Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Þegar þetta frv. var til 1. umr. lagði ég áherslu á að það frávik frá reglunni 25% í atvinnugrein yrði a.m.k. breytt því að þar segir að það megi rýmka með leyfi viðskrh. Ég hefði náttúrlega viljað að það færi alveg út að nokkur gæti leyft slíkt öðruvísi en það færi fyrir Alþingi. En í það minnsta að öll ríkisstjórnin yrði þá að gefa slíkt leyfi. Ég held að hv. þm. hafi reynslu af því hvernig hefur verið staðið að samningum um álverksmiðjuna. Sú reynsla sem við höfum af þeirri umfjöllun, yfirlýsingum og samningagerð er ekki traustvekjandi. Mér finnst því full ástæða til þess að setja ekki í hendur eins manns, hver sem hann er, að gefa slíkt leyfi. Og þessu frv., eins og það er úr garði gert, get ég ekki fylgt.
    Ég get alveg tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að ég vil ekki loka fyrir þann möguleika að fá erlent fjármagn að einhverjum litlum hluta inn í suman okkar atvinnurekstur. En að opna þetta, eins og t.d. hv. 1. þm. Reykv., sem er nýkrýndur varaformaður Sjálfstfl. og endurreistur, kom með tillögur um, er ég algerlega á móti. Mér fannst það svolítið athyglisvert þar sem hann ræddi um og það var auðheyrt að hann stefndi að því að við gerðum samninga við EB eða hið Evrópska efnahagssvæði. Ég veit að hv. þm. er nú glöggur maður og lögfræðingur í þokkabót og ég hélt að hann væri búinn að kynna sér þessi mál nógu vel til að vita að það getur ekki verið eftirsóknarvert fyrir dvergríki eins og okkur að tengjast því á nokkurn hátt. Ég lít svo á að ef við gerum það með þeim hætti, sem ég er eiginlega ekki farinn að trúa og ég er ekki farinn að sjá og allt bendir til þess að það verði ekki ef menn á annað borð halda vöku sinni og vita hvað þeir eru að gera, þá sé verið að stíga tvö skref af þremur inn í EB og verði tæpast aftur snúið. Ég held að hv. þm. ættu að athuga sinn gang nokkuð betur. Og ég held að það sé athygli vert
fyrir hinn almenna kjósanda að kynna sér ræðu hv. 5. þm. Reykv., sem er hér í málstofunni sem talsmaður Sjálfstfl., hvert stefnir þessi flokkur í þessum málum. Enda þótt óleyfilegt sé að erlendir menn séu inni í fiskveiðum, þá er a.m.k. fullyrt við mig að þeir séu þegar komnir inn í slíka starfsemi, hvað þá ef erlendum aðilum verða opnaðar dyrnar á þann veg sem hér er lagt til.
    Ég sé að hv. þm. Páll Pétursson er ekki hér í salnum. ( Gripið fram í: Jú, hann er hér.) Mér finnst orðin mikil breyting á afstöðu hv. þm. til slíkra mála frá því að við vorum saman í Framsfl. Í raun og veru er Framsfl. að þessu leyti orðinn allt annar flokkur en hann var fyrir tíu árum. Ég veit ekki með hv. þm. Pál Pétursson, hvort það er vegna þess að hann er víst búinn að bregða búi og er að verulegu leyti orðinn Reykvíkingur. ( PP: Það er fjarstæða.) Ef það er fjarstæða þá þarf ég að fá skýringu á því hvers vegna hv. þm. hefur tekið þeim sinnaskiptum, bæði í sambandi við álverksmiðjur og annað, því að hann var einn af þeim vökulu mönnum á þeim tíma sem ég þekkti hann best í sambandi við það að reyna að hafa vit

fyrir ráðamönnum í þessum efnum. En nú gengur hann samhliða þeim virðist vera, enda er hann í Landsvirkjun og ætti að hafa möguleika á því að fylgjast með því sem þar gerist og ætti að vita að í þeim samningum sem er verið að ræða um, um orkusölu til álverksmiðjunnar, er verið að stefna að því að borga í raun og veru útflutningsbætur á sölu orkunnar úr landi. Hér er verið að tala um að hagvöxtur mundi aukast. Já, þau eru mörg öfugmælin sem maður heyrir hér á hv. Alþingi.
    Ég sé nú ekki betur en þetta frv. sé þannig úr garði gert allt saman að það væri bættur skaðinn þó því verði ekki lokið á þessu þingi og þurfi ekki að vera að halda fundi jafnvel nótt og dag þess vegna. Ég sé ekki betur en það séu mörg atriði sem þurfi að athuga frá því sjónarmiði að við erum dvergríki. Það er ekki hægt að gera neinn samanburð á okkur og hinum stærri þjóðum gagnvart þessu eða öðru. Við erum í raun og veru ekki þróuð þjóð í atvinnurekstri. Við lifum að mestu leyti á sjávarafla. Þar af leiðir að við verðum að vera vel á verði til að missa ekki tökin á því að neinu leyti.
    Ég ætla ekki að ræða þetta í lengra máli. Ég sagði það við 1. umr., eins og ég sagði áðan, að ég gæti ekki staðið að þessu frv. miðað við 4. gr. eins og hún er sérstaklega. Þær tillögur sem Sjálfstfl. flytur hér um að rýmka þetta frá því sem er eru alveg fráleitar. Ég sé ekki betur en að frelsisstefna hans sé að setja þjóðina í fjötra, það sé nú frelsið. En ég mun nú tala betur um það við annað tækifæri. ( FrS: Þetta er ágætis tækifæri núna.) Ég veit að hv. 1. þm. Reykv. liggur ekkert á að mál haldi hér áfram. En það gengur ekki miðað við þá reynslu sem við höfum að það sé einn maður sem getur ráðið úrslitum um þann atvinnurekstur eða undanþágur frá þeirri meginreglu sem er í 4. gr.