Samvinnufélög
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. 5. þm. Norðurl. e., að það sé sannarlega tími til kominn að færa samvinnuhreyfinguna í nútímabúning. Ég tek líka undir þau ummæli að það sé sannarlega tími til kominn að þau úreltu ákvæði, ég held að hv. þm. hafi notað orðið úreltur í því sambandi, sem gilt hafa um innlánsdeildir kaupfélaga, að það sé íhugað hver sé staða innlánsdeildanna út frá sjónarmiði þeirra sem eiga inneignir sínar í innlánsdeildum. Það er svo um margvísleg lög sem einkanlega lúta að bændum, að það er þrýst á þá að versla við tilteknar afurðastöðvar, ef svo má segja, með þeim hörmulegu afleiðingum að einstaklingar hafa verið að tapa verulegum fjárhæðum einmitt hjá samvinnufyrirtækjum. Vegna þess að innra eftirlit með rekstri slíkra félaga hefur verið ónógt og vegna þess að þessi hreyfing hefur frá fornu fari haft um sig einhvern hugsjónablæ sem veldur því að rekstur samvinnuhreyfingarinnar í heild sinni hefur ekki verið í því horfi sem ella mundi ef litið hefði verið til þessara félaga eins og hverra annarra rekstrareininga sem starfa úti á hinum frjálsa markaði. Það hefur oft borið við hér í sölum Alþingis að einstakir þingmenn hafa hreyft því að tími sé til þess kominn að endurskoða löggjöf um samvinnuhreyfinguna en viðbrögð hafa jafnan verið á eina lund, einhvers konar óljós tilfinning um að þetta sérstaka félagsform eigi að lúta öðrum lögmálum en önnur. Samsvarandi ákvæði er nú að finna í húsnæðislöggjöfinni og í búsetalögunum sem Alþfl. hefur sérstaklega beitt sér fyrir að lögfesta. En ýmislegt í sambandi við þá löggjöf er óljóst. Á hinn bóginn er enginn vafi á því að margir þeir sem eignast munu húsnæði á þeim kjörum eiga eftir, ég segi nú ekki að vakna upp við vondan draum því að þetta fólk býr auðvitað við allt önnur kjör á húsnæðismarkaði en aðrir, vildarkjör sem greidd eru niður af ríkinu, en það mun koma í ljós að þetta fólk hefur ekki þann rétt gagnvart búsetafélögunum sem það býst við að hafa.
    Þegar frv. eins og þetta er til umræðu er sjálfsagt að velta því fyrir sér hvers vegna löggjafinn skuli enn þann dag í dag taka eitt félagsform fram yfir annað. Hvernig í ósköpunum skyldi standa á því? Ef það er skynsamlegt þegar við tölum um rekstur á smásöluverslun, rekstur á sláturhúsi eða eitthvað þvílíkt, að gefa þeim einstaklingum sem standa að rekstrinum kost á því að leggja eitthvað á sig til þess að auka eignarhlut sinn og með þeim hætti styrkja eiginfjárstöðu og um leið lausafjárstöðu viðkomandi fyrirtækis, hvers vegna skyldi þá ekki líka vera eðlilegt að einstaklingarnir geti gert hið sama þegar um félag er að ræða sem hefur það fyrir markmið að eiga og reka húsnæði og leigja með góðum kjörum, eins og unnt er, þeim sem í slíku húsnæði búa?
    Í húsnæðislöggjöfinni kemur þannig fram þessi oftrú á samvinnuhreyfinguna, sem mér heyrist hæstv. iðnrh. vera nú fallinn frá í sambandi við samvinnuhreyfinguna í heild, og vona ég að þetta frv. sé merki

þess að Alþfl. sé nú að vakna til lífsins um að það sé affarasælast að Íslendingar búi við fullkomið jafnræði í húsnæðismálum og að þar sé ekki verið að umbuna einu rekstrarformi fram yfir annað með þeim hætti að þegar fram líða stundir er augljóst mál að hvers konar persónulegt pot og persónuleg hagsmunagæsla muni eiga sér stað innan þvílíkra félaga.
