Samningar um álver
Mánudaginn 11. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil biðja forsetann og þingheim afsökunar á því að menntmrh. skuli vera að tala í þessu máli. Ég tek eftir því að hans nærveru hefur ekki mikið verið óskað og menn töldu að það skipti mjög litlu sem hann hefði til málanna að leggja. En hann leyfði sér nú samt að biðja um orðið og af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þeirri að ríkisstjórnin hefur ekki afgreitt endanlega fyrir sitt leyti þær tillögur sem hún hyggst gera við breytingar á lánsfjárlögum.
    Í öðru lagi það að sá siður sem upp hefur verið tekinn hér á Alþingi á undanförnum árum að kveðja til marga ráðherra er í raun og veru orðinn gróinn hluti af þinghefðinni og það er satt best að segja útilokað, ef margir þingmenn óska eftir því, að neita um að kalla fyrir fleiri ráðherra.
    Ég hygg að ég eigi dálítinn þátt í því frá mínum stjórnarandstöðuárum að hafa komist upp með allnokkra æfingu í því að kalla til okkar marga ráðherra. Ég minnist þess að forsetar á þeim tíma vikust undir þær kvaðir með glöðu geði og reyndu jafnan að kalla þá menn til sem voru hérlendis þegar fundir voru haldnir. Ég hygg því að það sé í rauninni ósköp erfitt að víkjast undan óskum af því tagi þó að auðvitað geti þær verið ósanngjarnar við vissar aðstæður.
    Hitt er svo auðvitað rétt að hæstv. iðnrh. hefur með þetta mál að gera og talar fyrir því. En það er líka rétt að þó að hæstv. iðnrh. tali í þessu máli mun menntmrh. líka þurfa að tala þrátt fyrir fullt traust á hæstv. iðnrh. að ýmsu leyti.