Vaxtamál
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Frú forseti. Það hefur verið afar fróðlegt að hlýða á þessa umræðu og málflutning hv. þm. Sjálfstfl. Fráfarandi formaður flokksins, hv. þm. Þorsteinn Pálsson, vill lækka vexti og er ég honum hjartanlega sammála, enda lagði hann til að stefna Sjálfstfl. ætti að breytast og sækja inn að miðjunni og hún ætti að vera meira í anda frjálslyndis, mannúðar og mildi. Því var því miður hafnað af landsfundi Sjálfstfl. enda virðast aðrir þingmenn Sjálfstfl. sem hér hafa talað í kvöld vilja hækka vexti sem allra mest. Og mér er spurn: Er það kannski kosningaloforð Sjálfstfl. að vextir skuli hækka mikið? ( Forseti: Forseti fer þess á leit við hv. 1. þm. Reykv. að hann hætti að brosa.) Það er ómögulegt að heyra annað á málflutningi hv. þm. Sjálfstfl., a.m.k. flestra sem hér hafa talað, að það sé eitt aðalkosningaloforð Sjálfstfl. að hækka vexti eftir kosningar.
    Ég er sammála þeim sem hér hafa talað að vextir eru of háir á Íslandi eins og þeir eru nú. Ég hef gert það að gamni mínu að reikna út vexti af óverðtryggðum skuldabréfum, enda eru ekki notuð verðtryggð skuldabréf í OECD - ríkjum nema á Íslandi, en þeir eru sem hér segir:
    Í Ástralíu eru þeir 8,6%, Í Belgíu eru þeir mjög háir, þar er mikill ríkissjóðshalli eins og hér, 9,35%. Í Kanada eru þeir lágir, 4,45%, í Frakklandi eru þeir 6,65%, í Þýskalandi eru þeir 7,8%, í Hollandi eru þeir 8,3%, á Ítalíu eru þeir lágir þrátt fyrir það að þar sé mjög mikil verðbólga og háir nafnvextir á Ítalíu, þá eru raunvextir þar af óverðtryggðum skuldabréfum engu að síður ekki meiri en 6,8%. Í Japan eru þeir 3,75%, á Spáni eru mjög háir raunvextir af óverðtryggðum skuldabréfum vegna mikils ríkissjóðshalla eða 9,8%, í Svíþjóð eru þeir 3,5%, í Sviss 4,63%, í Bretlandi 5% og í Bandaríkjunum 3,3%. Á Íslandi hins vegar eru raunvextir af óverðtryggðum skuldabréfum, eins og kom reyndar fram í máli forsrh. hér áðan, 10,2% eða langt yfir öllu því sem gerist í öllum öðrum OECD - ríkjum. Eitthvað er nú meira en lítið að í vaxtamálum hjá viðskiptabönkunum á Íslandi ( Gripið fram í: Það er í efnahagsmálunum sem eitthvað er að.), enda er mjög furðulegt að velta því fyrir sér hvernig vaxtaákvörðun viðskiptabankanna á sér stað. Þeir grípa í hvert hálmstrá sem gefst ef það eru líkur á því að verðbólgan fari hækkandi. Og yfirleitt reyna viðskiptabankarnir að ofmeta allar spár varðandi verðbólguþróun og er þá fljótt tekin ákvörðun um að hækka vexti ef einhver von er til þess að verðbólgan sé að komast á skrið aftur, enda virðist það vera svo hjá viðskiptabönkunum að þeir þrái vaxandi verðbólgu því að þá er kannski auðveldara að fela vaxtamuninn sem þeir þurfa að hafa en hann þarf að vera öllu meiri en gengur og gerist í öðrum löndum. Það er miklu minna um það að viðskiptabankarnir séu fljótir til að lækka vextina ef verðbólgan er á niðurleið eins og þó virðist vera að gerast núna þessa dagana.
    Hins vegar fyndist mér að það væri karlmannlegra

af hv. þm. að ræða þessi erfiðu mál á málefnalegan hátt og taka höndum saman við að leita leiða til þess að lækka vextina. ( Gripið fram í: Er þá ekki rétt að forsrh. byrji á því?) Ég er persónulega þeirrar skoðunar að ein besta leið til þess að lækka vexti á Íslandi sé að opna fjármagnsmarkaðinn meira en nú er, flýta þeim aðgerðum að heimila a.m.k. öllum erlendum fyrirtækjum sem eru í útflutningsviðskiptum að opna bankaviðskipti og hafa bein bankaviðskipti við erlenda banka því að við búum við fákeppnismarkað hér heima á Íslandi, einangraðan fjármagnsmarkað sem getur í raun og veru hegðað sér alveg eins og honum sýnist. Hann þarf ekkert að lúta neinum lögmálum eins og bankar annarra landa. Það væri kannski það fljótvirkasta tæki sem við gætum gripið til, einfaldlega að heimila frjáls og opin bankaviðskipti þannig að fyrirtæki gætu hreinlega ef þau kysu svo verið með sín bankaviðskipti við hvaða erlendu banka sem þeim sýndist. Þau gætu algerlega gengið fram hjá íslenska bankakerfinu ef þeim þykir það ekki nógu hagstætt eða vextir hér séu of háir. Þess vegna hef ég af ráð og dáð stutt allar tilraunir í þá átt að opna bankaviðskipti og viðskipti við útlönd almennt með nýrri löggjöf og mundi fagna því ef hægt væri að flýta öllum aðgerðum í þá átt. ( ÞP: Hvað segir ríkisstjórnin?) Mér sýnist að það sé verið að vinna að því. Það er búið að leggja fram frumvörp um þetta efni og ég heyrði ekki betur en að viðskrh. hafi bæði með reglugerðum og öðrum markvissum aðgerðum unnið að því að þessi viðskipti geti orðið opnari þegar fram líða stundir. Ég hefði hins vegar talið að það mætti flýta því enn meira.
    En ég held að ég þurfi ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta. Ég vil beina því til þeirra sem nú ráða ríkjum í Sjálfstfl. hvort það sé rétt sem mér heyrist á málflutningi þeirra hv. þm. að það sé eitt aðalkosningaloforð flokksins í kosningunum í vor að hækka vexti.