Samvinnufélög
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þær góðu undirtektir sem þetta frv. hefur fengið hér í hv. efri deild. Hér hafa aðallega tvö atriði verið til umræðu. Annars vegar sú staðreynd að með þessu frv. er staða samvinnufélaganna bætt og því félagsformi gefið jafnræði gagnvart hlutafélögum. Það er að sjálfsögðu megintilgangur frv. Hitt atriðið er staða innlánsdeildanna og sú bráðabirgðalausn sem hv. neðri deild hefur gert tillögu um. Ég vil taka það fram að ég hefði kosið að ljúka því máli til fulls með lagasetningu nú, en skil vel og get fallist á þá tillögu sem hv. neðri deild komst að niðurstöðu um, þ.e. fela nefnd að semja um þetta tillögur en hafa engu að síður það ákvæði að innlánsdeildirnar falli niður í árslok 1995. Ég tel þetta hyggilegan málatilbúnað. Það er á því mikil nauðsyn að sömu öryggisákvæði gagnvart innstæðueigendum gildi um innlánsdeildir kaupfélaganna og gilda um aðrar innlánsstofnanir. Það er líka ljóst að í högum sumra kaupfélaganna eru innlánsdeildirnar mikilvægur farvegur fyrir sparifé félagsmanna og rekstrarfé félaganna. Allt þetta þarf að athuga og þess vegna held ég að sú tilhögun sem hv. neðri deild hefur hér ákveðið fyrir sitt leyti sé stuðnings verð. Ég vildi að endingu segja það að fjh.- og viðskn. þessarar deildar hlýtur að sjálfsögðu að taka frv. til efnislegrar meðferðar en ég ítreka það, sem kom fram í framsöguræðu, að ég tel það mikilvægt að þessi lög verði sett og að löggjöfinni um samvinnufélögin verði komið í nútímahorf og félögunum þannig gefinn kostur á að dafna og eflast þeim héruðum til hagsbóta þar sem þau starfa.