Grunnskóli
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Herra forseti. Grunnskólafrv. þetta hefur fengið ítarlega meðferð í hv. Nd. og getur sú umræða vafalaust orðið til þess að greiða fyrir meðferð málsins hér í þessari virðulegu deild. Frv. tók fáeinum breytingum í hv. Nd. og mun ég hér gera grein fyrir þeim sem og meginefnisatriðum þessa frv.
    Meginefnisatriðin koma fram með glöggum hætti í grg. frv. þar sem eru m.a. raktar þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. frá því sem það hljóðaði á síðasta þingi. Meginbreytingarnar frá síðasta þingi eru þessar:
    1. Samstarfsnefnd menntmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga er fengið stærra hlutverk en var áður. Henni er einkum ætlað að gera áætlun um hvernig þeim markmiðum um einsetinn skóla, lengri og samfelldari skóladag, skólamáltíðir o.fl., sem sett eru fram í ákvæði til bráðabirgða, verði náð. Þessi markmið eru þess eðlis að ríki og sveitarfélög verða að leggjast á eitt um að verða samstiga í framkvæmdum í þessum efnum. Útilokað er í raun og veru fyrir ríkið að taka á þessu sviði einhliða ákvarðanir. Samkomulag við sveitarfélögin er í flestum tilvikum óhjákvæmileg forsenda.
    2. Í þeirri gerð frv. sem lögð er fram á þessu þingi er lagt til að fræðsluráðin fái nýtt hlutverk. Lög um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga breyttu hlutverki og starfssviði fræðsluráða og skólanefnda í veigamiklum atriðum. Í frv. er lagt til að fræðsluráðin verði samstarfsvettvangur skóla og sveitarfélaga í viðkomandi fræðsluumdæmum.
    3. Varðandi skólanefndir er það að segja að hlutverk þeirra markast af lögum nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í frv. er lagt til að um kosningu skólanefnda fari samkvæmt sveitarstjórnarlögum og ákvæði um samsetningu og fjölda skólanefndarmanna verði einfölduð. Þá er gert ráð fyrir að skólanefndir geti gert tillögur og komið með ábendingar um umbætur í skólastarfi á sama hátt og áheyrnarfulltrúar kennara, skólastjóra og foreldra geta beint tillögum til skólanefnda um úrbætur í aðbúnaði.
    4. Tekið var á málefnum fræðsluskrifstofa og fræðslustjóra í frv. eins og það var lagt fyrir.
    5. Ákveðið var að hverfa frá orðalaginu ,,Reglulegur starfstími grunnskólanemenda skal vera`` o.s.frv. og orðalag gildandi laga var látið halda sér, sbr. 44. gr. frv. þessa. Hið sama á við um jólaleyfi í grunnskóla, sbr. 46. gr.
    6. Bætt var inn nýrri grein um að kennsla skuli vera ókeypis og að nemendur skuli fá námsbækur í skyldunámi sér að kostnaðarlausu, sbr. 50. gr., en hér er um að ræða staðfestingu á úrskurði umboðsmanns Alþingis um hlutverk Námsgagnastofnunar m.a.
    7. Ákvæði um hámarksfjölda í bekk eru færð inn í fjármálakafla frv., enda eru þær viðmiðanir grundvöllur fjölda kennslustunda sem ríkissjóður greiðir. Miðað er við hámarkið 28 nemendur í 4. -- 10. bekk í stað 30 eins og lögin eru nú.

    Aðrar breytingar frá því frv. sem lagt var fram á Alþingi vorið 1990 eru þær helstar að kaflaheitum hefur verið breytt, greinar og greinahlutar færð til og uppröðun greina hefur verið breytt, til að mynda rökrænni röð efnisatriða innan kafla.
    Gildandi grunnskólalög eru að stofni til frá 1974. Síðan lögin tóku gildi hafa verið gerðar á þeim nokkrar breytingar. Þær stærstu eru vafalaust breytingar sem samþykkt laga nr. 87/1989 um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hafði í för með sér. Önnur veigamikil breyting var gerð vorið 1990 þegar sex ára börn urðu skólaskyld. Þær breytingar aðrar sem frv. þetta felur í sér eru að mestu aðlögun að þróun á síðustu tveimur áratugum.
