Fræðsla í fjármálaumsýslu í skólum
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um till. til þál. um fræðslu í fjármálaumsýslu í skólum frá félmn. Nd.
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið um hana umsagnir frá Hinu íslenska kennarafélagi, menntmrn., Sambandi íslenskra sparisjóða og Kennarasambandi Íslands.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj. Brtt. er ætlað að taka af öll tvímæli um að ekki er verið að leggja til að fjármálafræðsla verði sérstök námsgrein í grunn- og framhaldsskólum heldur felst í tillögunni að slíkri fræðslu verði gerð skil í þeim námsgreinum þar sem henni verður best fyrir komið.``
    Undir nál. skrifa allir nefndarmenn í félmn. Sþ.
    Á þskj. 857 er brtt. við till. til þál. um fræðslu í fjármálaumsýslu í skólum frá félmn., um að tillgr. orðist svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að láta útbúa námsgögn um almenna fjármálaumsýslu fyrir efsta bekk grunnskólans, sem og framhaldsskólann, og gera fræðslu um hana að skyldunámsefni á þessum námsstigum. Ráðuneytið ákveði í hvaða námsgreinum fræðslunni verði best fyrir komið.
    Markmið fjármálafræðslunnar verði:
    1. að taka til meðferðar sem flest er við kemur almennri fjármálaumsýslu, þar með talin gerð greiðslu- og kostnaðaráætlana, og setja efnið þannig fram að það verði öllum aðgengilegt og skýrt,
    2. að gera ungt fólk betur meðvitað um fjármál og um leið fjárskuldbindingar með því m.a.:
    a. að kynna nemendum meðferð greiðslukorta og notkun tékkhefta,
    b. að kynna nemendum almennar reglur um lántökur, svo sem víxla- og skuldabréfaviðskipti, vaxtamál og hvaða ábyrgð felst í því að gerast ábyrgðarmaður á skuldaviðurkenningum,
    c. að tengja þessi námsgögn réttindum og skyldum manna er þeir verða fjárráða.``
    Virðulegi forseti. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt eins og hér er lagt til.