullkomið álver af þeirri gerð sem Atlantsálsfyrirtækin hyggjast reisa hér og reka er hátækniverksmiðja þar sem munu starfa allt að 600 menn. Af þeim eru tæplega 200 iðnaðarmenn og um 60 sérfræðingar með háskóla - eða tæknimenntun. Það er talið að um þriðjungur starfanna í álveri, eða um 200, henti konum jafn vel og körlum. Fyrir utan störf við rekstur álversins kalla raforkuframkvæmdir og undirbúningur og bygging Atlantsáls á mikla vinnu næstu fjögur til fimm árin. Það er áætlað að samtals þurfi til þessara starfa um 5000 ársverk.
Þar af má gera ráð fyrir að 600 ársverkum fyrir íslenska verk - og tæknifræðinga sem dreifast á um fjögur ár. Það er okkur afar mikilvægt að hér á landi komi fram verkefni við hæfi fyrir okkar vel menntaða háskólafólk og sérfræðinga í mörgum greinum.
    Eftir hverju erum við hér að sælast? Lítum aðeins á það. Hvað þýðir 4% aukning á kaupmætti ráðstöfunartekna á hvert mannsbarn? Við erum vön að líta á þessar tölur í mynd breytinga frá einu ári til annars eða frá einu tímabili til annars. En lítum dálítið öðruvísi á. Til þess að gefa hugmynd um það hvers virði 4% varanleg kaupmáttaraukning er má taka dæmi af ungri fjögurra manna fjölskyldu. Til þess að hún væri jafnsett miðað við venjulegar ævilíkur á okkar landi þyrfti að borga henni um 2 millj. kr. ef Atlantsálsverið verður ekki reist. Þetta er mikið fé.
    Nýtt álver á Íslandi kemur þar á ofan líklega í stað álvers annars staðar, sem ætla má að fengi sína raforku annaðhvort með bruna kola eða olíu eða þá frá kjarnorkuverum. Aukin álbræðsla á Íslandi stuðlar þannig að betra umhverfi í heiminum því að við eigum þess kost, svo lánsöm erum við, að nota hreina orkulind, vatnsorkuna, til þess að sjá álverinu fyrir orku. Jakob Björnsson orkumálastjóri hefur bent á að ef raforka fyrir álver af þessari stærð væri framleidd með kolum fylgdi því losun 2,6 millj. tonna af koltvísýringi út í andrúmsloftið umfram það sem verður með nýtingu vatnsorkunnar. Að þessu skyldu menn hyggja því að það er einmitt það sem hér er að gerast að vatnsorkuknúið álver leysir af hólmi álver sem áður notuðu kol eða olíu sem orkugjafa. Dvalartími koltvísýringsins í andrúmsloftinu er mjög langur, eins og kunnugt er, og mælist í öldum fremur en árum. Gróðurhúsaáhrif af völdum hans eru því hnattrænt vandamál sem snerta allt mannkynið. Álver á Íslandi er því drjúgt framlag til alþjóðlegrar baráttu gegn þessum skaðlegu áhrifum.
    Í skýrslu Brundtland - nefndarinnar svokölluðu, sem kennd er við forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland, og ber nafnið ,,Sameiginleg framtíð vor``, er einmitt lögð mikil áhersla á alþjóðlega samvinnu til þess að forðast þann vanda sem gróðurhúsaáhrifin hafa í för með sér fyrir allt mannkyn. Ég tel að okkur beri því skylda til að færa okkur í nyt okkar hreinu orkulindir til þess að draga úr bruna jarðeldsneytis með þessum hætti. Álið hefur marga kosti aðra sem

stuðla að því að ná markmiðum Brundtland - skýrslunnar. Ál er efni sem auðvelt er að endurvinna. Álið stuðlar að betri nýtingu orkuforða jarðarinnar, því sú orka sem vinnst úr okkar vatnsafli og þjappað er saman í álið skilar sér margfalt aftur þegar búið er að gera bílana, járnbrautarvagnana, flugvélarnar og önnur flutningatæki léttari og sparneytnari með því að nota ál í staðinn fyrir stál. Með því að nýta hreina orku fallvatnanna til að framleiða ál erum við því reyndar að leggja okkar skerf til umhverfisverndar séð í stærra samhengi.
