Grunnskóli
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Herra forseti. Þær brtt. sem hv. 14. þm. Reykv. hefur flutt og spurt um eru af margvíslegu tagi. Sumar þeirra eru nú með þeim hætti að það gefur ekki sérstakt tilefni til þess miðað við það sem á undan er gengið að menn fari að breyta fyrri afstöðu deildarinnar í málinu að mínu mati. Ég tel að sumt af því sem hann benti á sé efni sem á að vera verkefni skólaþróunar og aðalnámsskrár, eins og það hvernig staðið er að menntun barna sem eiga auðveldara með að fara í gegnum námsefnið en kannski önnur á einhvern hátt, þannig að ég tel að það sé nú ekki lagaefni. Og ég tel satt að segja að miðað við stöðu málsins þá sé eðlilegast að deildin haldi sér við fyrri afstöðu sína eins og hún hefur birst, þar sem tillögu um að vísa málinu frá hefur verið hafnað en nokkrar aðrar brtt. frá hv. menntmn. hafa verið samþykktar.