Samvinnufélög
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Það er einmitt þetta atriði sem ég hygg að við 5. þm. Norðurl. e. höfum bæði haft í huga og hæstv. ráðherra vék að með mjög skýrum hætti. Ýmsum kaupfélögum hættir til að líta á innlánsdeildirnar sem mikilvægan farveg fyrir rekstrarfé en láta hitt aftur sitja á hakanum hvort féð sé nægilega tryggt og nægilega vel ávaxtað. Það gengur auðvitað ekki að ákveðinn félagsskapur geti með þeim hætti ávaxtað sparifé verr en ella, af því að félagsmenn í viðkomandi samtökum leggja fé sitt inn hjá slíkum innlánsstofnunum í góðri trú. Þetta er úrlausnarefni sem við þurfum að taka á og ég er þeirrar skoðunar að það sé brýnt að reyna að ná samkomulagi um hvernig hægt sé að draga úr þeirri óvissu sem sumir eigendur sparifjár í innlánsdeildum standa frammi fyrir þannig að það gerist ekki fleiri slys á þann veg að einstaklingarnir tapi á þann hátt sínu sparifé og sínu rekstrarfé.