Vaxtamál
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þá greinargerð sem hann hefur hér flutt fyrir skýrslu um lánskjör og vexti. Sú umræða sem fer fram um þessa skýrslu í kvöld á sér nokkurn aðdraganda. Segja má að hún hafi byrjað hér í þingsölum á lokadegi þinghalds fyrir jólaleyfi, en eins og menn rekur minni til gerðust þeir atburðir þá að hæstv. forsrh. réðst mög harkalega að þeim sem ábyrgð bera á vaxtaákvörðunum ríkisbanka og taldi sérstaklega að meiri hluti bankaráðs Búnaðarbankans, þingmenn eða fulltrúar stjórnarflokkanna sem þar sitja, hefði gerst brotlegur við bankalöggjöfina. Það var mjög einstæður atburður. Hvorki fyrr né síðar hafa slíkar ásakanir verið bornar á bankaráðsmenn. Ég bauðst þá til þess að greiða fyrir því að lagafrv. yrði flutt hér á Alþingi þar sem ákveðið yrði að kjósa á ný bankaráðsmenn í Búnaðarbankann þannig að í ljós kæmi hverjir bankaráðsmanna nytu trausts og hverjir ekki og á þann veg gefa hæstv. forsrh. kost á að standa við orð sín. En því boði var að sjálfsögðu hafnað af því að hæstv. forsrh. hafði ekki áhuga á að standa við orð sín.
    Framhald þessa máls sáu menn svo í sjónvarpsfréttum nú í kvöld þegar fréttamenn höfðu viðtal við þrjá ráðherra vegna nýlegs bréfs Seðlabankans til hæstv. ríkisstjórnar vegna tillagna sem þaðan komu. Hæstv. viðskrh. fjallaði málefnalega um það erindi og var í meginatriðum sammála stefnumörkun bankans. Hæstv. forsrh. kallaði bréfið hneyksli og hæstv. fjmrh. sagðist nú ekki lengur lesa bréf Seðlabankans, enda væri Seðlabankinn orðinn að kosningaskrifstofu Sjálfstfl. Það er athyglivert að hápunktur þessarar umræðu af hálfu hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. skuli vera með þessum hætti.
    Ég hygg að flestir geri sér grein fyrir því að þessir tveir hæstv. ráðherrar ræða um þessi mikilsverðu mál eins og þeir hafi aldrei vaxið upp úr málfundafélagi menntaskólans.
    Ummæli hæstv. viðskrh. og greinargerð hans fyrr í þessari umræðu eru af allt öðrum toga. Þar var að finna málefnalega umræðu og skýra stefnumótun.
    Það er ekki ágreiningur um það að mínu mati á milli stjórnmálaflokka eða einstakra þingmanna að mikils er um vert að ná niður vöxtum. Af greinargerðum og stefnumótun Seðlabankans verður ekki annað ráðið en á þeim bæ sé líka mikill áhugi á því að ná niður vöxtum, enda séu þeir býsna háir í dag, um það er ekki ágreiningur við Seðlabankann og um það er ekki ágreiningur á milli stjórnmálaflokkanna í landinu. Það er einmitt meginástæðan fyrir því að þessi umræða var hafin hér fyrr á þessu þingi og er nú endurtekin. En menn greinir á um leiðir og menn greinir á um það með hvaða hætti þeir ráðherrar sem bera pólitíska ábyrgð í þessum efnum standa undir ábyrgð sinni og á því er æði mikill munur.
    Við búum nú við löggjöf eins og hæstv. viðskrh. lýsti sem gerir ráð fyrir markaðsákvörðun vaxta. En hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. tala með menntaskólatungutaki eins og allt annars konar löggjöf gildi í landinu. ( Menntmrh.: Talaðu vel um menntaskólann.) Þeir tala eins og sú löggjöf ríki að ríkisstjórn ákveði með pólitískri ákvörðun hvert vaxtastigið eigi að vera og svo séu það einungis vondir strákar úti í bæ eða í bönkum sem komi í veg fyrir að þeirra góði vilji nái fram að ganga.
