Samvinnufélög
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Æðioft á undangengnum árum og raunar áratugum, fyrst sem varaþingmaður og síðan sem alþingismaður og fyrst sem þingmaður í dreifðum byggðum þar sem samvinnufélög hafa verið í hávegum höfð og síðan þingmaður Reykvíkinga, hef ég vakið máls á því hver nauðsyn það væri að breyta lögum um samvinnufélög til nútímahorfs eins og ráðherra komst hér að orði í lok ræðu sinnar. Menn hafa lengi daufheyrst við þessu. Nú er þó komin hreyfing á þetta mál með frv. sem er fyrir margra hluta sakir þess virði að skoða það. Það situr þess vegna síst á mér að vekja á því máls hér að það sé nú varla hægt að ætlast til þess að hv. efri deild geti á kannski einum til tveimur starfsdögum lokið við afgreiðslu þessa máls ofan á öll önnur. Ég held að það yrði nú dálítil hrákasmíð á því og þess vegna efast ég um að það takist að lögfesta þetta frv. nú og tel það mjög miður farið.
    Ég held að það þurfi að ræða betur við samvinnumenn. Ég veit ekki hverjir kalla sig sérstaklega samvinnumenn lengur. Samvinnufélögin eru að breyta sér í nýtt form sem raunar var rætt um allar götur síðan 1971. Á mikilli ráðstefnu þá í Bifröst á vegum Stjórnunarfélagsins áttum við, þáverandi formaður Sambands ísl. samvinnufélaga og ég, í töluverðum orðaskiptum um skipulag samvinnufélaga og almenningshlutafélaga. Ég hygg að við höfum nokkurn veginn verið að tala um sama hlutinn þá en það var ekki grundvöllur fyrir því í samvinnufélögunum á þeim tíma að breyta félögunum í nútímaleg fyrirtæki. Sem betur fer hefur það verið að gerast að undanförnu án lagabreytinga. Gömlu lögin frá 1921 hafa verið í gildi að grunni til. Þetta hefur nú tekist þó ekki væri komin þessi löggjöf en hins vegar auðvitað almenn umræða úti í þjófélaginu, sem hefur verið hin ágætasta, þegar menn fóru að átta sig á því að þetta gamla samvinnufélagaform var staðnað og gat ekki leitt til góðs hvorki fyrir félögin sjálf né viðskiptamenn þeirra eða svokallaða eigendur. En það er nú mikið álitamál hverjir teljist eigendur að samvinnufélögum. Eignarréttur þar er óbeinn ef hann er einhver. Félögin hafa verið nokkurs konar sjálfseignarstofnanir og goldið þess að það var ekki hægt að koma við hreyfingum eða menn töldu sér trú um að það væri ekki unnt, t.d. ekki að breyta þessum félögum í hlutafélög hvort sem þau voru kölluð því nafni eða einhverju öðru.
    Ég fagna því að það er skriður kominn á þessi mál en ég er hræddur um að það endist hvorki mér né öðrum tíminn til þess að gera breytingar á frv., en við skulum sjá hvað setur. Um síðir er komið þetta frv., hefði auðvitað átt að koma í þingið fyrir 20 -- 30 árum þegar hlutafélagalögunum var breytt. Árið 1978 var líka vakið á því máls að ekki mætti bíða lengur að breyta samvinnufélagalögunum til samræmis við hlutafélagalögin, sem eru hin merkasta löggjöf þar sem er sælst til fanga bæði í skandinavíurétti, engilsaxnesku réttarfari og félagarétti Bandaríkjanna t.d. og annarra þjóða, ekki bara okkar nágranna á Norðurlöndunum,

sem hafa líka búið við heldur ófullkomna hlutafélagalöggjöf þar til á seinni tíð.
Við reyndum lengi að hafa hliðsjón af þeirra löggjöf og okkar menn unnu í norrænum samstarfsnefndum um langt skeið. Löggjöf hinna Norðurlandaþjóðanna var ekki mikið merkilegri en okkar og við höfðum tiltölulega lítið til þeirra að sækja en við samþykktum sem sagt lög nr. 22/1978. Þau lög eru að meginefni í gildi enn þá. Á þeim hafa verið gerðar nokkrar leiðréttingar og menn hafa aðlagað sig breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu, t.d. þeirri þróun sem er að verða á hlutabréfamarkaði og í fjármálalífinu almennt. Þetta varð að gerast hjá samvinnufélögunum líka og hefur verið að gerast að undanförnu. Ég fagna því öllu saman og enginn skoði orð mín svo að ég vilji ekki reyna að koma þessu máli áleiðis á einum eða tveimur sólarhringum en ég er ekki sannfærður um að það verði til bóta að lögfesta það í einu og öllu eins og það nú kemur til okkar, en við sjáum til.