Grunnskóli
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Hér í þessari deild eru miklir valddreifingarpostular að því er varðar málefni sveitarfélaganna. En þeir virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því að í þessu frv. um grunnskólamálefni eru tekin af sveitarfélögunum völd í stóru sem smáu. Þessi litla brtt. gerir ráð fyrir því að sveitarfélögin sjálf geti skipt sér upp í skólahverfi án þess að afla til þess samþykkis menntmrn. Menn eru hér í óðaönn að fella þá brtt. og lýsa þar með hinum raunverulega hug sínum til valddreifingar að því er varðar málefni sveitarfélaganna. Ég segi að sjálfsögðu já.