Breytingar á lánsfjárlögum
Mánudaginn 11. mars 1991


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil að gefnu tilefni upplýsa það að á morgun er fundur boðaður í fjh. - og viðskn. Þangað koma a.m.k. tveir gestir, hugsanlega fleiri, til þess að gera grein fyrir afstöðu sinni til brtt. við lánsfjárlögin. Við eigum eftir að fara yfir allmargar brtt. í nefndinni og ræða þær í okkar hópi. Það munum við reyna að gera á morgun og taka afstöðu til sem allra flestra. Ég hef ekki uppi áform um að ljúka meðferð lánsfjárlaga á morgun. Ég vil hins vegar reyna að nota tímann og komast eins langt og við mögulega getum.
    Það liggja fyrir allmargar brtt., m.a. þær brtt. sem hæstv. iðnrh. kynnti hér og getið er um í greinargerð með þeirri þáltill. sem hér var til umræðu. Þær brtt. hafa nú um nokkurt skeið legið í möppum okkar úti í fjh. - og viðskn. og áttu að vera okkur sæmilega kunnar. En við eigum sem sagt eftir að ræða þær og taka afstöðu til þeirra ásamt ýmsum fleiri tillögum á morgun og ég vonast eftir að við komumst sem lengst með það mál. Það lifir skammt þings. Ég vonast eftir að hæstv. ríkisstjórn reyni að koma til okkar þeim erindum sem allra fyrst sem hún óskar eftir að við tökum afstöðu til.