Jóhann Einvarðsson :
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um nauðsyn þess að kaupa og reka nýja þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Það er slíkt mál að ég held að við öll hér á Alþingi séum sammála því að brýna nauðsyn beri til þess að auka við þyrluflotann. Svo mjög hefur þyrlan okkar og reyndar aðrar þyrlur hér á landi sannað ágæti sitt við hinar erfiðustu aðstæður.
    En ég verð að segja eins og er að mér finnst að mál sem við þingmenn erum svona sammála um séu að komast í nokkuð mikla hringavitleysu, ef ég má orða það þannig. Við samþykkjum við frágang fjárlaga að gefa ríkisstjórninni heimild, skv. 6. gr. 5.40, að ganga til samninga um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæslu Íslands og taka til þess nauðsynleg lán að því tilskildu að önnur fjármögnun komi til, m.a. af happdrættisfé. Og af þeirri ástæðu og þeirri ástæðu trúlega einni flytur hæstv. dómsmrh. frv. til laga um sjóðshappdrætti til stuðnings flugbjörgunarmálum og skák o.fl.
    Þegar farið er að skoða þetta frv., þar sem átti að styrkja ýmsar björgunarsveitir og Skáksambandið, kemur í ljós að stærstu samtök björgunarsveita hér á landi, Slysavarnafélag Íslands, mælir með því að frv. verði einungis til styrktar þess að kaupa þyrlu hér á landi. Meiri hl. allshn. breytir þá frv. í þeim tilgangi í fyrsta lagi að fullnægja þeim kröfum sem eru í fjárlögunum, en allur hagnaðurinn gangi til kaupa á þyrlunni. Þetta er nú málið.
    Örfáum dögum eftir að hæstv. dómsmrh. leggur þetta frv. fram er lögð fram þáltill. í Sþ. sem núna er verið að afgreiða úr hv. allshn. Sþ. þar sem ríkisstjórninni er falið að kaupa þyrlu. Og nú rífumst við um hvort það sé nægilegt að taka 100 millj. kr. lán sem er inni á lánsfjárlögum til þess að afgreiða þetta mál. Ég held að það verði að koma meira til. Það verður að upphefja eða a.m.k. að koma yfirlýsing frá fjmrh. um að ekki verði staðið fast á þessu skilyrði, sem er þó í fjárlögunum sem eru í gildi, að það skuli stofna til happdrættis. Ég held að menn ættu að halda ró sinni og reyna að ná einhverju samkomulagi í þessu. Það næst ekki á annan hátt en þann að ríkisstjórnin eða fjmrh. fyrir hennar hönd lýsi því yfir að ekki sé nauðsyn að stofna til happdrættis til þess að fjármagna að hluta þyrlukaupin.
    Það er dálítið sérstakt að vera að ræða um þetta á svona mörgum vígstöðvum í einu. Það er verið að ræða þetta í Sþ., þáltill. um sama efni, og búið er að samþykkja í fjárlögunum að gefa ríkisstjórninni heimildir til að ganga til þess að kaupa, og nú erum við að rífast um þetta eina atriði hvort á að stofna til happdrættis og e.t.v. í Nd. líka vegna þess að það kemur þar inn í lánsfjárlögin. Ég held að fjmrh. ætti nú að ganga í þetta mál og reyna að ná þinginu saman um það, sem er kannski eitt af fáum málum sem þingið er sammála um, það er að kaupa þyrlu. ( Gripið fram í: Bara ákveða það strax.) Ja, það er þegar ákveðið, en það eru deildar meiningar um á hvern hátt eigi að framkvæma það. Ég get alveg tekið undir með

hv. þm. Skúla Alexanderssyni að ef menn telja þessa lántökuheimild sem er í fjárlögunum ekki nægilega og menn vilja ekki stofna til happdrættis eins og fjárlögin setja skilyrði um, þá á að sjálfsögðu að leggja á einhvern tímabundinn skatt og útvega fjármagnið á þann hátt. En mér sýnist að málið sé komið í hring í kringum sjálft sig og því eðlilegt að fjmrh. biðji um frest á þessu máli og reyni að ná þá þinginu saman um það mál sem þingmenn eru svo sammála um.