Vaxtamál
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Um sl. áramót óskaði ég eftir því við Seðlabankann að hann gerði grein fyrir horfum í vaxtamálum og hvernig hann hygðist tryggja hóflega raunvexti og vaxtamun. Svar bankans barst með greinargerð dags. 30. jan. um lánskjör og vexti. Að beiðni hv. 1. þm. Suðurl. og fleiri þingmanna hef ég lagt þessa greinargerð bankans fram sem skýrslu til Alþingis.
    Í umræðum hér á Alþingi þann 26. fyrra mánaðar um frv. hv. 3. þm. Suðurl. um lánskjör og ávöxtun sparifjár tók ég það fram að tilefni væri til þess að ræða ítarlega um vexti og verðtryggingu og hlutverk þessara gangráða efnahagslífsins. Sú staðreynd að nú er skammt til þingloka og mörgum verkum ólokið á Alþingi gerir það að verkum að ekki gefst tækifæri til þess að fara í svo ítarlega umræðu sem vera þyrfti á þessu þingi. Hins vegar virðist mér, miðað við það hversu oft vextir og verðtrygging hafa að undanförnu komið til umræðu á Alþingi og reyndar annars staðar á opinberum vettvangi, að orðið sé meira en tímabært að efna til vel undirbúinnar ráðstefnu um vexti og verðtryggingu og brjóta þessi fyrirbæri til mergjar, bæði fræðilega, efnahagslega en ekki síður stjórnarfarslega og hvernig best sé að koma ákvörðunum um þessi mikilvægu mál fyrir í okkar stjórnkerfi en af því verður þó ekki að sinni.
    Í greinargerð Seðlabankans, sem nú liggur á borðum þingmanna, er fjallað um þróun nafnvaxta og raunvaxta á árinu 1990. Þar er gerð grein fyrir þróun vaxtamunar og vextir hér á landi bornir saman við vexti erlendis og loks gerð grein fyrir nokkrum leiðum sem hugsanlegar væru til þess að hafa áhrif á vaxtaþróun á Íslandi. Meginniðurstöður bankans eru þessar í mjög stuttu máli:
    1. Nafnvextir hafa lækkað afar mikið á árinu 1990 samfara hjaðnandi verðbólgu. Sannleikurinn er sá að frá því í árslok 1989 og til ársloka 1990 meira en helminguðust nafnvextirnir.
    2. Raunvextir á verðtryggðum útlánum bankanna hafa haldist svo til óbreyttir frá árinu 1989 sé tillit tekið til þeirrar breytingar sem fylgdi upptöku kjörvaxta.
    3. Raunvextir á óverðtryggðum útlánum banka hafa reynst lítið eitt hærri að jafnaði á árinu 1990 en á árinu 1989, en samt verulega lægri en á árinu 1988. Þessi síðasttalda tala flöktir þó nokkuð á árinu vegna breytinga á hraða verðbólgunnar en í lok ársins var þarna aftur komin fram veruleg lækkun.
    Í þessu sambandi bendir Seðlabankinn einmitt á að aðlögun nafnvaxta að verðbólgu innan ársins hafi verið heldur skrykkjótt og í fylgiskjölunum kemur fram að þessir vextir hafi um hríð á liðnu ári verið allháir. Þá á ég að sjálfsögðu við raunvextina. Ég mun koma nánar að þessu nokkru síðar í máli mínu.
