Vaxtamál
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegur forseti. Ég sagði í sjónvarpi að bréf Seðlabankans væri hneyksli og skal endurtaka það hér og rökstyðja það. Ég vil þó byrja mál mitt með því að leiðrétta að ég hafi lært eitthvað í málfundaklúbbi Menntaskólans í Reykjavík. Ég var þar aldrei, ég tók þetta bara svona sem verslunarskólaslagorð hjá hv. 1. þm. Suðurl. þó að þau hafi ekki reynst vel. (Gripið fram í.) Já, ég sagði að þetta væri hneyksli og skal ég rekja það. Ég sagði hér í desember í umræðu að það hafi verið ótímabært fyrir bankana að hækka nafnvextina. Rökin sem þá voru færð fyrir hækkun nafnvaxta voru að nafnvextirnir þyrftu að raungildi að vera þeir sömu og raunvextir og undir það get ég út af fyrir sig tekið. Ég benti hins vegar á það að nafnvaxtahækkunin var byggð á spá Seðlabankans sem var allt önnur en spá bæði Hagstofu og Þjóðhagsstofnunar og hafði þá sýnt sig á undanförnum vikum að vera afar óraunhæf. Bankarnir létu sér þetta ekki nægja heldur hækkuðu þeir vextina enn í lok janúar, þá úr 14,0% í 15,5%, nafnvexti óverðtryggðra bréfa. Og enn var því lýst að þetta væri gert til þess að raunvextir af óverðtryggðum bréfum yrðu þeir sömu og raunvextir af verðtryggðum bréfum. Ég bendi hv. þm. á að lesa t.d. síðasta samanburð Seðlabankans sjálfs á vöxtum hér á landi og reyndar geta menn litið í Hagvísi Þjóðhagsstofnunar. Þar kemur fram að vextir af óverðtryggðum bréfum núna eru 15,5%, en verðbólga samkvæmt Hagstofu og Þjóðhagsstofnun er 5,3%. Raunvextir af óverðtryggðum bréfum eru því yfir 10% í dag. Hins vegar samkvæmt sömu upplýsingum eru raunvextir af verðtryggðum bréfum 8,0%. Sem sagt, það hefur sannast fullkomlega það sem ég sagði í desember að það væri ótímabært og rangt að hækka nafnvexti í því skálkaskjóli að verið væri að jafna raunvexti af óverðtryggðum lánum og verðtryggðum. ( Gripið fram í: Heyrirðu það, Guðni?) Já, bankaráðsmaðurinn má vel heyra það og fleiri bankaráðsmenn ef þeir eru hér. Ég veit ekki hvort hv. þm. sem hér hlæja telja það gamanyrði að atvinnuvegirnir þurfi að borga núna yfir 10% í raunvexti af óverðtryggðum bréfum. ( FrS: Það er ríkisstjórninni að kenna.) Þetta er ekki ríkisstjórninni að kenna, það eru bankaráðin sem ákveða vextina. (Gripið fram í.) Það ert þú, hv. þm., sem ákveður vextina og beitir þér fyrir hækkun þeirra. Staðreyndin er sú að raunvextir af óverðtryggðum lánum eru 2% hærri en af verðtryggðum lánum, þrátt fyrir það að rökin fyrir hækkun þeirra væru ætíð þau að þessir vextir ættu að vera hinir sömu. Þetta er staðreynd. Þú getur hlegið, en spurðu atvinnurekendurna á Ólafsvík eða á Akureyri eða á Húsavík hvernig þeim þyki að borga slíka vexti og vittu hvaða svör þú færð þar. Spurðu Einar Odd, vin þinn, hvernig honum þyki að borga slíka vexti. ( HBl: Það á að segja hv. þm.) Já, það getur vel verið að ég ætti að segja hv. þm. en það er stundum dálítið erfitt.
    Nei, þarna hefur farið algerlega úr skorðum og að Seðlabankinn skuli síðan svara ríkisstjórninni þar sem bent er á ýmsar leiðir sem Seðlabankanum hafði láðst

að benda á, og ég skal rekja hér á eftir, þar sem bent er á ýmsar leiðir og hann svarar og segir: Þetta er allt saman í himnalagi, þrátt fyrir það að markmiðið sem hann sjálfur stuðlaði að og mælti með við viðskiptabankana, að vextir af óverðtryggðum lánum og verðtryggðum yrðu hinir sömu, stenst alls ekki í dag. Munurinn er 2% sem óverðtryggð lán eru hærri en verðtryggð. Og ég trúi því satt að segja ekki að nokkur þingmaður sem hér er inni, og m.a. hv. 1. þm. Suðurl. sem segir hér áðan: Vitanlega viljum við allir lækka vexti, að hann telji það eðlilegt að raunvextir af óverðtryggðum lánum séu þetta mikið hærri en af verðtryggðum. Þetta eitt út af fyrir sig er vitanlega hneyksli. Og vitanlega er það hneyksli að Seðlabanki Íslands, æðsta stofnun í peningamálum þjóðarinnar, skuli segja: Þetta er allt í himnalagi.
