Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ágreiningur minn við hæstv. forsrh. varðandi það mál sem hér er flutt af okkur liggur í mati, fyrir utan efnisatriði frv. sem ég hef gert grein fyrir, á stöðu þessa frv. gagnvart hugsanlegum samningum um Evrópskt efnahagssvæði. Ég tek að vísu eftir því að hæstv. forsrh. er heldur að draga í land í sínum málflutningi frá þeim fullyrðingum sem hann hefur haft uppi um þetta efni, sem voru að mínu mati fjarstæða, en enn er hann að reyna að hanga í því að lögfesting þessa frv. skipti einhverju verulegu máli gagnvart lokasamningunum, lokahrinu samninganna, um Evrópskt efnahagssvæði. Spurningin er þessi: Munu ákvæði þessa frv. verða ráðandi gagnvart þeim ákvæðum sem við semjum um um hið Evrópska efnahagssvæði? Erum við að segja við okkar samningsaðila: Hér er þetta frv. Það hefur ýmsar takmarkanir miðað við opnunina innan sameiginlega markaðarins, innri markaðarins, og við ætlum að halda þessum takmörkunum. Nú er þetta mál allt orðið þrautrætt, afstaða Íslands til innri markaðar Evrópubandalagsins, allt saman þrautrætt, nema það er ekki alveg ljóst hversu langt Íslendingar bakka að endingu frá þeim aumu fyrirvörum sem gerðir hafa verið að þessu leyti. Þar eru menn ekki komnir í neina endastöð. En að halda því fram að það komi eitthvað til með að reyna á ákvæði þessa frv. sem slík --- ég leyfi mér að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann ætli að fara með ákvæði frv. eftir að það yrði að lögum á Alþingi og segja: Nú er staðan breytt frá því sem við höfum verið að túlka, og draga fram í hinum einstöku hópum og í meginviðræðunefndinni, þetta er afstaða Íslands. Fyrst þyrfti hann væntanlega að taka það upp gagnvart EFTA - hópnum, sem ætlar að tala einni röddu, og síðan leggja það fyrir sem nýja kröfu af Íslands hálfu.
    Ég held að hæstv. forsrh. hafi annaðhvort fest sig í þessu fullyrðinganeti sínu eða hann hefur ekki áttað sig á því hvað felst í frv. sem hér er verið að bera fram. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál og það er kannski sérstaklega alvarlegt mál vegna samninganna um Evrópska efnahagssvæðið ef hæstv. forsrh. veður í þeirri villu að ákvæði þessa frv. verði eitthvert innlegg inn í þá samninga og að við þurfum ekki að láta ákvæði þess víkja gagnvart öllum þessum 1400 samþykktum sem raunar er þegar búið að skrifa upp á varðandi innri markaðinn. Þar eru menn komnir í varnaglaákvæðin ein sér sem líklegt er að haldi ekki einu sinni ef kemur til dóma hins yfirþjóðlega dómstóls sem verið er að undirbúa varðandi efnahagssvæðið. En það er gott að hér er hæstv. utanrrh. líka þannig að hann getur þá svarað þessum athugasemdum fyrir sitt leyti þar sem hann fer með þessa samninga. Forsrh. virðist þurfa að lesa þetta betur.
Ég tek undir það atriði sem kom fram hjá hæstv. forsrh., og gerði það í fyrra máli mínu, að ég tel viss atriði frv. til bóta, ekki aðeins vegna samræmingar heldur vegna þess að þar er lengra gengið í átt að loka fyrir aðkomu útlendinga, þ.e. í fiskveiðunum, eins og hæstv. forsrh. réttilega nefndi. Ágreiningurinn er hins

vegar um túlkunina á stöðu þessa frv. varðandi samningana um hið Evrópska efnahagssvæði og þar held ég að hæstv. forsrh. þurfi að lesa betur í málinu.