    Löggjöfin sem við búum við er á annan veg og menn hljóta að spyrja: Ef hæstv. ríkisstjórn eða einhver hluti hennar er ósáttur við þessa löggjöf, hvers vegna er henni þá ekki breytt? Það er lítil pólitísk reisn yfir því að taka að sér að bera pólitíska ábyrgð á gildandi löggjöf, bera pólitíska ábyrgð á kjöri bankaráðsmanna í ríkisbönkum sem taka ákvarðanir um vaxtahækkanir og hlaupast svo undan merkjum og segjast enga ábyrgð bera, hún liggi alltaf annars staðar. Það er auðvitað þetta pólitíska siðferði sem menn hljóta að takast á um á næstu vikum. Það er ekki á háu plani.
    Skýrsla sú um lánskjör og vexti sem Seðlabankinn samdi að beiðni ríkisstjórnarinnar í framhaldi af þeim umræðum sem urðu hér á lokadegi þinghalds fyrir jól er um margt athygliverð. Þar kemur skýrt fram að dregið hefur úr lánsfjáreftirspurn atvinnufyrirtækja vegna þess að það hefur ríkt stöðnun í atvinnulífinu. Það er einn helsti árangur eða ein helsta afleiðing, skulum við segja, efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar að það ríkir nú stöðnun í atvinnulífinu og fyrir þá sök hafa atvinnufyrirtækin ekki sótt eftir lánafyrirgreiðslu eins og ætla hefði mátt. Á móti þessu kemur, segir Seðlabankinn, stóraukin lánsfjáreftirspurn vegna lánsfjárþarfar ríkissjóðs og fjáröflunar til íbúðalána. Síðan segir í skýrslunni: ,,Engu að síður er ljóst að hinar miklu lánsfjárþarfir ríkissjóðs og opinberra lánakerfa á þess vegum hafa átt meginþátt í því að halda uppi tiltölulega háum raunvöxtum á síðasta ári, þrátt fyrir mikinn peningalegan sparnað og litla lánsfjáreftirspurn atvinnufyrirtækja.`` Þrátt fyrir mikinn peningalegan sparnað, litla lánsfjáreftirspurn atvinnufyrirtækja er sú staða uppi að vextir hafa verið allháir og ríkissjóður og stofnanir á hans vegum hafa látið greipar sópa um fjármálastofnanir eftir auknu lánsfé. Þetta gerist við þær aðstæður sem eru hvað ákjósanlegastar í efnahagsmálum. Markaðsverð á helstu afurðum okkar erlendis hefur aldrei verið hærra og aldrei hækkað jafnmikið á jafnskömmum tíma. Launamenn og atvinnurekendur hafa aldrei gert jafnhagstæða kjarasamninga í ljósi efnahagsþróunar og markmiðs um stöðugleika í verðlagsmálum. Við þær aðstæður fær hæstv. ríkisstjórn þann dóm að vextir séu svo háir sem raun ber vitni og einvörðungu megi rekja það ástand til aðgerða eða aðgerðaleysis eða lausataka af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Sá dómur stendur hér skýrum stöfum.
    Í skýrslunni segir: ,,Samanburður vaxta hérlendis og erlendis kemur fram í fskj. 5, en það staðfestir enn á ný að raunvextir hér á landi eru nú lítið eitt yfir meðaltali þess sem þeir eru að meðaltali í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.`` Hér á er þó munur auðvitað frá einu ríki til annars, enda aðstæður

mismunandi. Samanburður gerður við þjóðir sem eiga við svipuð efnahagsvandamál að etja og Íslendingar leiðir í ljós að raunvextir á bankaútlánum eru síst hærri hér á landi. Munurinn er hins vegar meiri ef litið er á vexti ríkisskuldabréfa eins og áður hefur komið fram. Loks sýna athuganir að vaxtamunur innlánsstofnana hefur farið ört lækkandi á undanförnu ári og bendir flest til þess að hann sé nú síst hærri en nauðsynlegt er til að tryggja áfallalausan rekstur við ríkjandi aðstæður.
