Samvinnufélög
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um samvinnufélög á þskj. 863 sem kemur frá hv. neðri deild. Hér er um að tefla mál sem markað getur þáttaskil í atvinnusögu þjóðarinnar. Þær breytingar sem með þessu frv. eru lagðar til ættu að stuðla að því að bæta stöðu samvinnufélaganna í atvinnulífinu og gefa því félagsformi jafnræði gagnvart hlutafélögum.
    Núgildandi lög um samvinnufélög eru að stofni til frá árinu 1921 en á þeim hafa þó verið gerðar nokkrar breytingar í áranna rás. Það er löngu ljóst orðið að núgildandi rammi laga fyrir rekstur samvinnufélaga er ófullnægjandi. Því hafa verið gerðar að því nokkrar atlögur að bæta þar úr.
    Það frv. sem hér er til umræðu var samið af nefnd sem ég skipaði í apríl 1990. Frv. gerir ráð fyrir að samvinnufélögin geti starfað áfram í sama formi og þau eru nú. Í því er jafnframt lagt til, og það er aðalefni þessa frv., að veitt verði heimild til þess að færa reksturinn í form sem er mjög nærri hlutafélagsforminu, þ.e. að samvinnufélögin geti haft tvískiptan stofnsjóð þar sem A-deildin í stofnsjóðinum samsvarar venjulegum stofnsjóði eins og nú tíðkast en B-deild stofnsjóðsins sé mynduð með sölu hluta í deildinni. Til staðfestu á eignarhaldi í slíkum hlutum verði gefin út svokölluð samvinnuhlutabréf sem lúti almennum reglum um viðskiptabréf og geti gengið kaupum og sölum á markaði. Atkvæðisréttur fylgir ekki eignarhaldi á hlut í B-deild stofnsjóðs en hins vegar fylgi honum forgangur til arðgreiðslna. Með sölu hluta í B-deild stofnsjóðs geta samvinnufélögin þannig aflað sér eiginfjár á sama hátt og hlutafélög geta það með sölu nýrra hluta. Nefndin, sem samdi þetta frv., gerir ráð fyrir því að einstaklingar fái í framtíðinni sambærilega skattalega meðferð í tilefni af kaupum á hlutum í B-deild stofnsjóða samvinnufélaga eins og um kaup á hlut í hlutafélagi væri að ræða.
    Ákvæðin sem heimila myndun B-deildar stofnsjóðs í samvinnufélagi eru langþýðingarmestu nýmælin í frv. En ég vil nefna af öðrum nýmælum, sem geta haft þýðingu fyrir atvinnulífið, að ákvæði frv. falla nú miklu betur að starfsemi framleiðslusamvinnufélaga en núgildandi löggjöf leyfir. Slík félög hafa hér aðeins tíðkast í smáum stíl en þau eru mjög algengt félagsform í öðrum ríkjum Vestur-Evrópu, t.d. í Frakklandi. Þá er nú gert ráð fyrir að lögaðilar geti gerst aðilar að samvinnufélagi, t.d. hlutafélög eða sameignarfélög. Meginstefna þessa frv. er að gefa kost á því að laga samþykktir samvinnufélags að margbreytilegum aðstæðum um markmið slíkra félaga en síðan eru í því sambærileg ákvæði og eru í lögum um hlutafélög, t.d. varðandi ársreikninga, endurskoðun, ábyrgð stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, um réttindi og skyldur félagsmanna, um ráðstöfun tekjuafgangs o.fl. Ég mun ekki að þessu sinni taka tíma til að skýra þau ákvæði nánar en vísa til greinargerðarinnar með frv.
    Í 16. kafla frv. er gildistökuákvæði þar sem lagt er til að lögin taki gildi 1. jan. 1992 og falli þá núgildandi lög úr gildi að undanskilinni 29. gr., sem fjallar um innlánsdeildir samvinnufélaga. Gert er ráð fyrir að 29. gr. haldi gildi sínu til ársloka 1995. Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur um nokkurt skeið bent á það að innlánsdeildir samvinnufélaga fullnægi ekki sambærilegum öryggisákvæðum fyrir innstæðueigendur og aðrar innlánsstofnanir. Það hafa farið fram nokkrar viðræður milli bankaeftirlitsins og forsvarsmanna samvinnufélaganna um leiðir til að leggja þessar deildir niður eða sameina þær starfsemi banka og sparisjóða. Reyndin hefur verið sú að innlánsdeildunum hefur fækkað hin síðari ár.
    Í fylgifrv. með þessu frv. er lagt til að lögunum um sparisjóði verði breytt á þann hátt að samvinnufélög geti verið meðal stofnenda sparisjóða og jafnframt er bráðabirgðaákvæði í sparisjóðalögunum aðlagað tilviki sem upp getur komið við breytingu á innlánsdeild samvinnufélags í sparisjóð. Þetta fylgifrv. mætti andstöðu og hefur neðri deild því í stað þess samþykkt bráðabirgðaákvæði við þetta lagafrv. sem felur í sér að viðskrh. skipi sérstaka nefnd til þess að fara betur ofan í saumana á rekstrarfyrirkomulagi innlánsdeilda eða arftaka þeirra í framtíðinni. Ég er samþykkur þessari breytingu. Ég tel það mjög brýnt að starfsemi innlánsdeildanna lúti að öllu leyti sambærilegum öryggiskröfum og tíðkast um sparisjóði og banka.
    Virðulegi forseti. Það er mín trú að þetta frv., ef að lögum verður, muni bæta verulega möguleika samvinnufélaga til að rétta við sinn fjárhag sem hefur verið býsna erfiður á undanförnum árum eins og vel er kunnugt. Það mun einnig gera samvinnufélögunum kleift að verða hér eftir sem hingað til mikilvægt tæki til þess að treysta atvinnulífið og efla framfarir í landinu. Með frv. er samvinnufélagalöggjöfin í reynd færð í nútímabúning og hreyfingunni komið í takt við tímann.
    Ég geri það að minni tillögu að þessu frv. verði að lokinni umræðunni vísað til hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Það er mín von að það takist að afgreiða frv. sem lög frá Alþingi fyrir lok þessa þings.