    Áform um aukinn orkufrekan iðnað hér á landi miðast nú fyrst og fremst við það að auka álframleiðslu, enda liggur Ísland vel við helstu álmörkuðum heims og nýtur sem kunnugt er tollfrelsis á Evrópumarkaði samkvæmt okkar viðskiptasamningum. Mikill uppgangur hefur verið í áliðnaðinum á undanförnum árum og eftirspurn eftir áli er að aukast og eldri verksmiðjur ganga úr sér. Heildarnotkun á áli í heiminum er um 17 millj. tonna á ári og spá sérfræðingar stöðugri aukningu á notkun þess næstu árin, aukningu sem liggur á bilinu 2 -- 4% á ári, dálítið breytilegt eftir svæðum. Ef gert er ráð fyrir 2% aukningu á ári jafngildir hún um 340 þús. tonnum á ári. Með öðrum orðum þarf að byggja 1 -- 2 álver af þeirri stærð sem Atlantsál er ráðgert að verði til þess að mæta þessari auknu þörf. Notkunin í Vestur - Evrópu er nú rúmar 4,2 millj. tonna og mun aukast í um 4,6 millj. tonna fram til aldamóta. Á sama tíma er því spáð að framleiðslugetan í Vestur - Evrópu minnki úr 4 millj. tonna í 3,6 millj. árstonna. Innflutningsþörf Vestur - Evrópu verður því orðin um milljón tonn um aldamót samkvæmt spám sérfræðinga. Tilkoma Atlantsálsversins á Íslandi gerir okkur kleift að anna um fimmtungi af þessari þörf með íslenskri álframleiðslu. Í þessum spám hefur þó ekki verið reynt að meta hver áhrif þróunin í Austur - Evrópu kann að hafa á eftirspurn eftir áli en þar er notkunin nú aðeins fáein kílógrömm á mann á hverju ári. Vaxi hún í þá notkun sem er í Vestur - Evrópu, þ.e. í 10 -- 20 kg á mann á ári, mun aukin álþörf í sameinaðri Evrópu verða mun meiri en þær spár gefa til kynna sem ég hef hér rakið. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að álver er nú vænlegasti kosturinn til þess að efla hér stóriðju á grundvelli orkulindanna. Þetta eru þær langtímahorfur sem gera það að verkum að vænlegri kostur er ekki til boða ef við í raun og veru viljum breyta vatnsaflinu í tekjur og atvinnu fyrir allan almenning.
    Auðvitað er orkufrek stóriðja ekki nein allsherjarlausn í atvinnumálum en hún er og getur verið mikilvæg viðbót við aðra atvinnuuppbyggingu sem unnið er að hér á landi. Þar þarf vissulega að hyggja að mörgu fleiru. Í því sambandi tel ég farsælast að stjórnvöld einbeiti sér að því að skapa hér almenna umgjörð um atvinnulífið þar sem framtak, dugnaður og forsjálni einstaklinganna fær að njóta sín. Þessi umgjörð þarf að vera þannig gerð að hún hvetji menn til fjárfestingar í þjóðhagslega arðbærum atvinnugreinum og stuðli að sterkari samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Ég tel einnig eðlilegt að við höfum samstarf

við erlenda aðila um uppbyggingu fyrirtækjanna í ýmsum atvinnugreinum á Íslandi. Erlend fjárfesting í nýju álveri er í reynd hrein viðbót við aðra atvinnufjárfestingu okkar. Viðleitni til að greiða fyrir álverinu dregur ekki úr öðrum möguleikum til atvinnuuppbyggingar. Þvert á móti eykur álverið möguleika til iðnþróunar í tengslum við byggingu og rekstur þess. Þannig má segja með einföldum orðum að stóriðjan styður almennan iðnað. Hún bætir efnahagslegan stöðugleika, fjölgar tækifærum til smárekstrar, bæði í iðnaði og þjónustu.
    Þá vil ég enn geta þess að samhliða viðræðum um álver er nú á vegum iðnrn. fylgst með þróun margra iðngreina auk þess sem orkunýtingaráformin sem unnið er að taka einnig til eldsneytisframleiðslu og hugsanlegrar beinnar sölu á raforku til Evrópu.
