Grunnskóli
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Frsm. 2. minni hl. menntmn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Nú hefur hæstv. menntmrh. viðurkennt að honum hafi orðið á mistök við birtingu þeirra auglýsinga í Morgunblaðinu og Pressunni sem birtust í síðustu viku og ég gerði að umræðuefni í ræðu minni hér í gær. Er það fagnaðarefni að ráðherrann skuli viðurkenna þannig þessi mistök sín.
    Það er raunar íhugunarefni hvort engar reglur gildi um útgjöld ráðuneytanna. Þannig virðast þau vera nokkuð frjáls að því að fjármagna ýmsa kostnaðarliði svo sem eins og þá er ég gerði að umtalsefni hér í gær.
    Ég vil líka taka undir orð hv. þm. Geirs Haarde þess efnis að hæstv. menntmrh. ætti einnig að viðurkenna þá yfirlýsingu sína í Morgunblaðinu sl. sunnudag sem mistök, að Sjálfstfl. væri á móti uppbyggingu grunnskóla, enda sú yfirlýsing með öllu óskiljanleg.
    Í þessu sambandi langar mig til þess að vitna í þá umfjöllun sem grunnskólafrv. fær í þeirri grein er birtist í Morgunblaðinu sl. sunnudag þar sem vitnað er í ýmsar umsagnir. Þar segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,En sitt sýnist hverjum um ágæti nýjunga. Frv. hefur verið sent hinum ýmsu hagsmunaaðilum til umsagnar á síðustu vikum og mánuðum og fram hafa komið skiptar skoðanir. Samband ísl. sveitarfélaga og skólamálaráð Reykjavíkurborgar hafa hvort um sig mælt gegn samþykkt frv.`` --- Síðan er það ítarlega rakið, m.a. segir um samskiptaleiðir í umsögn frá skólamálaráði Reykjavíkurborgar:
    ,,Einnig er rétt að benda á að samskipti íbúa á hverjum stað eru mun greiðari við sveitarstjórn en ríkisstjórn. Líklegt er að þjónusta og uppbygging skólastarfs í sveitarfélögum verði fremur í samræmi við áherslur íbúanna ef yfirstjórn grunnskólanna væri í þeirra höndum, í stað þess að hafa allt undir hatti ríkisins.`` Skólamálaráð segir að margt annað í frv. veki efasemdir: ,,Með tilliti til gildis þess að hver skóli móti sína eigin skólanámsskrá leggur grunnskólafrv. stein í götu skólanna til að ná því marki. Það er enn á valdi námsgagnastjórnar að taka ákvörðun um hvaða námsgögn standi nemendum skólanna til boða. Skólamálaráð ítrekar að það geti ekki verið á valdi einnar stofnunar að hafa nægilega fjölbreytni í framboði námsefnis. Þar að auki kemur fram tvískinnungur um námsgögnin þar sem orðið skyldunám er ekki skilgreint. Frv. viðurkennir valgreinar ekki sem órjúfanlegan hluta viðmiðunarstundaskrár.``
    Enn fremur er talað um verðlagseftirlit: ,,Í frv. kemur fram að skólagjöld í einkaskólum skuli háð samþykki menntmrn.`` --- og vek ég sérstaka athygli á þessari umsögn vegnar þeirrar brtt. sem hv. þm. Geir Haarde hefur lagt hér fram. --- ,,Skólamálaráð telur það í hæsta máta óeðlilegt að ráðuneyti hafi með höndum verðlagseftirlit á þeirri þjónustu sem einkaskólar bjóða upp á. Ráðuneytisins sé fyrst og fremst að meta og hafa eftirlit með því skólastarfi sem þar

fer fram sem og í öðrum skólum. Verkefni menntmrn. eigi fyrst og fremst að tengjast heildarstefnumótun og eftirlitshlutverki. Það eigi að setja kröfur um aðstöðu og menntun grunnskólanema og stuðla að skólaþróun.``
    Síðan er rakin hér nokkuð ítarlega umsögn stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga sem leggur mjög mikla áherslu á sjálfstæði sveitarfélaga. Í þeirri umsögn segir m.a. um ákvæði 50. gr. frv. að sú grein, um skyldur ríkisins til að sjá nemendum í skyldunámi fyrir ókeypis námsgögnum, sé ekki nógu ítarleg en gert sé ráð fyrir að ráðuneytið setji nánari ákvæði í reglugerð. Það er álit Sambands ísl. sveitarfélaga að tryggja þurfi að samtök þeirra verði samráðsaðili að setningu slíkrar reglugerðar þar sem þau eigi hér verulegra hagsmuna að gæta.