    Ég mun að sjálfsögðu um leið og þetta frv. verður komið til nefndar leggja áherslu á að fjh.- og viðskn. taki sér þann tíma sem hún þarf til þess að athuga frv. Ef svo fer að ekki vinnst tími til þess að afgreiða frv. og athuga það efnislega eins og nauðsyn ber til á þessum tveim eða þrem dögum sem eftir lifir þinghaldsins er að sjálfsögðu ekki við Alþingi að sakast. Það er á valdi ríkisstjórnar hversu fljótt hún leggur mál fyrir Alþingi. Það er á hinn bóginn skylda alþingismanna að athuga rækilega og til hlítar hvort viðkomandi frv. sé nægilega vel undirbúið. Sérstaklega þykir mér ástæða til að taka undir þau ummæli hv. 5. þm. Norðurl. e. að það sé nauðsynlegt að athuga mjög rækilega hver sé staða innlánsdeilda kaupfélaganna. Ég get fallist á að það þurfi að gera það út frá hagsmunum samvinnuhreyfingarinnar í heild en ég vil líka leggja áherslu á að nauðsynlegt er að athuga rækilega stöðu innlánsdeilda út frá hagsmunum þeirra sem viðskipti eiga við þær.
    Ég hef áður vakið athygli á því hér á Alþingi að þau afurðalög sem nú eru í gildi eða réttara sagt sú venja sem hér hefur skapast um afurðalánaviðskipti í samvinnuhreyfingunni hefur valdið því að einstaklingar hafa tapað verulegum fjárhæðum. Oft á tíðum það fólk sem síst skyldi og hef ég um það mjög sorgleg dæmi frá kaupfélögum sem hafa orðið gjaldþrota upp á síðkastið. Ég er ekki með þessum orðum mínum að halda því fram að það sé vegna þess að þessi sérstöku samvinnufélög hafi verið illa rekin. Ég er á hinn bóginn að undirstrika það, sem hér hefur áður verið sagt, að löggjöfin um samvinnuhreyfinguna er löngu orðin úrelt og hygg ég að við sjálfstæðismenn upp til hópa höfum verið búnir að viðurkenna það fyrir mannsaldri eða svo.
    Ég vil vekja sérstaka athygli á að samvinnuhreyfingin var á sínum tíma stofnuð til þess að annast um afurðasölu fyrir bændur. Nú er svo komið í ýmsum héruðum að bændur, sauðfjárbændur, sjá hag sínum betur borgið með því að stofna hlutafélag um reksturinn en með því að halda rekstrinum áfram í samvinnuformi. Skýringin á því er auðvitað sú að lítil hlutafélög af þessu tagi eru miklu tengdari framleiðendum en hægt er að hugsa sér í sambandi við opin samvinnufélög. Einstaklingarnir njóta þess til fullnustu ef hægt er að ná niður sláturkostnaði í slíkum félögum. Þeir njóta þess til fullnustu ef hægt er að draga úr kostnaði við skrifstofuhald og yfirbyggingu, eins og sagt er. Og þeir hafa að sjálfsögðu fullan hag af því ef fyrirtæki skilar arði. Þá fá þeir þvílíkan arð greiddan út ef þeim þykir skynsamlegt en geta á hinn bóginn líka beitt ákvæðum skattalaga til þess að varðveita sparnað sinn í hlutabréfaformi innan slíkra fyrirtækja.

    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vil kannski að lokum, herra forseti, aðeins undirstrika að í sumum héruðum hefur rekstur samvinnufélaga, t.d. Kaupfélags Eyfirðinga, verið mjög til fyrirmyndar og má raunar segja að þeir kaupfélagsstjórar sem þar hafa verið fram að þessu hafa hver með sínum hætti haft mikil áhrif á þróun héraðsins og þeim hefur tekist að reka það fyrirtæki með miklum myndarskap sem er til mikillar fyrirmyndar um allan rekstur.
    Það er því ekki ástæða til að taka þessi orð mín þannig að ég sé að fordæma samvinnurekstur. Það sem ég er einungis að taka undir er að það var löngu tímabært að færa lögin um samvinnufélög til nútímahorfs. Hið sama gildir auðvitað um sparisjóði, eins og ég skildi hv. 5. þm. Norðurl. e. að hann væri mér sammála um, og vil þess vegna endurtaka það sem ég sagði, að ég legg áherslu á að fjh.- og viðskn. taki þetta frv. til efnislegrar skoðunar og í fullri alvöru taki þeim leiðbeiningum sem komið hafa fram nú við umræðuna, m.a. frá 5. þm. Norðurl. e., að nauðsynlegt sé að kanna stöðu innlánsdeildanna og hvernig þau ákvæði sem í frv. eru snerta hagsmuni samvinnuhreyfingarinnar og þá auðvitað um leið þeirra sem í samvinnuhreyfingunni vilja vinna og eiga hagsmuni sína undir því að rekstur slíkra fyrirtækja gangi vel.