    Þá getur bankinn þess að vaxtaaðlögun hafi orðið á verðbréfamarkaði þannig að minna bil sé nú milli raunvaxta af skuldabréfum ríkissjóðs annars vegar og af skuldabréfum annarra útgefenda hins vegar. Að

mati bankans er nú betra jafnvægi ríkjandi á þessum hluta peningamarkaðarins en áður. Þá er í greinargerðinni bent á að vaxtamunur í bankakerfinu hafi verið allbreytilegur innan ársins 1990, en í desember --- og það er það sem við getum nú helst við miðað --- hafi hann verið metinn um 4% og er sú tala borin saman við 5,8% í lok ársins 1989, þ.e. ári fyrr. Að mati Seðlabankans mundi frekari lækkun vaxtamunar rýra eiginfjárstöðu bankanna. Ég er sammála þessu mati bankans og bendi á að í viðskiptabankalögunum hefur Alþingi sjálft gert strangar kröfur um eigið fé bankanna til að tryggja að þeir standi fjárhagslega traustum fótum. Í því felst vörn innstæðueigenda og um leið krafa til þess að fé bankans eða því fé sem hann ráðstafar sé varið til arðbærra verkefna sem geta skilað þeim vöxtum sem þörf er á. Til að uppfylla þessar kröfur þarf að reka bankana með hagnaði og tekjur af vaxtamun eru eðlilegasta leiðin til þess. Í þessu efni verður ekki bæði sleppt og haldið. Samanburður Seðlabankans á raunvöxtum hér á landi og erlendis leiðir í ljós að þeir eru misháir í okkar helstu viðskiptalöndum. Um þessar mundir eru þeir langlægstir í Bandaríkjunum sem m.a. stafar af viðleitni stjórnvalda þar í landi til þess að sigrast á alvarlegum efnahagssamdrætti með vísvitandi vaxtalækkun sem náð er með kaupum á skuldabréfum. Raunvextir hér á landi virðast hins vegar lítið eitt hærri en að meðaltali í okkar helstu viðskiptalöndum.
    Í fylgiskjölunum með skýrslu bankans kemur mjög glöggt í ljós að raunvextir af skammtímalánum eru hér á landi svipaðir --- ég endurtek, svipaðir og í þeim ríkjum sem glíma við hallarekstur ríkissjóðs líkt og við gerum.
    Lánsfjárþörf ríkisins og húsnæðiskerfisins hefur verið mikil á síðustu missirum. Með réttu hefur verið lögð á það rík áhersla að fullnægja þessari lánsfjárþörf á innlendum fjármagnsmarkaði. Þetta hefur hins vegar óhjákvæmilega leitt til ákveðinnar spennu á lánamarkaðinum sem hefur haldið uppi raunvöxtum hér á landi. Meðan við komum ekki böndum á hallarekstur ríkissjóðs er þess vart að vænta að raunvextir geti lækkað hér á landi varanlega. Þetta er mergurinn málsins. Það þarf að ná tökum á ríkisfjármálunum, enn betri en þeim sem tekist hafa, loka húsnæðislánakerfinu frá 1986 og draga verulega úr þeirri niðurgreiðslu vaxta af húsnæðislánum sem þar hefur lengi tíðkast. Undir þessi sjónarmið tek ég. Hins vegar get ég alls ekki tekið undir það sjónarmið Seðlabankans að draga eigi úr greiðsluerfiðleikalánum til húsbyggjenda sérstaklega. Þar tel ég að bankinn fari villur vegar og sú ráðgjöf er ekki vel þegin.
    Ég tel að við eigum alls ekki að hvika frá frelsi innánsstofnana til þess að þær ákvarði sjálfar vexti án beinnar opinberrar íhlutunar. Ég er sannfærður um það að vaxtafrelsið hefur átt snaran þátt í því hversu fljótt og vel þjóðarútgjöld löguðu sig að fallandi þjóðartekjum á árunum 1988 og 1989 sem aftur hefur leitt til minni erlendrar skuldasöfnunar en yfirleitt hefur einkennt fyrri samdráttarskeið í þjóðarbúskap Íslendinga. Við eigum því að standa vörð um vaxtafrelsið og

halda óhikað áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið, nefnilega að efla bankana með sameiningu og samruna þeirra og stuðla að aukinni samkeppni í bankakerfinu með því að aflétta gjaldeyrishöftum, heimila erlendum aðilum að eignast hlut í íslenskum bönkum og heimila erlendum bönkum að opna útibú hér á landi eins og tillögur hafa þegar verið gerðar um af þessari ríkisstjórn. Þegar þessi braut hefur verið gengin til enda munu innlánsstofnanir hér á landi búa við raunverulega samkeppni og raunvextir á Íslandi munu þá taka beinlínis og sjálfkrafa mið af vöxtum erlendis. Vilji stjórnvöld beita vöxtum sem hagstjórnartæki er farsælast að gera það með markaðsaðgerðum Seðlabankans, en ekki með tilskipunum.
