Úrbætur á aðstæðum ungmenna
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Í forföllum frsm. félmn. Sþ. mæli ég fyrir nál. um till. til þál. um úrbætur á aðstæðum ungmenna sem flosna upp úr skóla.
    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið um hana umsagnir frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Hagstofu Íslands, foreldrasamtökunum Vímulaus æska, Unglingaheimili ríkisins, landlækni, útideild Félagsmálastofnunar Reykjavíkur og Krýsuvíkursamtökunum. Þá fékk nefndin á sinn fund Þórð Skúlason, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ómar Smára Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjón í forvarnadeild lögreglunnar í Reykjavík, og Harald Finnsson, deildarsérfræðing í menntmrn.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Nefndin leggur áherslu á að samstarfshópur sá, sem tillagan gerir ráð fyrir að komið verði á fót, hafi samráð um verkefni sitt við fulltrúa barnaverndarnefnda eða barnaverndarráðs, aðila vinnumarkaðarins, útideildir félagsmálastofnana sveitarfélaga, fulltrúa foreldra hlutaðeigandi barna og framkvæmdahóp um málefni miðborgarinnar í Reykjavík sem komið var á fót í ársbyrjun 1990 að frumkvæði lögreglunnar í Reykjavík. Félmn. er kunnugt um að áðurgreindur miðborgarhópur hefur rætt hugmyndir um skipan samstarfsnefndar um málefni barna og unglinga á höfuðborgarsvæðinu en nefndin telur hins vegar að þar sem vandamál ungmenna, sem flosna upp úr skóla, eru ekki bara bundin við höfuðborgarsvæðið, sé eðlilegast að koma á fót samstarfshópi er fjalli um vandamálið fyrir landið í heild.``
    Undir þetta nál. rita Ásgeir Hannes Eiríksson, Rannveig Guðmundsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Alexander Stefánsson, Kristinn Pétursson, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Björn Grétar Sveinsson.
    Og brtt. nefndarinnar á þskj. 861 við till. til þál. um úrbætur á aðstæðum ungmenna sem flosna upp úr skóla er svohljóðandi:
    ,,Tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að koma á fót samstarfshópi á vegum ráðuneyta og sveitarfélaga til að gera tillögur um samræmdar aðgerðir sem miði að því að aðstoða ungmenni sem flosnað hafa upp úr skóla. Samstarfshópurinn fjalli einnig um sameiginlegar forvarnir gegn þessum vanda.
    Samstarfshópurinn verði skipaður fulltrúum tilnefndum af dómsmála-, félagsmála- menntamála- og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, stærstu sveitarfélögunum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Samstarfshópurinn skili niðurstöðum fyrir árslok 1991.``
    Þannig leggur félmn. Sþ. til að þessi tillaga verði samþykkt.