Náttúrufræðistofnun Íslands
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Mér fannst fara svona heldur í verra í síðari ræðu hæstv. ráðherra. Þá opinberaðist að mér þótti, og komu fram sjónarmið sem ég get ekki tekið undir. Ég held að það sé alveg ljóst að það hefur orðið verulegur misskilningur, svo maður reyni nú að túlka það með jákvæðum hætti, hjá ráðuneytinu við mat á þessu máli og stöðu þess. Það er í rauninni samkvæmt því sem hér kom fram í máli hæstv. ráðherra verið að hrófla við málum miklu meira en lesa má út úr textabreytingum frv. frá þeim tillögum sem nefndin gerði til ráðuneytis á sínum tíma.
    Hér endurspeglast sú hugsun sem er búin að ríða þessu húsi allt of lengi í sambandi við starfsemi í landinu á vegum ríkisins og í tengslum við ríkið, rannsóknastarfsemi, það sjónarmið að það hljóti að vera hér í höfuðstað landsins, hér í Reykjavík og ekki annars staðar, sem fullburðug rannsóknastarfsemi og vísindastarfsemi geti farið fram. Þannig eigi þetta að vera. Ég tel að þetta sé rangt sjónarmið. Í öllu falli stangast það á við þær hugmyndir sem heyrast í orði frá stjórnmálamönnum öðru hvoru, m.a. frá ráðherrum í núv. ríkisstjórn á stundum, að það eigi að reyna að snúa við þeirri öfugþróun í byggðamálum sem átt hefur sér stað um allt of langan tíma og m.a. og ekki síst á rætur að rekja til þess að ríkisvaldið hleður undir starfsemi hér, sérfræðistarfsemi, rannsóknastarfsemi, vísindastarfsemi, en hefur ekki sýn til þess að hún fái að rísa og dafna utan þessa aðalþéttbýlissvæðis landsins. Þetta er mjög alvarlegt sjónarmið og rangsnúið. Hæstv. ráðherra bar það hér fram að það hefðu fengist undirtektir frá talsmanni viðræðunefndar Akureyrarbæjar, Tómasi Inga Olrich, við þær breytingar sem lagðar eru til af ráðuneytinu í þessu frv. frá tillögum viðkomandi nefndar. Ég leyfi mér að draga mjög í efa að þessi fullyrðing hæstv. ráðherra sé rétt. Ég hef átt viðræður við sama mann um sama efni og heyrt allt annað hljóð sem reyndar kom mér ekki á óvart. Og ég vona að þeir hér á Alþingi, nú eða síðar, sem fá mál þetta til meðferðar og undirbúnings, leggi sig fram um það að skilja þörfina á að ná saman um þessi efni á þann hátt að um þetta geti tekist pólitísk breið samstaða um þá þróun rannsóknastarfsemi sem hér er lögð til og að þau setur sem ætlað er að sinna þessum rannsóknum verði ekki sett skör lægra þó þau séu utan Reykjavíkur en sú starfsemi fullgild og ágæt sem hér fer fram og þarf auðvitað að hafa aðstöðu til að þróast. Ég gat ekki, virðulegur forseti, á mér setið að koma þessum ábendingum á framfæri.
    Ég get tekið undir það sem hv. 6. þm. Reykv. sagði varðandi mat á starfsmönnum sem ráðnir eru til þessarar stofnunar. Mér finnst óeðlilegt að gera þar ekki hliðstæðar kröfur og til Háskólans, starfsmanna þar, og bendi á að samkvæmt fyrirliggjandi tillögum er einmitt gert ráð fyrir því að samstarf geti orðið meira og betra milli Háskóla Íslands og seturs hér í Reykjavík og væntanlega muni sama gerast varðandi Háskóla á Akureyri og þess seturs sem þar er um að ræða. Það er mikil ástæða til þess að leggja svipaðan mælikvarða á þá sem fást við vísinda- og rannsóknastarfsemi í þessari stofnun eins og hjá háskólum landsins. Þar eru launamálin allt annar handleggur, allt annar hlutur, sem hæstv. ráðherra fór að blanda í þetta mál. Það á ekki að rugla því saman hvort menn telja að menn séu ekki bærilega haldnir í launum eða fái ekki nóg fyrir sinn snúð annars vegar og hins vegar hæfniskröfum, það er að blanda saman óskyldum hlutum og raunar síst til þess fallið að bæta veg þeirra sem við vísindarannsóknir starfa að ætla að draga úr kröfum sem til þeirra eru gerðar sem eiga að sinna verkunum. Það held ég að verði ekki til þess að bæta stöðu þeirra launalega séð til lengri tíma litið.