    Hér kemst Seðlabankinn að þeirri niðurstöðu að ekki sé um að ræða verulegan mismun á raunvöxtum bankaútlána, en á hinn bóginn sé verulegur munur á vöxtum ríkisskuldabréfa. Það eru þau sem halda uppi vaxtastiginu í landinu og ásælni ríkissjóðs í lánsfé á kostnað atvinnufyrirtækja og heimila.
    Með skýrum hætti segir Seðlabankinn: ,,Leidd hafa verið rök að því hér að framan að lánsfjáreftirspurn opinberra aðila, sérstaklega ríkissjóðs og húsnæðislánakerfisins, hafi átt drýgstan þátt í því að halda uppi raunvöxtum hér á landi á undanförnu ári. . . . Eigi að ná árangri að því er varðar lækkun raunvaxta á þessu ári er því brýnt að gera allt sem unnt er til þess að draga úr þessari lánsfjáreftirspurn.`` --- Eigi að ná árangri er brýnt að draga úr þessari lánsfjáreftirspurn.
    Nú er að því spurt: Hefur hæstv. ríkisstjórn einhvern áhuga á því að lækka raunvaxtastigið? Hefur hún einhvern áhuga á því að ná árangri á því sviði? Eða ætlar hún einungis að stunda upphrópanir og ásakanir og skólastrákaútúrsnúninga í kosningabaráttunni? Eða hefur hún í hyggju að sýna einhvern árangur? Þá er hér bent á leiðina.
    Í sérstakri skýrslu Seðlabankans sem gerð var 30. jan. um fjármögnunaráform ársins 1991 og horfur á framkvæmd þeirra, segir m.a. þetta: ,,Þetta gefur tilefni til að líta nánar annars vegar á erlendar lántökur og hins vegar á nýtingu fjár lífeyrissjóðanna. Ofætlun um innlenda fjármögnunargetu leiðir yfirleitt til aukinnar erlendrar fjármögnunar þar sem ekki verður snúið til baka með áformin og erlend lántaka er afgangsstærð. Þannig hækkaði erlend lántaka opinberra aðila og sjóða um tæpa 5 milljarða frá áætlun 1990 og leiddi til þess að langar erlendar lántökur urðu alls rúmir 26 milljarðar í stað 20,4 milljarða kr. samkvæmt októberáætlun. Hin sama gæti niðurstaðan orðið á þessu ári verði ráð ekki í tíma tekið.``
    Hæstv. fjmrh. hefur gjarnan gumað af því að hafa náð nokkrum árangri með því að fjármagna lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs innan lands. En hér kemur með skýrum hætti fram að A-hluti ríkissjóðs er ekki nema hluti dæmisins. Það sem hæstv. ríkisstjórn ber ábyrgð á er heildarlánsfjáreftirspurn opinberra aðila og það þurfti að taka 5 milljörðum kr. meira í erlendum lánum á sl. ári vegna lausataka í þessum efnum. En ég minnist þess ekki að hæstv. fjmrh. hafi haldið blaðamannafund þar um til þess að auglýsa tímamót í störfum sínum. Ég minnist þess ekki að það hafi verið haldinn blaðamannafundur til að greina frá því að erlendar lántökur opinberra aðila hafi farið 5 milljörðum kr. fram úr áætlun. Ég minnist þess ekki að það

hafi verið auglýst sem sérstakur tímamótaviðburður. En þetta er nú staðreynd.
