Frsm. 2. minni hl. allshn. (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég minnist þess ekki að hafa áður komið í ræðustól eftir að hæstv. fjmrh. hefur gefið mér tilefni til þess, sem einstaka sinnum hefur nú skeð, til að þakka honum fyrir hans ræðu. Það hefur þvert á móti oftast verið þannig að ég hef haft ástæðu til þess að gagnrýna hans málflutning. En mér finnst full ástæða til og ég geri það með glöðu geði að þakka honum fyrir það sem hann sagði hér. Hann staðfesti nákvæmlega það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að hann muni sjá til þess eða leggja það til við þingmenn stjórnarflokkanna í fjh. - og viðskn. Nd. að það verði flutt tillaga um lántöku allt að 100 millj. kr. og ekki skilyrt með því að það verði að stofna til þessa happdrættis.
    Hv. 8. þm. Reykn., ég veit ekki hvort hann er farinn úr salnum, talaði um að menn ættu að halda ró sinni. Ég er alveg sammála honum um það. Mér finnst að hér sé verið að ræða svo þýðingarmikið mál sem, eins og reyndar hefur komið fram, allir eru sammála um að þurfi að koma í gegnum þingið. En við erum kannski ekki sammála um leiðina að því markmiði.
    Hv. 4. þm. Vesturl. talaði fjálglega um það að ýmsar mikilvægar stofnanir í þessu þjóðfélagi hefðu verið reistar með happdrættum og við ættum ekki að skammast okkar fyrir það að ætla okkur að kaupa þyrlu fyrir happdrætti. Ég get út fyrir sig verið sammála honum um það að við þurfum hreint ekki að skammast okkar fyrir það að Háskóli Íslands hafi fengið tekjur af happdrætti, DAS og SÍBS, sem ekki eru ríkisrekin fyrirtæki, hafi gert slíkt hið sama. En nú þykir mér slæmt að hv. 4. þm. Vesturl. er ekki hérna staddur vegna þess að þetta er kannski einmitt mergur málsins. Við erum að fara í samkeppni við þessar ágætu stofnanir sem eru nú þegar með miklar áhyggjur af því að happdrættin, sem hafa gefið þeim góða tekjumöguleika í gegnum árin, eru nú farin að valda vandamálum og jafnvel tapi. Ef ég man rétt, þá kom það fram að Happdrætti SÍBS hefur tapað á sínu happdrætti 30% tekjum á sl. ári. Ég held að ég fari rétt með þetta. Það er kannski óvarlegt að fullyrða úr ræðustól það sem maður getur ekki beinlínis staðfest á stundinni, en ég held samt að þetta sé rétt hjá mér. Ég segi þetta með þeim fyrirvara. Þessir aðilar hafa allir komið á fund nefndarinnar og skýrt frá sínum áhyggjum og í raun og veru mótmælt því að það sé verið að fara af stað einu sinni enn með nýtt happdrætti og það ekki síst þar sem ríkið er að fara í samkeppni við þessa aðila, þessi frjálsu félagasamtök og aðrar stofnanir, t.d. Háskóla Íslands sem telur sig hafa einkaleyfi á peningahappdrætti. Þetta hefði ég gjarnan viljað segja í áheyrn hv. 4. þm. Vesturl. Ef við vissum að það að fara út í eitt happdrættið enn mundi skila okkur milljónum væri ekkert athugavert við það. En þannig er málum bara ekki komið í dag. Happdrættismarkaðurinn er orðinn of mettaður. Það eru allir sem ætla að græða á happdrættisgleði Íslendinga og

það eru allir um það bil að tapa á því. Þetta þekkjum við frá happdrættum eins og SÁÁ, ef ég man rétt fyrir ekki mörgum árum síðan. Þeir fóru út í stórt happdrætti og þeir töpuðu á því. Það kostar að setja á stofn happdrætti, það kostar að setja á stofn sjóðshappdrætti og það hefur aldrei komið fram, hvergi nokkurs staðar, hvaða tekjum þetta sjóðshappdrætti á að skila. Hverjar eru líkurnar á að það skili einhverjum tekjum? Hvað verður í pottinum? Það hefur bara aldrei komið fram.
    Ég vil einu sinni enn minna okkur á og ítreka það að þegar þetta happdrættisfrv. fór af stað var það að frumkvæði Skáksambandsins og Flugbjörgunarsveitarinnar sem hafa nú verið sett út í kuldann og eiga ekki að fá sitt tækifæri. Það er ekki að undra þó að þessir aðilar séu ekki sáttir við meðferð á þessu máli.