    Valddreifing er eitt megineinkenni frv. Þannig eru foreldrar og kennarar og einstakir skólastjórnendur kvaddir til verka mikið oftar en í gildandi grunnskólalögum. Þetta kemur m.a. fram í auknum verkum og ábyrgð fræðslustjóra, fræðsluskrifstofa og skólastjórnenda. Þetta birtist líka í því að gert er ráð fyrir því að skipta stærstu sveitarfélögunum í skólahverfi þar sem hvert hverfi hafi sína skólanefnd. Er það síðastnefnda í samræmi við frv. sem lagt var fram í Ed. Alþingis veturinn 1988 frá þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkunum.
    Varðandi aðrar meginbreytingar frv. er þetta helst að segja, virðulegi forseti.
    1. Í sambandi við kostnaðarskiptingu er í öllum tilvikum í upphaflegri gerð frv. farið eftir verkaskiptalögunum eins og þau voru sett að því er varðar verkaskiptingu og ábyrgð ríkis annars vegar og sveitarfélaga hins vegar.
    2. Í frv. er gert ráð fyrir því að komið verði á einsetnum grunnskóla með samfelldum sjö stunda skóladegi. Nemendum verði gefinn kostur á málsverði í skólum. Þetta er undirstaða þess að unnt sé að lengja viðverutíma barna í skólum á sama tíma og þjóðfélagið byggir á þeirri forsendu að báðir foreldrar vinni utan heimilis. Með lengdum skóladegi er gert ráð fyrir því að unnt verði að sinna margvíslegum verkefnum í skólanum sem nú vinnst ekki tími til. Í ákvæði til bráðabirgða er við það miðað að þessu markmiði verði náð á tíu ára tímabili.
    3. Í frv. eru ákvæði um grunnskólaráð sem verði samstarfsvettvangur þeirra aðila sem vinna að málefnum grunnskólans. Gert er ráð fyrir að fulltrúar foreldrafélaga, og það er eitt af nýjungum frv. að þar eru stóraukin áhrif foreldra frá því sem verið hefur, kennarafélaga og kennaramenntunarstofnana verði í grunnskólaráði auk fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga, Námsgagnastofnunar og menntmrn.
    4. Í frv. er kveðið á um samráðsnefnd menntmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt lykilatriði í frv. og gert er ráð fyrir að hlutverk hennar verði stærra en verið hefur og ný verkefni eru tilgreind sérstaklega. Þessi nefnd gegnir lykilhlutverki í gerð áætlunar vegna ákvæða til bráðabirgða sem eru í þessu frv.
    5. Tekið er á málefnum fræðsluskrifstofanna í samræmi við hin nýju lög um verkaskiptingu ríkis og

sveitarfélaga.
    6. Í þessu frv. eru ákvæði um kennsluráðgjafa. Kennsluráðgjafar starfa þegar á vegum fræðsluskristofa en það hafa ekki verið sérstök ákvæði um kennsluráðgjafa í lögum til þessa.
    7. Nýtt ákvæði er í frv. um kennslugagnamiðstöðvar. Gert er ráð fyrir heimild til að stofna kennslugagnamiðstöðvar við fræðsluskrifstofur og þær eru reyndar þegar komnar af stað sums staðar. Jafnframt er gert ráð fyrir að þessar kennslugagnamiðstöðvar komi á aðstoð við uppbyggingu skólasafna sem eru undirstaða góðra skóla eins og hv. þm. þekkja.
    8. Kveðið er á um breytt hlutverk og skipan fræðsluráðanna.
    9. Fjallað er um skólanefndir. Þar er um að ræða breytt hlutverk í kjölfar verkaskiptalaga. Fjöldi skólanefndarmanna og kosning á að vera samkvæmt sveitarstjórnarlögum og gert ráð fyrir að gerður verði stofnsamningur um aðild að skólanefnd þar sem fleiri en eitt sveitarfélag reka einn skóla.
