Breytingar á lánsfjárlögum
Mánudaginn 11. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Mér er ljúft að verða við þeirri ósk sem hér kom fram, að svara því hvernig þessi mál eru stödd.
    Í ríkisstjórninni í morgun voru ræddar ýmsar hugmyndir um það hvaða breytingar yrðu gerðar á frv. til lánsfjárlaga. Þetta var dagskrárefni á ríkisstjórnarfundi sl. föstudag einnig, en þá komumst við ekki að því máli vegna þess að þá fóru fram langar umræður m.a. um búvörusamning sem nú hefur verið undirritaður.
    Á fundinum í morgun fóru einnig fram umræður mjög lengi um búvörusamning, þann hinn sama og gengið var frá í dag, þannig að ekki gafst eins mikill tími og æskilegt hefði verið til að ljúka þeirri umræðu á ríkisstjórnarfundinum í dag.
    Niðurstaðan varð hins vegar sú að ég tók saman eftir þær umræður lista yfir tillögur sem ég kynnti formönnum flokkanna síðdegis í dag. Það var ákveðið á þeim fundi að á ríkisstjórnarfundinum í fyrramálið sem hefst kl. 9.30 verði þetta tekið til meðferðar. Það er þess vegna rétt sem menntmrh. sagði hér áðan. Ríkisstjórnin hefur ekki enn þá gengið frá sínum tillögum varðandi breytingar á lánsfjárlögunum í heild sinni, en ég vænti þess að því verki verði lokið í fyrramálið.