    Í framhaldi af þessari skýrslugjöf ritaði ég Seðlabankanum bréf þann 21. febr. þar sem ég greindi frá því að ríkisstjórnin hefði á fundi sínum 19. sama mánaðar samþykkt tillögu þess efnis að Seðlabankanum væri falið að freista þess að ná fram lækkun raunvaxta með óbeinum aðgerðum eða fyrirmælum ef þurfa þætti. Í bréfinu var bent á ýmsar óbeinar aðferðir til þess að hafa áhrif á vaxtastigið í landinu og þess farið á leit við bankann að hann upplýsti hvernig hann hygðist hafa áhrif á raunvaxtastigið til lækkunar. Þarna var m.a. bent á hugsanlegar breytingar á innlánsbindingu, hugsanlega beitingu viðskipta með markaðsverðbréf og að vaxtaákvarðanir í bankakerfinu væru miðaðar við raunverulegt verðbólgustig en ekki verðbólguspár og að vaxtabreytingar væru sjaldnar en verið hefur. Seðlabankinn hefur svarað þessari málaleitan með bréfi sem er dags. þann 6. mars. Þar ítrekar bankinn sína fyrri skoðun að óráðlegt sé miðað við ríkjandi aðstæður að þrýsta niður vöxtunum með peningalegum þensluaðgerðum. Að áliti bankans mundi það grafa undan því jafnvægi sem náðst hefur í myndun verðlags og launa, það mundi auka viðskiptahalla og erlendar skuldir. Vænlegustu leiðirnar til þess að ná fram raunvaxtalækkun séu enn þær að mati bankans að draga úr lánsfjárþörf ríkissjóðs og annarra opinberra aðila, loka húsnæðislánakerfinu frá 1986 og samræma vexti þess kerfis almennum vöxtum á húsnæðislánamarkaði.
    Þá ítrekar bankinn einnig þá skoðun sína að samanburður á vöxtum hér á landi og í þeim viðskiptalöndum Íslendinga þar sem efnahagsástand er sambærilegast við það sem hér gerist gefi ekki tilefni til að beita ákvæðum 9. gr. seðlabankalaga þar sem heimiluð er bein íhlutun í vexti og vaxtamun innlánsstofnana ef vextir á Íslandi eru að raungildi til muna hærri en verður í helstu viðskiptalöndum okkar eða vaxtamunur keyrir úr hófi. Hvorugt telur Seðlabankinn að sé nú til staðar og þess vegna ekki forsenda til að beita þessu varúðar - og aðhaldsákvæði seðlabankalaganna.
    Ég er í meginatriðum sammála Seðlabankanum í þessu mati. En ég tel nú sýnt, þar sem verðbólgan hefur að undanförnu reynst enn minni en spáð hafði verið, að tímabært sé að freista þess að ná niður nafnvöxtum í bönkum, og Seðlabankinn eigi að hafa um það forgöngu með samtölum við bankana, og þeim

breytingum í skilyrðum á rekstrarkjörum banka sem þurfa þætti til þess. Slíkar viðræður fara enda fram og Seðlabankinn hefur lýst sig til þess fúsan og áhugasaman eins og kemur fram í svari hans frá þessum tíma.
    Jafnvægi á lánamarkaðnum er kannski mikilvægasti árangur efnahagsstefnu þessarar stjórnar í samvinnu við Seðlabankann. Ég tel það mjög mikilvægt að við röskum ekki því jafnvægi. Það er enginn smáárangur að hafa náð verðbólgunni úr 30 -- 40%, eins og hún var haustið 1988, niður fyrir 5%. Það er enginn smáárangur að hafa á sama tíma náð nafnvöxtunum úr 40% niður í 14 -- 15%. Þetta hefur allt gerst á tveimur og hálfu ári og ég er sannfærður um það að reynslan mun sýna okkur enn að á þessu sviði mun frjálsræðið skila betri árangri en skömmtun og stýring stjórnvalda. Það sýnir reynslan af innflutningshöftum og innflutningsfrelsi. Og reynslan á áttunda áratugnum, þegar sparifé almennings brann upp á verðbólgubálinu, er ekki góður vitnisburður um gildi beinnar íhlutunar um ákvörðun vaxta.