    Það er enn fremur rætt um sérkennslu og sérstakur kafli er um skólasöfn. Þar segir m.a. í umsögn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga: ,,Sambandið telur að sameining almenningsbókasafns og skólasafns hljóti að verða ákveðin af sveitarstjórnum sem greiða allan stofn- og rekstrarkostnað beggja. Ekki sé minnst einu orði á sveitarstjórn í greininni heldur er aðeins gerð krafa um samþykkt menntmrn. sem engan kostnað greiðir. Þá telur Samband ísl. sveitarfélaga ákvæði frv. um heilsuvernd allt of óljós og óhjákvæmilegt sé að setja mun ákveðnari ákvæði um stjórn, rekstur og kostnað við heilsugæslu í grunnskólum en gert er í frv.``
    Það kemur enn fremur fram í þessari grein að flestir fræðslustjórar úti á landsbyggðinni lýsa sig andvíga ákvæðum frv. um fræðsluráð, bæði hvað varðar skipan þess og verksvið, sér í lagi eftir breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Fræðsluráðin eiga að þeirra mati að vera vettvangur fyrir samstarf og samráð sveitarfélaga um skipulag fræðslumála í umdæminu og fjalla á heildstæðan hátt um framkvæmdir í skólamálum, skipulag skólahverfa, sameiginlega þjónustu og heildarstefnumörkun sveitarfélaga í þessum málaflokki. Því sé eðlilegt að fræðsluráðin séu starfrækt á vegum sveitarfélaganna og verði þannig samstarfsaðili fræðslustjóra með fullu sjálfstæði gagnvart honum en hann verði ekki settur í þá stöðu eins og frv. gerir ráð fyrir, að eiga sem formaður að bera ábyrgð á starfi nefndar sem vegna samsetningar er mjög undirorpin þeirri hættu að lítið tillit sé tekið til vilja hennar og samþykkta.
    Þær athugasemdir, sem fram komu í þessum umsögnum og raktar eru í þessari Morgunblaðsgrein, reyndar í miklu lengra og ítarlegra máli, renna enn frekar stoðum undir þann málflutning er ég hef haft hér uppi í þessu máli. En í þessu sambandi langar mig til þess að vitna í nýja ályktun um skóla- og fræðslumál frá 29. landsfundi Sjálfstfl. sem fram fór um síðustu helgi, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Það er stefna Sjálfstfl. að hið opinbera tryggi að allir eigi kost á menntun við sitt hæfi og hafi jafnan rétt til menntunar án tillits til efnahags, búsetu eða fötlunar. Fræðsluskylda hins opinbera skal framkvæmd með þeim hætti að skólar þess og einkaskólar geti starfað hlið við hlið.
    Markmið menntakerfisins er öðru fremur að uppfylla kröfur fólks um menntun og koma þannig til móts við fjölbreytilegar þarfir nemenda og foreldra í þeim efnum svo að nemendum gefist kostur á að búa sig sem best undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.
    Starfshættir innan menntakerfisins byggja á menningararfleifð okkar og skuli því mótast af umburðarlyndi, kristinni trú og siðgæði og lýðræðislegu samstarfi.
    Leggja ber áherslu á að boðið sé upp á menntun til sérhvers starfs. Menntakerfið þarf að taka mið af þörfum atvinnulífsins. Nauðsynlegt er að efla starfsmenntun og að hægt sé að velja um hagnýtt starfsnám eða fræðilegt nám.
    Nauðsynlegt er að hafa í huga alþjóðlegar kröfur og staðla þegar íslenskt menntakerfi er endurskoðað. Skapa þarf menntakerfinu þau skilyrði að skólarnir eigi sem auðveldast að ná markmiðum sínum. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að frumkvæði einstaklinga skiptir miklu í skólastarfi, ekki síður en í öðrum störfum. Því er höfuðnauðsyn að minnka þá miðstýringu sem nú viðgengst í skólakerfinu. Það er raunar forsenda þess að hugmyndir og starfskraftar einstakra skólastjórnenda og kennara nýtist sem skyldi. Skólastjórnendur og kennarar hafa í flestum tilvikum besta þekkingu á því hvaða leiðir ber að fara í skólastarfi. Því ber að draga úr miðstýringu menntakerfisins hvað varðar rekstur, fjármagn, stjórnun, hugmyndir, námsskrá, kennsluefni og kennsluaðferðir.
    Yfirstjórn menntamála ber hins vegar að meta skólastarf og gagnrýna á jákvæðan hátt. Meginhlutverk menntmrn. á að vera að leggja stjórnendum og kennurum til upplýsingar og viðeigandi markmið en ekki að stjórna störfum þeirra.
    Til þess að það fé sem fyrir hendi er nýtist sem best þurfa skólar að fá fjárhagslegt sjálfstæði og fjárhagslega ábyrgð á eigin stjórn. Með því fá stjórnendur skóla hvatningu til að sýna frumkvæði. Jafnframt því má búast við að þetta stuðli að betri nýtingu skólatímans og þar með fjölbreyttara námsframboði.
