Samvinnufélög
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með að þetta frv. skuli vera komið fram í þinginu og að það skuli nú vera komið til hv. efri deildar. Ég get tekið undir þau orð hæstv. ráðherra að nú væri verið að færa samvinnufélögin í nútímabúning. Er það mjög mikilvægt og satt að segja tími til kominn því að það hefur staðið rekstri samvinnufélaga mjög fyrir þrifum hversu úrelt lög hafa gilt um þau.
    Ég ætla ekki að ræða efnislega mikið um frv. Ég hef kynnt mér það allvel og tel að það hefði kannski verið ástæða til þess að gera fleiri breytingar heldur en gerðar voru á því í neðri deild. En kannski eru þær ekki svo stórvægilegar að ástæða sé til að hafa mörg orð um það. Ég vil þó segja í sambandi við það bráðabirgðaákvæði sem samþykkt var í neðri deild og fjallar um innlánsdeildir að þar hefði mér þótt eðlilegra að fella út úr frv. um leið ákvæði þess efnis að innlánsdeildir skyldu lagðar niður eða að gildistími þeirra sé einungis til ársloka 1995. Mér hefði þótt eðlilegra að ákvæðið um innlánsdeildir hefði verið fellt út úr frv. og einungis verið fjallað um þær í ákvæðinu til bráðabirgða. Á þann hátt tel ég að samningsstaða kaupfélaganna, t.d. gagnvart bönkum, væri sterkari og eins væri þá meiri þrýstingur á viðkomandi nefnd að ná samkomulagi fyrir þann tíma sem henni er gefinn í frv. Þetta vildi ég nefna hér við 1. umr. ef hæstv. ráðherra vildi kannski segja sitt álit á þessu efni.
    Ég geri mér grein fyrir því að það þarf að færa innlánsdeildirnar í nútímaform og hef ekkert við það að athuga í sjálfu sér en þetta hefði mér þótt æskilegra og einmitt rök fyrir því að sparisjóðafrv. er látið liggja.
    Ég geri mér vonir um að hv. fjh.- og viðskn. taki þetta mál fljótt til umfjöllunar og að hægt verði að samþykkja það á þessu þingi þar sem, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, þau lög sem nú eru í gildi eru að stofni til frá árinu 1921 og það sér hver maður að okkar þjóðfélag er orðið ærið breytt frá þeim árum.