 10. Fjallað er um skólahverfi. Þar er gert ráð fyrir því að fjölmennum sveitarfélögum verði skipt í skólahverfi. Miðað verði við að hámarkið verði 10 -- 15 þúsund íbúar sem myndi skólahverfi. Er hér um að ræða mál sem flutt var hér í þessari virðulegu deild veturinn 1988 -- 1989 af þingmönnum úr öllum flokkum, eins og ég gat um áðan.
 11. Ákvæði eru um foreldra og aðild þeirra að skólastarfi, m.a. um aðild að grunnskólaráði. Þá er gert ráð fyrir að foreldrar fái áheyrnarfulltrúa á kennarafundum, skólanefndarfundum og í fræðsluráði. Það á að stuðla að stofnun formlegra samtaka foreldra einstakra skóla, fræðsluumdæmis og á landsvísu og er þegar hafinn undirbúningur að slíkri stofnun landssamtaka.
 12. Gert er ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi á ráðningum kennara. Það er gert ráð fyrir því að skólastjórar ráði kennara og fræðslustjóri staðfesti fyrir hönd ráðuneytisins. Hins vegar skipi ráðuneytið í stöður svo sem verið hefur.
 13. Nýtt ákvæði fjallar um námsráðgjafa. Er gert ráð fyrir því að þeir geti starfað í einstökum skólum eða á fræðsluskrifstofum, að þeir verði ráðnir sem kennarar og lagt er til að ákvæðin um námsráðgjafa komi til framkvæmda á fimm ára bili.
 14. Nýtt ákvæði að hluta til sem fjallar um árgangastjóra, fagstjóra og leiðsögukennara. Hér er eingöngu um að ræða staðfestingu á þróun undanfarinna ára en kennarar með þessum starfsheitum eru nú starfandi við flesta skóla.
 15. Gert er ráð fyrir nokkurri breytingu á kennsluafslætti vegna aldurs, að skilyrði fyrir kennsluafslætti lækki úr 20 árum í 10.
 16. Gert er ráð fyrir því að fram fari lenging á skóladegi 1. -- 3. bekkjar á næstu þremur árum í 25 stundir á viku. 7 stunda heilstæður skóladagur allra grunnskólanema komi til framkvæmda á næstu tíu árum, eins og ég gat um þegar ég ræddi um einsetinn skóla.
 17. Lágmarksákvæði eru um kennslu. Það er gert ráð fyrir því að ákvæðin um tímafjölda á hvern nemanda,

sem nú eru í grunnskólalögum, verði lágmarksákvæði þannig að ekki verði heimilt að bjóða minni kennslu handa nemendum en grunnskólalög kveða á um. Er þetta ákvæði tvímælalaust skýrara og betra frá sjónarmiði skólans en ákvæði gildandi laga.
 18. Nýtt ákvæði fjallar um námsgögn þar sem ítrekað er að kennsla skuli vera ókeypis og sömuleiðis eru skýr ákvæði um ókeypis námsbækur í skyldunámi.
 19. Ákvæði eru um nemendafjölda í bekk. Það er gert ráð fyrir að viðmiðunartalan í 1. -- 3. bekk verði lækkuð úr 30 nemendum í 22, en það eru 30 nemendur í gildandi lögum og í 4. -- 10. bekk úr 30 nemendum í 28.
 20. Gert er ráð fyrir víðtækari heimild til samkennslu í fámennum skólum en verið hefur. Hér er um að ræða sveigjanleg ákvæði sem á að vera hægt að framkvæma með skynsamlegum hætti.
 21. Mörkuð er ákveðnari stefna um sérkennsluaðstoð í heimaskóla og sett eru inn ákvæði um að gerð skuli áætlun um sérkennslu fyrir landið allt.
 22. Nýtt ákvæði er um nemendaverndarráð sem eykur líkur á samræmdum vinnubrögðum í sérkennslu og sérfræðiþjónustu við einstaka nemendur.