    Hv. þm. talaði um það að Seðlabankinn vísaði á bug ýmsum ábendingum ríkisstjórnarinnar. M.a. vísaði hann á bug þeirri ábendingu að Seðlabankinn hefði beinni áhrif með kaupum og sölu á verðbréfaþingi á vaxtastigið í landinu. Staðreyndin er þó sú að þessi ábending er ekki frá ríkisstjórninni komin. Hún er tekin nokkurn veginn orðrétt upp úr skýrslu sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ábendingum frá þeim sérfræðingum til Seðlabankans að hann eigi að koma sér upp virkara tæki til að hafa markaðsáhrif á vaxtastigið í landinu. Ég vísa þessu því til föðurhúsanna. Þarna er alls ekki um ábendingu frá ríkisstjórninni að ræða, hins vegar mjög athyglisverða ábendingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Í þeirri tillögu sem ríkisstjórnin samþykkti í febrúar voru ýmsar ábendingar, m.a. sú að nýta bundið fé Seðlabankans til kaupa á ríkisskuldabréfum sem að mati Þjóðhagsstofnunar, og var byggt á tillögum Þjóðhagsstofnunar, gæti leitt til lækkunar á raunvöxtum um 0,4 -- 0,5%. Þetta er í raun alls ekki ný tillaga heldur, því að Seðlabankinn beitti sér fyrir þessari leið til lækkunar á raunvöxtum á síðasta ári. En vitanlega skerðir þetta ráðstöfunarfé Seðlabankans og e.t.v. hefur það verið það sem Seðlabankinn fyrst og fremst finnur. Aftur tel ég að svar Seðlabankans við þær aðstæður sem nú eru séu hneyksli.
    Raunvextir af verðtryggðum bréfum eru núna 8,0% og það ber vissulega að þakka þá lækkun sem varð, úr 8,2% niður í 8,0%. Hins vegar er því haldið fram í bréfi og skýrslu Seðlabankans að þessir vextir séu mjög svipaðir vöxtum í okkar helstu nágrannalöndum. Ef hv. þm. fletta upp á bls. 30 í skýrslunni sem liggur fyrir framan þá, geta þeir séð hverjir vextirnir eru í okkar helstu viðskiptalöndum. Þar segir í fyrsta lagi að vextir hjá sjöveldunum svokölluðu, þ.e. stóru iðnríkjunum, séu 5,3% raunvextir. Ég get ekki tekið undir það með Seðlabankanum að munurinn á 5,3% og 8,0% sé lítilfjörlegur. Ég tel hann afar mikinn.
    Í þessari sömu töflu er það sem er kallað ,,Önnur Evrópulönd`` sem eru okkar helstu viðskiptalönd og segir þar að raunvextir þar séu 7,1%. Ég kalla það heldur ekki lítinn mun, 0,9% sem er á milli þessara vaxta og þeirra sem hér eru. Ég er a.m.k. sannfærður um það að atvinnuvegirnir sem þurfa að greiða

þessa vexti telja það ekki lítilfjörlegan mun.
    Ég sagði að vísu að mikið hefði áunnist með lækkun raunvaxta frá því að þeir voru 9,5% í forsætisráðherratíð Þorsteins Pálssonar. Þetta kemur glöggt fram m.a. í síðasta Hagvísi þar sem það er rakið að raunvextir komust upp í 9,5% í maí og júní 1988. (Gripið fram í.) Nei, ég fór ekki með efnahagsmálin, hv. þm. Raunvextir núna eru 8,0% og það ber vissulega að meta það. Engu að síður, borið saman við löndin í kringum okkur, þá eru 8,0% allt of háir raunvextir.
    Það eina sem mér þótti ánægjulegt að heyra hjá hv. þm. Þorsteini Pálssyni er að hann er mjög kappsamur um að lækka vextina. Ég efa ekki að hann beiti sínum áhrifum til þess hvenær og hvar sem hann getur og ég get lofað honum því að ég mun styðja hann í því að lækka vextina og finna allar leiðir til þess. --- Hv. bankaráðsmaður hlær, en í bankaráði Landsbankans í janúar beitti hv. bankaráðsmaður sér fyrir því að vextirnir yrðu hækkaðir um 1,5%. Hins vegar sat bankaráðsmaður sjálfstæðismanna í Búnaðarbankanum hjá. (Gripið fram í.) Jú, það er svo sjaldan sem hv. þm. brosir, við skulum endilega leyfa honum að brosa. Það er gott. (Gripið fram í.) Já, það heyrist dálítið hátt.
    Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Ég hef gert grein fyrir því af hvaða ástæðu ég kalla síðasta bréf Seðlabankans hneyksli. Ég geri fastlega ráð fyrir því að málið verði rætt í ríkisstjórninni og það mjög fljótlega. Ég mun þar beita mér fyrir því að því verði svarað af fullri festu. Hæstv. viðskrh. fer með þetta mál og lýsti því hér áðan að hann teldi að nafnvextirnir ættu að lækka. Mér þótti vænt um að heyra það.
    Það skal hins vegar viðurkennt að ekki er samstaða um það í ríkisstjórninni að beita fyrirmælum sem heimiluð eru í lögum. Í 9. gr. seðlabankalaganna segir að Seðlabankanum sé heimilt að beita fyrirmælum með samþykki viðskrh. Það hefur hvað eftir annað komið fram hjá hæstv. viðskrh. að hann er ekki reiðubúinn til að samþykkja það. Og það er rétt að það er ágreiningur um það í ríkisstjórninni. Það skal sannarlega viðurkennt. Ég væri, eftir svona bréf sem nú hefur verið ritað, tilbúinn að fela Seðlabankanum að beita fyrirmælum.