Björgunarþyrla
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. 5. þm. Suðurl. stend ég að þessu nál. um björgunarþyrlu, en ég hef fyrirvara við nál. sem ég vil gera grein fyrir. Ég vil þó taka það fram og undirstrika að ég er efnislega samþykkur tillögunni. Ég tel að endurnýjun þyrluflota Landhelgisgæslunnar þoli ekki bið og það sé rétt að gera samninga um þyrlukaup á þessu ári.
    Fyrirvari minn felst í því að ég tel að það sé vafasamt að festa heimildina um þessi fyrirmæli við kaup á einni þyrlu. Mín skoðun er sú að það komi fyllilega til greina að kaupa tvær þyrlur svipaðrar eða sömu gerðar og sú sem Landhelgisgæslan á nú og staðsetja aðra þyrluna úti á landi. Ég tel að vilji Alþingis hafi komið fram í málinu nú þegar því að við samþykkt fjárlaga nú á haustþingi var samþykkt heimildargrein við 6. gr. fjárlaga um kaup á þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna og einnig hefur verið lagt fram frv. til laga um sjóðshappdrætti sem er til meðferðar í Ed. Alþingis og verður vonandi samþykkt nú fyrir þinglok.
    En í trausti þess að staðsetning þyrlu á landsbyggðinni verði athuguð í fullri alvöru í sambandi við þá samninga, sem væntanlega verða gerðir í kjölfar þessarar tillögu, þá greiði ég henni atkvæði, enda er málið þarft og þolir ekki bið.