    Hér hef ég, virðulegi forseti, drepið á helstu ákvæði frv. sem eru, eins og ég gat um áðan, í meginatriðum staðfesting á þeirri stefnu sem hefur verið að þróast á undanförnum árum og hefur að nokkru leyti síðan verið staðfest í skólastefnu menntmrn. sem ber yfirskriftina ,,Til nýrrar aldar.``
    Þegar þetta frv. kom til meðferðar í hv. Nd. Alþingis urðu talsverðar umræður um kostnaðarákvæði frv. Nú er því til að svara um það mál í fyrsta lagi þessu: Í frv. eru engin sjálfvirk ný kostnaðarákvæði fyrir sveitarfélögin. Í frv. eru nákvæmlega þrædd þau ákvæði sem lögin um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga kveða upp úr með. Kostnaðaraukinn sem lýtur að ríkissjóði er hins vegar nákvæmlega tilgreindur í umræðum um málið í Nd. Þar vísa ég á þingtíðindi frá 27. nóv. 1990, dálka 1350 og áfram, þar sem m.a. kemur fram hvernig kostnaður skiptist samkvæmt frv.
    Fjárlaga - og hagsýslustofnun lét gera sérstaka athugun á kostnaði samkvæmt frv. Þar kemur fram að gert er ráð fyrir því að heildarkostnaður við framkvæmd frv. eins og það var í fyrra væri 74 millj. kr. á verðlagi þess árs. Þar hefur ríkið þegar tekið inn í fjárlög ársins 1990 og 1991 meira en helminginn af kostnaðinum sem lýtur að aukinni kennslu sex ára barna sem nú eru orðin skólaskyld. Meginkostnaðarþættirnir til viðbótar þessu samkvæmt umsögn Fjárlaga - og hagsýslustofnunar eru þessir:
    1. Kostnaður vegna tíu ára skólaskyldu, sem ég hef getið hér um. Kostnaðurinn er kominn inn í fjárlög og hann er 60 millj. kr.
    2. Kostnaður vegna fjölgunar bekkjardeilda í 1. -- 3. bekk er áætlaður 70 millj. kr. Bekkjardeildum fjölgar vegna þess ákvæðis að hámarksfjöldi nemenda í hverri bekkjardeild verði lækkaður úr 30 í 22 nemendur, en það mun nær eingöngu hafa áhrif í stærstu sveitarfélögunum. Gert er ráð fyrir því að þetta ákvæði frv. komi til framkvæmda í áföngum.

    3. Um er að ræða stöðu námsráðgjafa. Ef miðað er við eina stöðu námsráðgjafa á hverja 650 nemendur, eins og menntmrn. áætlar, verða stöðugildi samkvæmt þessu rúmlega 60 og kostnaður um það bil 75 millj. kr. á ári. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að þetta komi til framkvæmda á fimm árum og reyndar er það svo að í fjárlögum ársins 1991 er þegar gert ráð fyrir nokkrum stöðum námsráðgjafa við grunnskóla.
    4. Svo koma ýmsir smærri kostnaðarliðir, svo sem rýmkun kennsluafsláttar, níu mánaða starfstími allra grunnskóla, rekstur sumarskóla, aukin skólaþróun o.fl. sem fela í sér kostnaðarauka sem ætla má að sé á bilinu 50 -- 55 millj. kr. Þessi viðbótarkostnaður deilist einnig á nokkur ár.
    Það er því niðurstaða Fjárlaga - og hagsýslustofnunar að í frv. þessu felist kostnaðarauki upp á um 260 millj. kr. alls. Þar af er komið inn í fjárlög íslenska ríkisins þó nokkuð yfir 100 millj. kr. Það er niðurstaða Fjárlaga - og hagsýslustofnunar að frv. eins og það var áður en 10. bekkurinn var tekinn inn fæli í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð upp á 1 -- 1,8% á ári næstu fimm árin eða samtals 6 -- 7% yfir tímabilið.
