Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er nú að hefjast þetta hefðbundna írafár sem kemur upp á síðustu dögum þingins. Nú hefur hæstv. sjútvrh., vegna fjarveru hæstv. forsrh. vænti ég, mælt fyrir frv. um Stjórnarráðið sem er verið að vísa til allshn. Ég hafði gert ráð fyrir að allshn. væri að ljúka störfum og ætti ekki eftir að fá mörg mál til viðbótar. Það er ekki bara þetta mál sem er á dagskrá til 1. umr., það er líka 5. og 6. dagskrármálið. Þess vegna væri fróðlegt að vita hvort búið er að framlengja störfum þingsins að þessu sinni, hvort við eigum að vera hérna kannski næstu viku eða hálfan mánuð, eða hvernig þessari hv. deild er ætlað að afgreiða mál sem enn virðast ekki komin á dagskrá og ætlast er til að fari gegnum þrjár umræður í deildinni á tveimur starfsdögum sem eftir eru eftir þeim upplýsingum, sem við þingmenn fengum í gær, að hér yrði fundað á morgun, miðvikudag. Á fimmtudag er gert ráð fyrir eldhúsumræðum og þá höfum við föstudaginn og þinglausnir á laugardag. Mér leikur forvitni á vita, hæstv. forseti, á hverju við megum eiga von til viðbótar ef ætlunin er að ljúka þinginu á þessum tíma sem hefur verið nefndur að undanförnu eða hvort það hefur breyst.