Breytingar á lánsfjárlögum
Mánudaginn 11. mars 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að þurfa að tefja fundastörfin og dagskrána, en ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs er yfirlýsing sú sem kom frá hæstv. menntmrh. áðan og ég held að ég hafi tekið rétt eftir, verð þá leiðréttur ef svo er ekki, að hann hafi sagt að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki náð fullkomnu samkomulagi um þær brtt. sem leggja á ( Menntmrh.: Gengið endanlega frá.) hafi ekki gengið endanlega frá brtt. sem lagðar verða fram við lánsfjárlagafrv. Nú stendur þannig á, virðulegi forseti, að í fyrramálið er fundur í hv. fjh. - og viðskn. og mér hefur verið tjáð að það eigi að ræða þetta mál. Mér finnst þessi yfirlýsing vera með þeim hætti að það sé full ástæða til þess að spyrja hæstv. fjmrh. um það hvort þetta sé rétt og hvort þá megi búast við því að hæstv. ríkisstjórn verði búin að koma sér saman að fullu um þessi mál fyrir fundartíma nefndarinnar á morgun. Einnig langar mig til að spyrja hv. þm. Pál Pétursson, formann nefndarinnar, hvort ætlunin sé að afgreiða lánsfjárlagafrv. úr nefnd á morgun því að það er augljóst að ekki gefst hv. nefnd langur tími til að kanna þær brtt. sem fram kunna að koma frá ríkisstjórninni ef hæstv. ríkisstjórn hefur enn, kl. 10.30 rúmlega að kvöldi, ekki komið sér saman um það hvernig þær eiga endanlega að líta út.
    Mér finnst, virðulegi forseti, nauðsynlegt þar sem þessi yfirlýsing var gefin af hæstv. menntmrh. að þinginu sé gerð grein fyrir stöðu málsins þannig að hv. nefndarmenn geti áttað sig á því til hvers þessi fundur verður boðaður á morgun og hvað í raun og veru eigi að gerast á þeim fundi. Í því sambandi væri einnig gott að fá að vita hvenær hæstv. ríkisstjórn fundar um þetta mál og ef það fellur saman við fund nefndarinnar finnst mér eðlilegt að beðið sé eftir úrslitum ríkisstjórnarfundarins til þess að nefndin fái þá skýrar tillögur frá hæstv. ríkisstjórn, því nú líður senn að þinglokum ef marka má orð hæstv. forsrh.