    Ég hef sýnt fram á það með tölum við umræður um þetta mál, bæði opinberlega og í hv. Nd., að hér er í raun og veru um að ræða minni kostnaðarauka á ári næstu fimm til tíu árin en var síðustu tíu ár. Hér er því ekki um það að ræða að hér sé verið að gera ráð fyrir stórauknum kostnaðarauka í þessu efni frá því sem var, heldur þvert á móti. Það er í senn verið að reyna að sækja fram og að reisa útgjaldaaukningu skorður með skýrri stefnumótun.
    Í frv. og í umræðum um málið hefur sérstaklega verið fjallað um sveitarfélögin í þessu efni og ég ætla ekki að endurtaka það í sjálfu sér. Mér sýnist að á þessu ári muni sveitarfélögin leggja til byggingar grunnskóla sennilega 1 -- 1 1 / 2 milljarð kr. en til þess að koma á einsetnum skóla alls staðar þarf um 800 millj. kr. á ári í nýjar stofur. Þannig að því fer fjarri að með þessu frv. sé verið að íþyngja sveitarfélögunum umfram það sem sanngjarnt er að ætla að þau muni þurfa og muni hvort eð er taka á sig.
    Við meðferð málsins í hv. Nd. urðu á því nokkrar breytingar samkvæmt tillögum frá meiri hl. menntmn. Nd. Þessar breytingar eru sem hér segir:
    1. Við 4. gr. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein þar sem stendur: Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma.
    2. Brtt. við 12. gr. þar sem tekið var sérstaklega á fræðsluráðunum sem eiga að vera samstarfsvettvangur sveitarfélaga í viðkomandi umdæmi og síðan segir: ,,Hlutverk fræðsluráðs er m.a. að vinna í samráði við fræðsluskrifstofu að eflingu skólastarfs í fræðsluumdæminu, stuðla að samvinnu og hagræðingu milli skóla, fjalla um sameiginleg verkefni og styðja starf skólanefnda. Fræðsluráð fer að öðru leyti með þau mál sem hlutaðeigandi sveitarstjórnir fela því eða ákveðin kunna að verða í reglugerðum settum samkvæmt lögum þessum.``
    3. Breytt var nokkuð frekar ákvæðum um fræðsluráð. Sömuleiðis var hert á ákvæðum um fræðslustjóra

þar sem segir: ,,Hann er forstöðumaður fræðsluskrifstofu og framkvæmdastjóri fræðsluráðs sé svo um samið.`` Þá er einnig gert ráð fyrir sérstökum ákvæðum um samstarf sveitarfélaga eða eins og stendur þar: ,,Eigi tvö sveitarfélög eða fleiri félag með sér um uppbyggingu og rekstur grunnskóla skal miða skiptingu kostnaðar við eftirtalin meginatriði nema um annað semjist: Íbúafjölda, útsvarsskyldar tekjur í sveitarfélaginu næstliðið ár, fasteignamat skattskyldra fasteigna, kennslustundafjölda í þeim bekkjum sem aðild sveitarfélags miðast við.``
    Þá var gert ráð fyrir því í breytingum Nd. að það yrði sett inn ákvæði varðandi heilsugæslu á nokkrum stöðum í frv. Síðan var breytt um orðalag að því er varðar skiptingu bekkjardeilda, m.a. í verklega kennslu og valgreinar í 8. -- 10. bekk og loks voru sett inn ákvæði sem lúta sérstaklega að fötluðum börnum og sérskólum.
    Hér var um að ræða samtals 11 breytingar sem hv. Nd. gerði á þessu viðamikla frv. og ég held að mér sé óhætt að segja að í rauninni hafi efnislega ekki komið fram hörð gagnrýni á frv. í hv. Nd. Ég tel að miðað við allar aðstæður hafi verið tiltölulega góð samstaða um þetta frv. og ég vænti þess að hin ítarlega umræða um málið í hv. Nd. geti orðið til þess að greiða fyrir þessu máli þannig að við eignumst hér á landi ný grunnskólalög áður en langur tími líður.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn. og tek það að sjálfsögðu fram að starfsmenn ráðuneytisins eru reiðubúnir til þess að vera nefndinni innan handar við meðferð málsins strax og hún tekur það til athugunar af sinni hálfu.