Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að til þess að greiða fyrir umræðum og ákvörðunum um kaup á björgunarþyrlu var sett heimildarákvæði inn í fjárlögin. Hins vegar er það ljóst að með einhverjum hætti verður að greiða þyrluna og það má segja að um þrjár leiðir sé að ræða. Í fyrsta lagi að efna til sérstakra aðgerða eins og happdrættis. Í öðru lagi að leggja á tímabundinn skatt til þess að greiða þyrluna. Í þriðja lagi að taka peninga frá öðrum verkefnum til að borga þyrluna.
    Það er auðvitað nauðsynlegt að þingið svari, ekki bara a heldur líka b í þessu máli, því að þeir tímar eiga að vera liðnir að Alþingi ákveði bara útgjöldin en sleppi því að ákveða hvernig eigi að afla tekna.
    Til þess að greiða fyrir þessu máli ákvað ég eftir samræður við nokkra þingmenn þessarar hv. deildar að leggja það til við formenn stjórnarflokkanna að eftirfarandi texti kæmi inn í frumvarp til lánsfjárlaga sem verið er að fjalla um. Þar væri kveðið á um að fjmrh. væri heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að semja um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæslu Íslands og taka til þess nauðsynleg lán vegna greiðslna sem kunna að falla á árið 1991, allt að 100 millj. kr. Ég taldi mig vera að gera þetta til þess að greiða fyrir afgreiðslu málsins hér í hv. deild. Ég var ekki þar með að taka afstöðu til þess að því frumvarpi sem hér er til umræðu yrði vísað frá eða hætt við að afgreiða það. Það var með engum hætti slík ákvörðun í mínum huga heldur eingöngu verið að greiða fyrir málinu með því að ljá samþykki mitt fyrir því að þetta færi inn í lánsfjárlögin og taka visst frumkvæði í því í tillögugerð við formenn stjórnarflokkanna.
    Ég vona að þessi ákvörðun mín geti orðið til þess að greiða fyrir málinu og vona að þingið geti komið sér saman um það hvers konar fjáröflun eigi síðan að standa að baki greiðslna á þessu láni.