    Það er rétt að viðræðurnar um álver hafa að þessu sinni tekið heldur lengri tíma en gert var ráð fyrir sl. haust þegar Alþingi var síðast gerð grein fyrir stöðu samninganna um álverið við Keilisnes. Ástæður þess hafa komið fram og skulu ekki tíundaðar hér í smáatriðum. Þeirra er reyndar getið, bæði í grg. með þessari þátill. og í skýrslunni um stöðu samninganna. Fundur sem ég átti með aðalforstjórum Atlantsálsfyrirtækjanna þriggja þann 13. febr. sl. var mjög gagnlegur og er samningsvinnunni nú haldið áfram af fullum krafti. Á þeim fundi var staðfest það sameiginlega markmið aðila að ljúka samningagerðinni innan næstu þriggja mánaða. Útvegun fjármagns mun taka nokkru lengri tíma vegna aðstæðna á fjármagnsmarkaði en það er stefnt að því að undirrita endanlega, fyrirvaralausa samninga í haust.
    Svo sem kunnugt er var það ætlunin framan af vetri að leggja fram á þessu þingi til afgreiðslu heimildarlög um nýtt álver. Vegna tafa í viðræðunum reyndist ekki mögulegt að leggja fram slíkt frv. að þessu sinni en til þess að tryggja þinglega meðferð málsins við þessar aðstæður var ákveðið að leggja fram þá þáltill. sem ég mæli hér fyrir. Með samþykkt hennar og þeirra lánsfjárheimilda, sem ég lýsti í upphafi ræðu minnar, er hægt að greiða álmálinu leið í sumar og fram á haust til lykta þess. Mikilvægt atriði í þessu efni er framlagning heimildarlagafrv. sem fskj. með skýrslunni um álverið en hún er lögð fram samhliða þessari tillögu og er hér einnig á dagskrá.
    Í skýrslunni er gerð grein fyrir Atlantsálsaðilunum þremur sem eru traustir viðsemjendur. Það er gerð ítarleg grein fyrir rekstri þeirra og starfsemi, afkomu álfyrirtækjanna þriggja sem mynda Atlantsálshópinn, Alumax, Grängers og Hoogovens, en öll þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að hafa búið við allgóða afkomu og styrka eiginfjárstöðu. Það er ráðgert að fyrirtækið bandaríska, Alumax, verði hér stjórnunaraðili en fyrirtækið hefur getið sér einkar gott orð sem rekstraraðili og stjórnandi álverksmiðja. Þá eru álverinu sjálfu gerð góð skil og fjallað um þann lagalega ramma sem starfsemi þess verður mörkuð hér á landi. Þá er gerð ítarleg grein fyrir heimildarlögunum, aðalsamningi, orkusölusamningi, starfsleyfi og hafnar - og lóðarsamningi.

    Þingleg meðferð málsins nú ætti að geta greitt fyrir samþykkt heimildarlaganna á 114. löggjafarþinginu í haust auk þess sem hún greiðir fyrir samningunum og öðrum undirbúningi álvers á Keilisnesi í sumar og fram eftir því. Minnkandi loðnuveiði á þessu ári hlýtur að minna okkur enn á það hversu hverfulir fiskstofnarnir geta verið. Bregðist þeir er hætta á enn minnkandi hagvexti og atvinnuleysi.
    Það er í þessu ljósi enn brýnna en ella að Alþingi taki nú ákvarðanir sem stuðli að byggingu nýs álvers. Til þess þurfum við jákvæða afgreiðslu þeirrar þáltill. sem hér liggur fyrir. Með farsælum samningum um álver við Keilisnes verður áralöng stöðnun í nýtingu orkulindanna til atvinnuuppbyggingar rofin, undirstöður þjóðarbúsins styrktar. Þannig brjótumst við úr þeirri kyrrstöðu sem ríkt hefur í efnahagslífinu nokkur undanfarin ár. Nú þegar betra jafnvægi ríkir í okkar efnahagsmálum en verið hefur um árabil, ef ekki um áratugaskeið, er rétt undirstaða fundin fyrir slíkar framkvæmdir.
    Frú forseti. Ég legg til að þessari tillögu verði að umræðunni lokinni vísað til hv. atvmn. og síðari umr.