    Á öðrum stað segir Seðlabankinn: ,,Niðurstöður þessarar greinargerðar sem og þeirrar er fjallar um almennan fjármögnunarvanda opinberra aðila og sjóða eru þær að með fyrirliggjandi áformum sé hleypt af stokkunum verulega meiri lánsfjáreftirspurn en markaðurinn fái ráðið við og muni leiða til almennrar vaxtahækkunar og sennilega enda með ótilætluðum erlendum lántökum. Er þá enn ekki séð fyrir væntanlegri fjárþörf til aukinna orkuframkvæmda sem æskilegt er að gerist að nokkrum hluta innan lands.``
    Og er þá enn sennilega ekki séð fyrir kosningavíxlunum sem hæstv. fjmrh. hefur veifað framan í alþjóð að undanförnu.
    Niðurstaðan er sú að hér er verið að benda á að efnahagsstefna hæstv. ríkisstjórnar, fjármálastefna hæstv. ríkisstjórnar, getur leitt til þess að vextir hækki enn af því að hún hefur ekki áhuga á að taka á þeim málum sem ráða úrslitum um þróun þessara efna. Svo er hægt að hrópa upp yfir sig: Hneyksli, hneyksli. Eða hrópa upp yfir sig að menn séu svo miklir með sig að þeir lesi ekki einu sinni bréf frá Seðlabankanum. En að taka á þeim vanda sem við blasir til þess að ná því marki sem menn eru sammála um, að lækka vextina --- nei, þá kemur ekki til greina að gera nokkurn skapaðan hlut.
    Frú forseti. Ég ætla svo að víkja örfáum orðum að því bréfi sem Seðlabankinn hefur ritað hæstv. ríkisstjórn í framhaldi af þeim tillögum sem hæstv. ráðherra gerði hér grein fyrir að ríkisstjórnin hefði beint til bankans í þeim tilgangi að ná niður vöxtum. Það bréf er um margt athyglivert. Þar segir í upphafi:
    ,,Áður en reynt verður að svara þessari spurningu beint er óhjákvæmilegt að fjalla enn einu sinni um nokkur helstu atriði er varða þróun vaxta hér á landi og þau skilyrði sem ríkjandi eru á lánsfjármarkaðnum. Er þá fyrst ástæða til þess að vísa til þeirrar greinargerðar sem bankastjórn Seðlabankans sendi ríkisstjórninni 30. jan. sl.``
    Enn einu sinni er þörf á því að tyggja ofan í hæstv. ríkisstjórn hvaða atriði það eru og hvaða þættir það eru í efnahagsstarfseminni sem hafa haldið uppi svo háum raunvöxtum sem raun ber vitni. Enn einu sinni segir Seðlabankinn: Þurfum við að tyggja þetta ofan í hæstv. ríkisstjórn?
    Mér sýnist að Seðlabankinn telji að þess þurfi a.m.k. einu sinni í mánuði orðið að tyggja einföldustu staðreyndir ofan í hæstv. ríkisstjórn.
    Síðan víkur bankastjórn Seðlabankans að tillögum hæstv. ríkisstjórnar og segir: ,,Við þær aðstæður sem hér hefur verið lýst telur bankastjórn Seðlabankans ekki unnt að taka undir hugmyndir um lækkun innlánsbindingar sem varið yrði til verðbréfakaupa né aðgerðir af Seðlabankans hálfu til þess að knýja fram vaxtalækkun með kaupum á opinberum verðbréfum á verðbréfaþingi, þar sem allar aðgerðir af þessu tagi mundu hafa í för með sér þensluáhrif og grafa undan jafnvægi í þjóðarbúskapnum.``
    Með öðrum orðum, það eina sem hæstv. ríkisstjórn hefur haft fram að færa í þessu efni er að senda Seðlabankanum óskir um að grípa til aðgerða sem munu leiða til aukinnar efnahagslegrar þenslu og grafa undan því jafnvægi sem náðst hefur. Það eru einu tillögurnar sem hæstv. ríkisstjórn hefur sent Seðlabankanum um þetta efni. Það er sérstakur dómur um markmið og metnað hæstv. ríkisstjórnar að önnur úrræði kann hún ekki. Og heldur hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. forsrh. að það muni leiða til viðvarandi vaxtalækkunar ef gripið yrði til slíkra aðgerða?