    Sjálfstfl. telur rétt að stíga það skref til fulls sem markað var með lögum nr. 87/1989, um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og fela sveitarstjórnum alfarið málefni grunnskólans, enda má ætla að með þeim hætti verði kröfum samtímans um einsetinn grunnskóla, samfelldan skóladag og lengingu skólatíma yngstu nemendanna best sinnt.
    Félagsleg þjónusta við grunnskóla, svo sem ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta er mikilvægur þáttur í skólastarfi. Til þess að tryggja markvissan árangur þessarar þjónustu telur Sjálfstfl. nauðsynlegt að veita sveitarfélögum aukið svigrúm til þessa.``
    Virðulegi forseti. Ég taldi rétt að gera grein fyrir hluta af ályktun um skóla- og fræðslumál frá landsfundi Sjálfstfl. núna um síðustu helgi þar sem menntmrh. hefur verið að varpa fram hugmyndum í fjölmiðlum og víðar vafalaust, sem eru afar villandi, þess efnis að Sjálfstfl. sé á móti uppbyggingu grunnskóla

og því taldi ég rétt að vekja athygli á þessari ályktun.
    Mig langar til þess að ræða aðeins nokkur ákvæði í þessu frv. Ég hef þegar gert grein fyrir mörgum þeirra en langar til þess að bæta hér aðeins við og minnast þá á 3. gr. frv. aftur, þar sem segir í 2. mgr.:
    ,,Stefnt skal að því að hver grunnskóli sé heildstæður og einsetinn.``
    Ég hef áður bent á að það eru engar rannsóknir sem sýna fram á það að menntun sé eitthvað betri frá heildstæðum grunnskólum heldur en þar sem fleiri tegundir grunnskóla eru leyfðar. Það er álit þeirra skólamanna er ég hef rætt þetta við að þetta eigi alls ekki að vera stefnan. Telja þeir raunar að það sé margt neikvætt við heildstæða skóla, það sé hætta á því að tími skólastjóra og skólastjórnenda fari allur í efstu stigin, þar sé um að ræða agamál og fleira, og þá sé hætta á því jafnframt að yngra stigið verði afskiptalaust og það geti verið erfitt að hafa góða yfirsýn yfir allt námsefni og annað sem að grunnskólanum lýtur ef skólinn sé heildstæður.
    Ég hef áður nefnt það varðandi 18. gr. frv., um skólanefndir, að ég tel það rétt að skólanefndir eigi einnig að hafa afskipti af innra starfi skólanna, tel það mjög brýnt, en ekki aðeins fræðsluskrifstofur.
    Varðandi 20. gr., þar sem talað er um skólastjóra og ábyrgð hans í starfi, þarf samkvæmt frv. að hafa allt of oft samráð við kennara og þetta kemur einnig fram t.d. við val á umsjónarkennara og árganga- og fagstjóra, sbr. 38. gr. frv.
    Þá má einnig velta fyrir sér ákvæði 30. gr. frv., þar sem talað er um ráðningu skólastjóra, og þá er spurning hvort það sé til bóta að kennararáð komi með umsögn í því efni.
    Í 45. gr. er rætt um vikulegan kennslutíma nemenda og hef ég áður gert athugasemdir við það. Samkvæmt núgildandi lögum er þessi kennslustími 1440 -- 1480 mínútur í 8. -- 10. bekk og því er um að ræða lækkun í 1400 mínútur í þessu nýja frv.
    Reyndar hafa skólamenn bent á það að vikulegur viðverutími nemenda í grunnskóla hafi í reynd lækkað á undanförnum árum og hafa í því sambandi m.a. bent á þann niðurskurð er fram fór á árinu 1989. Hæstv. menntmrh. beitti þá niðurskurði um 4%, en sá niðurskurður þýddi í raun fækkun um tvær kennslustundir á grunnskólanema á viku.
    Ég hef áður bent á að ég tel það brýnt að lengja skólatíma, ekki aðeins yngstu barnanna þó það sé mælt fyrir því hér í þessu frv., ég tel það mjög jákvætt, en ég held að það þurfi að ganga enn lengra, lengja skólatímann enn þá meira til þess að þetta markmið um einsetinn skóla verði nógu haldgott og nefni þá sérstaklega til 9 -- 11 ára nemendur, það ætti þá að koma röðin að þeim næst.
    Í 58. gr. frv. er rætt um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að þessi þjónusta sé fyrir hendi og reyndar segir í 2. mgr. að menntmrn. sé heimilt að fela fræðsluskrifstofu að annast sálfræðiþjónustu á öðrum skólastigum, enda sé veitt til þess fé í fjárlögum.

