Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Núna í morgun var lagt fram í hv. allshn. frv. ekki ólíkt þessu um breytingar á störfum í Stjórnarráðinu. Menn hafa bent á að það væri auðvitað enginn tími til þess að ræða um neitt slíkt núna og það var fúslega dregið til baka og verður ekki sýnt hygg ég og ekki flutt. En mér finnst þetta vera ósköp svipað. Það mun vera rétt sem hæstv. ráðherra benti hér á að þetta frv. hafði einhvern veginn farið í rólegheitum í gegnum neðri deild þó það hefði nú náttúrlega átt, bæði af mér og öðrum, að skoðast betur. (Gripið fram í.) Þetta var neðri deild sagði ég. (Gripið fram í.) Ég kem að því. Það er rétt sem þingmaðurinn segir að þetta var í neðri deild. Það að það fór svona lítið skoðað sýnir að það er mjög hæpið að fara að breyta því formi að efri deild sé til þess að leiðrétta vitleysurnar úr neðri deild. Þetta segi ég nú í léttum tón að sjálfsögðu en alla vega þá hefur þetta farið fram hjá mér. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að um svona mál á að ræða ítarlega og ég held að það sé mjög gott að þetta verði þá rætt á næsta þingi. Við höfum þá væntanlega aðra ríkisstjórn, þó enginn viti hverjir verða við stjórnartauminn, og þá er ágætt að skoða þetta mál. Enda heyrðist mér nú á ráðherra að hann legði enga megináherslu á að þetta mál gengi fram. Ég met það auðvitað við hann. Hann tók á þessu ekki með ósvipuðum tón og ég, að svona mál eiga auðvitað að skoðast. Það er ekki hundrað í hættunni þó það bíði fram á haustið ef það verður þá ekki þinghald í sumar sem vel má vera.