Mannanöfn
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Aðalatriðið í brtt. menntmn. er að við teljum að það geti ekki talist skynsamlegt frá neinu sjónarmiði að rýmka heimildir fyrir því að ný ættarnöfn séu upp tekin, og er auðvitað fullur skilningur á því meðal þeirra nefndarmanna einnig sem bera slík eftirnöfn. Ég geri ráð fyrir því að fleiri en ég hafi velt því fyrir sér á unglingsárum hvort rétt þætti að halda ættarnafni eða kenna sig við föður sinn. Ég býst við að það hafi haft áhrif á fleiri en mig að það var visst tilfinningamál, ekki kannski hjá foreldrum en hjá ýmsum ættingjum að ættarnafni væri haldið og þess vegna gerir fólk það, líka vegna þess að það er alið upp við það frá blautu barnsbeini og er jafnan viðkvæmt mál að skipta um nafn, ganga undir öðru nafni. En hitt er auðvitað fráleitt að löggjafinn leggi á sig sérstakt erfiði til þess að greiða fyrir því að sá siður verði almennur hér á landi að fólk beri ættarnöfn eins og er í nálægum löndum.
    Ég vil þess vegna taka undir það sem formaður menntmn. sagði að ég tel það brýnt að frv. verði fært í sitt fyrra horf að þessu leyti og vil mega stuðla að því.