    Fyrri mgr. 64. gr. hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Menntmrn. leggur grunnskólum til samræmd próf eða könnunarpróf. Skal einkum við það miðað að þessi próf veiti glögga vitneskju um árangur skólastarfsins.``
    Ég held að þetta ákvæði eigi hér fullt erindi þar sem það er mikið vandamál að skólarnir semja sjálfir sín próf. Í þessu sambandi hefur m.a. verið bent á að það þætti rétt að fá þarna ákveðinn samanburð á milli skóla þannig að skólastjórnendur gætu borið saman færni og hæfni sinna nemenda. Því það hefur komið í ljós, einkanlega varðandi stafsetningarkunnáttu, að hún er mismunandi eftir skólum og reyndar ekki í nógu góðu ásigkomulagi þannig að svona fyrirkomulag, samræmd próf eða könnunarpróf, geta orðið hér að miklu gagni og væntanlega þá ýtt undir kennara líka til þess að vanda enn betur til kennslunnar og gera meiri kröfur.
    Í 74. gr. frv. er rætt um fjölda nemenda og segir þar, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Að jafnaði skal við það miðað að nemendur í hverri bekkjardeild í grunnskóla séu ekki fleiri en 24 eftir að frá hafa verið taldir sérbekkir fyrir nemendur sem ekki stunda nám í almennum bekkjum grunnskóla.
    Við ákvörðun fjölda kennslustunda, sem ríkissjóður greiðir í hverjum grunnskóla, skal miða við að í 1. -- 3. bekk séu nemendur í einstökum bekkjardeildum ekki fleiri en 22 og í 4. -- 10. bekk ekki fleiri en 28.``
    Það voru nokkrar athugasemdir í umsögnum um þetta ákvæði og álit sumra að vafasamt væri e.t.v. að setja svona ákvæði í lög, en síðan aftur bent á það að hér væri e.t.v. um of mikinn fjölda barna að ræða og m.a. bent á það að í leikskólum væru þrjár fóstrur með 22 börn. Síðan kæmu þessi börn í grunnskólann eftir sumarfrí og þá ætti einn kennari að vera með þennan hóp. Þess vegna væri spurning hvort það þyrfti ekki að fækka í þessum aldurshópi enn frekar, þó sérstaklega með yngstu börnin.
    Enn fremur er rétt að vekja athygli á því að varðandi kennslustundafjöldann sem fram kemur í þessu frv. er talað um lágmarksákvæði um kennslu, þ.e. það segir í 1. mgr. 45. gr.: ,,Vikulegur kennslutími á hvern nemanda í grunnskóla skal að lágmarki vera þessi.`` En í núgildandi lögum er notað orðatiltækið ,,sem næst``. Þetta ákvæði ,,að lágmarki`` getur valdið nokkrum erfiðleikum því það væri hugsanlegt fyrir skólastjórnendur í skóla sem væri með yngstu nemendurna að ákveða sjálfir að fækka enn fremur nemendum í yngstu bekkjum en yrðu kannski á móti, vegna þess að þeir yrðu að fjölga bekkjum, að minnka eitthvað kennslustundafjölda. Það er náttúrlega atriði sem væri sjálfsagt að skólastjórnendur hefðu möguleika á að skoða í samráði við foreldra.
    Það hefur enn fremur komið fram að skólamenn hafa nokkrar áhyggjur af því að það atriði að bjóða eigi upp á máltíðir í skólum geti verið nokkuð erfitt í framkvæmd. Bæði er það náttúrlega mjög mikill kostnaður, þ.e. bæði í húsnæði og hráefni, þannig að

það er skoðun margra og jafnframt skoðun foreldra einnig sem ég hef heyrt til að það sé í lagi í sjálfu sér að nemendur hafi með sér nesti en sé boðið upp á annað í skóla svo sem drykki og ýmislegt fleira, og gætu þá neytt þess í stofunum undir umsjón kennara. Ég hef hins vegar áður lýst því yfir að sjálfstæðismenn væru tilbúnir til þess að skoða þann möguleika hvort ekki væri rétt að grunnskólinn hefði þá aðstöðu að geta boðið nemendum upp á máltíðir og tel ekki rétt að loka fyrir neitt í þeim efnum.
    Hæstv. forseti. Ég hef haldið hér nokkrar ræður um þetta mál. Vafalaust væri hægt að koma að miklu fleiri athugasemdum. Þetta er mjög áhugavert mál og mikilvægt, snertir flest heimili í landinu. En ég ítreka það enn og aftur að það er skoðun okkar hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur að þetta frv. til nýrra grunnskólalaga sé því miður ekki nógu vel unnið og það þurfi því að endurskoða.