    Nei, ég held að við ættum að eftirláta frjálsum félagasamtökum sem hafa trú á tekjuöflun með happdrættum að taka slíka áhættu ef okkur þykir grundvöllur vera fyrir því.
    Hv. 4. þm. Vesturl. lagði fram brtt. og hann var búinn að sýna mér brtt. áður. Ég reiknaði ekki með að hann mundi leggja hana fram, en nú er hún komin fram. Þá vil ég líka lýsa því að ég er ekki sammála því að hækka eignarskattinn til að afla tekna fyrir kaupum á þessari þyrlu. Ef það á að taka þetta af einhverjum tekjum ríkissjóðs í dag, að marka tekjustofn eins og sagt er stundum, væri það frekar að afmarka það að hluti af álögðum eignarskatti færi í að borga eða greiða af lánum sem yrðu tekin vegna kaupa á þyrlu. Við skulum ekki gleyma því að það eru ekki bara hátekjumenn sem eiga miklar eignir. Það vill nefnilega svo til að séreignastefnan hefur verið við lýði í þessu þjóðfélagi og það eru almennir launþegar sem hafa á sínum tíma eignast myndarlega þak yfir höfuðið. Margir af þessum aðilum eru einmitt í hópi eldri borgara. Það eru ekkjur og ekklar, svo að dæmi séu tekin, sem greiða eignarskattinn í dag og hafa tæplega tök á að standa skil á slíkum eignarskatti. Það getur vel verið að hv. 4. þm. Vesturl. telji sig hafa efni á að gera lítið úr slíku fólki. En ég er ekki sammála honum um það. Það eru líka til vel efnaðir menn sem geta vel greitt sinn eignarskatt en við skulum ekki gleyma hinum.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri. Mér þykir það slæmt að hv. 4. þm. Vesturl. var ekki viðstaddur þegar ég var nú í raun og veru að tala til hans og svara hans orðum hér áðan. Hv. 5. þm. Reykv. spurði hvort það ætti að verða stefna Sjálfstfl. að auka lántökur, ef ég man þetta rétt, um leið og hann er kominn til valda. Ég hef svar við þessu, hv. 5. þm. Reykv. Það er náttúrlega í fyrsta lagi að ég þakka honum nú fyrir að hann gengur út frá því að Sjálfstfl. verði svo sterkur eftir næstu kosningar að hann geti ráðið því hvernig þessu þjóðfélagi verður stjórnað og (Gripið fram í.) það hlýtur hann að hafa átt við, svo að ég svari þessu frammíkalli hans, að hann eigi við næstu kosningar því að við ætlum að fara að kaupa þyrluna núna og taka lánið núna og þurfum þess vegna að fara að borga strax á næsta

kjörtímabili. Og ef svo skemmtilega vill til, sem er ekkert ólíklegt, að Sjálfstfl. verði einráður, þ.e. hann verði í meiri hluta á hv. Alþingi eftir næstu kosningar, þá mun það áreiðanlega koma skýrt fram að hann mun leggja sitt af mörkum til að vinda ofan af þeim gífurlega austri á fjármagni og mörgum óskynsamlegum útgjöldum sem nú þegar hafa verið á döfinni. Við munum leggja okkar af mörkum til þess að bæta þar úr. Það verður erfitt að taka við slíku búi en ég er að sjálfsögðu ekkert hrædd við það, hv. 5. þm. Reykv.
    En ég vil samt sem áður segja það að ég hef í raun og veru mikla samúð með hv. 5. þm. Reykv. í þessu máli. Hann er auðvitað að sinna sinni skyldu sem formaður allshn. Hann hefur sinn húsbónda sem lagði þetta frv. fram, sem er hæstv. dómsmrh., og hann er að reyna að leysa þessi mál eins vel og hann getur. Ég lái honum það ekkert. Það dettur mér ekki í hug. Ég skil vel hans afstöðu. En ég vænti þess hins vegar að það verði hægt að komast að þeirri niðurstöðu sem hæstv. fjmrh. hefur nú staðfest að geti orðið ef þingmenn í þessari hv. deild vilja taka mark á orðum hæstv. fjmrh. Ég fór þess vegna fram á það í upphafi umræðna um þetta mál að afgreiðsla frv. yrði látin bíða þar til við sæjum hvernig þetta verði afgreitt úr fjh. - og viðskn. Nd. Þetta var fróm ósk og ég bað um það og síðan kom þetta fram hjá hv. 8. þm. Reykn. að hann var líka að fara fram á að málið yrði látið bíða í dag. Og þess vegna ítreka ég ósk mína.