Frsm. meiri hl. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur spunnist við 3. umr. þessa máls kemur mér verulega á óvart. Hér er því haldið fram að fjmrh. hafi sagt þetta eða hitt og getsakir um hvað hann muni gera og hvað hann hafi sagt. Það vildi þannig til að ég átti tal við fjmrh. og spurði hann hvað hann hygðist gera í þessu máli. Hann sagði að að sjálfsögðu væri sú lánsheimild sem komin er inn í lánsfjárlög nú háð því að happdrætti þetta mundi verða sett á stofn. Og það er ágætt að fjmrh. er kominn hér í salinn til þess að staðfesta þessi orð mín, að forsendan fyrir því að hægt sé að nýta þá lánsfjárheimild sem verður sett inn í lánsfjárlögin, þ.e. að happdrætti eða fjármögnun með öðrum hætti verði að veruleika á þessu þingi.
    Þess vegna vil ég ítreka það sem ég sagði við 2. umr. að ég tel það mjög nauðsynlegt að frv. þetta verði afgreitt héðan úr Alþingi ef við eigum að panta þyrlu á þessu ári.
    Ég hef aldrei verið á móti því að fá heimild í lánsfjárlög fyrir kaup á þyrlu að því tilskildu að áður verði komin um það staðfesting frá þinginu hvernig á að standa að því að greiða lánið til baka. Hins vegar virðist það því miður allt of oft vera gert og ríkisstjórnir og þingmenn gagnrýndir fyrir það að velta vandanum yfir á komandi kynslóðir. Ég er algerlega á móti slíkri pólitík og vil beina því til sjálfstæðismanna hvort þeir muni taka upp þá stjórnarstefnu þegar þeir koma til valda, hvort það sé liður í því að ná niður fjárlagahallanum, að setja allt sem á að framkvæma á lánsfjárlög til þess að geta sýnt góðan eða lítinn halla ár hvert.
    Við verðum að geta staðið undir þeirri eyðslu sem við höfum ákveðið að standa að. Ég er alveg sammála því að þyrlu þurfi að kaupa. Þess vegna hef ég staðið í þessu máli með þeirri hörku sem mér hefur verið borin á brýn, fórnað björgunaraðilum úr þessu frv. til þess að ná því meginmarkmiði að hér skuli verða keypt þyrla. Það er aðalatriði málsins. Það er það sem við hljótum að stefna að. Hins vegar er síðan spurningin hvernig skuli standa að þessu máli. Það er alveg ljóst í fjárlögunum hvernig skuli standa að málinu. Það á að gera með því að koma með einhverja fjáröflun á móti. Það verður ekki gert með því að setja inn á lánsfjárlög heimildir til þess að kaupa þyrlu, heldur verði það gert annaðhvort með sköttum, eins og sumir hafa viljað leggja til, nýjum sköttum, eða þá með öðrum hætti eins og hér er lagt til, að stofnað verði til happdrættis til þess að kaupa þyrluna.
    Þetta vildi ég að kæmi fram en ég vil einnig beina því til fjmrh. hvernig hann líti á þá breytingu á lánsfjárlögum sem nú er ráðgerð í hv. Nd. Er þar uppfyllt það skilyrði í 6. gr. fjárlaga að þar sé komin sú fjármögnun sem til þarf til að kaupa þessa þyrlu eða er nauðsynlegt að þetta happdrætti verði sett á stofn til þess að hægt verði að kaupa þyrlu?