    Í þessu bréfi Seðlabankans kemur líka skýrt fram að áætlað sé að hrein lánsfjárþörf opinberra aðila hækki úr 40% af nýjum fjársparnaði í landinu á síðasta ári í 60% á þessu ári. Og svo segir Seðlabankinn: ,,Virðist varla raunhæft að gera ráð fyrir því að raunvaxtastigið fari lækkandi við slíkar aðstæður.``
    Hæstv. ríkisstjórn ætlar, í stað þess að hafa tekið 40% af nýjum sparnaði á síðasta ári, sem ýmsum þótti nú æði mikið, að taka nú 60% af öllum nýjum sparnaði og sennilega meira og hrópar svo: Hneyksli, hneyksli, eða: Við neitum að lesa ábendingarnar, þegar hún stendur frammi fyrir hinum köldu staðreyndum.
    Þetta er það sem hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. ætla að bera fram á málfundaræfingum sínum fyrir kjósendur nú á vori komandi.
    Þegar Seðlabankinn hefur þannig vísað á bug tillögum hæstv. ríkisstjórnar, vegna þess að það leiði til aukinnar þenslu og grafi undan jafnvægi, víkur hann að því álitaefni hvort verða eigi við óskum um það að ákveða án tillits til markaðsaðstæðna að færa niður vextina, og segir um það efni: ,,Verði vöxtum innlánsstofnana þrýst niður öllu meira með beinum fyrirmælum er hætt við því að fjármagn leiti frá þeim yfir á aðra hluta lánsfjármarkaðarins þannig að samkeppnisstaða þeirra fari almennt versnandi. Hætt er við því að sú þróun yrði ekki atvinnuvegunum í hag enda sækja þeir rekstrarfé sitt fyrst og fremst til innlánsstofnana.``
    Og er nú ástæða til þess að spyrja hæstv. forsrh., við þær aðstæður að atvinnulíf landsins er í stöðnun og við blasir að ef ekkert verður að gert verður lítill sem enginn hagvöxtur hér á næstu árum, er þá ætlan hans að knýja á um aðgerðir sem grafa undan möguleikum atvinnulífsins til þess að verða sér úti um eðlilegt lánsfé ef það á annað borð finnur skilyrði til þess að takast á við ný verkefni og nýja verðmætasköpun í landinu? Er það hugsjón hæstv. ráðherra að standa á þann veg að stjórn efnahagsmála að nýja sókn atvinnufyrirtækjanna eigi að útiloka eða takmarka með beinum aðgerðum af þessu tagi? Það er dómur Seðlabankans um þessa ósk að hún geti ekki leitt til annars en að veikja atvinnulífið í landinu. Telur hæstv. ráðherra að atvinnulífið, til að mynda víða á landsbyggðinni, sé með þeim hætti að ástæða sé til að gera sérstakar ráðstafanir til að veikja stöðu þess og minnka svigrúm þess til eðlilegrar lánafyrirgreiðslu? Lýsir það mati Framsfl. á stöðu landsbyggðarinnar í dag? Það væri fróðlegt að heyra formann bankaráðs Búnaðarbankans segja álit sitt á því. Ætlar hann að

taka þátt í þeim aðgerðum?
    Síðar segir Seðlabankinn um þetta: ,,Sé nú reynt að fara inn á þá braut að ákveða vexti á takmörkuðum hluta markaðarins með opinberum fyrirmælum mundi það ekki aðeins raska samkeppnisstöðu þeim hluta markaðarins í óhag heldur grafa undan trausti á markaðnum í heild og hvetja til flótta fjár yfir í erlendar eignir.``
    Er það nú alveg sérstök ósk hæstv. forsrh. að standa á þann veg að aðgerðum í ríkisfjármálum og efnahagsmálum að það leiði til þess að íslenskt fjármagn streymi til útlanda? Er það talið vera eitt helsta ráðið í herbúðum framsóknarmanna í dag að stuðla að því að íslenskt fjármagn leiti til útlanda? Er þess mest þörf þar? Ætli stuðningsmenn Framsfl. á landsbyggðinni, svo ég spyrji nú, líti svo á að mest þörf sé fyrir íslenskt fjármagn í útlöndum?
    Þannig mætti lengi spyrja.
    Að lokum kemst Seðlabankinn að þessari niðurstöðu, þegar hann hefur borið saman vexti hér á landi og erlendis: ,,Þegar svo er ástatt er vafasamt að það standist að beita lagagrein til opinberrar íhlutunar hér á landi sem ætluð er til þess að koma í veg fyrir misnotkun innlánsstofnana á vaxtaákvörðunarvaldi sínu. Það er því eindregin skoðun Seðlabankans að þessu ákvæði verði því aðeins beitt að skýlaus og umtalsverður munur sé á vaxtastigi hér á landi og í þeim helstu viðskiptaríkjum Íslendinga þar sem efnahagsástand er sambærilegast, t.d. að því er varðar fjárþörf hins opinbera, verðbólgustig og viðskiptajöfnuð.``
    Með öðrum orðum, Seðlabankinn kemst að þeirri niðurstöðu að það samrýmist ekki gildandi lögum um bankastarfsemi í landinu að þvinga vexti niður með einhliða opinberum ákvörðunum. Eigi að síður liggur það fyrir sem skoðun þess ráðherra sem mest talaði um lögbrot bankaráðsmannanna í Búnaðarbankanum að nú eigi að grípa til aðgerða sem Seðlabankinn telur ekki samrýmast bankalöggjöfinni. Og er þá fokið í flest skjól.
    Ég hygg að þó víða megi bera niður í störfum hæstv. ríkisstjórnar til þess að sýna fram á ábyrgðarleysi í athöfnum og orðum séu nú fá dæmin jafnaugljós og að því er varðar umræðu af hálfu hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. um vaxtamál.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé afar brýnt að ná niður vöxtum og gera þær ráðstafanir sem duga í þeim tilgangi að lækka vextina. Við þurfum að efla atvinnulífið í landinu en til þess að svo megi verða er óhjákvæmilegt að draga úr lánsfjáreftirspurn opinberra aðila. Því marki verður ekki náð með öðrum hætti. Ef við hverfum frá þeirri skipan um vaxtaákvarðanir sem nú eru í gildi er eins líklegt að það leiði til aukinnar þenslu sem aftur kallar á meiri verðbólgu og hærri nafnvexti. Það er ekki leið sem ákjósanleg er fyrir íslenskt atvinnulíf eða heimilin í landinu, en virðist vera sá vegur sem Framsfl. ætlar að ganga eftir í þessu efni.
    En nú er ástæða til þess að spyrja: Hvers vegna beitir hæstv. forsrh. sér ekki fyrir því að breyta gildandi löggjöf og taka vaxtaákvörðunarvaldið inn í ríkisstjórnina á nýjan leik? Hann situr hér í forsæti ríkisstjórnar með mikinn meiri hluta á Alþingi. Enginn hefur gumað meira af því að sitja í forsæti ríkisstjórnar sem nái samstöðu um hvert viðfangsefni sem á fjörur hennar ber. Ef óskir hæstv. ráðherra eru svona ákafar og skoðun hans svo ákveðin að hann eigi að meta vextina en ekki markaðurinn, hvers vegna notar hann þá ekki stjórnarmeirihlutann á Alþingi til þess að breyta lögunum og taka ákvarðanir á þeim grundvelli? Enginn getur hindrað hann í því. Meiri hlutinn er fyrir hendi. Vilja sínum getur hann komið fram, hann þarf aðeins að fara að lögum. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það væri skynsamleg leið en ef hæstv. ráðherra vill tala af ábyrgð um eigin skoðanir, hví fer hann þá ekki þessa leið? Bæði Alþingi og þjóðin hlýtur að kalla eftir svari við því.