Vaxtamál
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Já, það fór aldrei svo að ekki væri reynt að taka eitthvað á vaxtaokrinu svona rétt fyrir kosningar. En svo horfir maður á skýrslu Seðlabankans og sér að það er allt annað en raunveruleikinn, enda er hér um meðaltölur að ræða. Hvað ætli þeir segi sem hafa orðið að skuldbreyta í vetur og borga 10,5% vexti? Það er til, í peningastofnun. Og það er algengt og hefur verið a.m.k. fram að þessu að þeir séu milli 9 og 10%. T.d. í þeim banka sem hefur verið kenndur við hæstv. viðskrh. hafa menn sem hafa þurft að skuldbreyta orðið að borga a.m.k. 9,75% fyrir utan annan kostnað. En svo segir skýrsla Seðlabankans að vextirnir hafi verið 8,25% og séu núna 8%. Allt tal sem hefur hér verið um raunveruleikann, hann er allt annar. Það er eins og það sé eitthvert náttúrufyrirbrigði að vextir þurfi alltaf að vera svo og svo háir þótt enginn atvinnuvegur geti staðið undir þeim. Það skiptir engu máli.
    Leikurinn sem hefur verið leikinn á undanförnum árum er sá að bankar og peningastofnanir hafa verið að bjóða í sparifé landsmanna og svo ef einn býður, þá býður annar og auðvitað verður þá að hækka útlánsvextina eftir því. Ég þekki þennan leik. Ég barðist á móti honum í nokkur ár þannig að það þarf ekki að blekkja mig í þessu efni.
    Nei, ríkisstjórnin getur ekki gumað af því að vextir hafi mikið lækkað. Þegar ríkisstjórnin var mynduð 1988 var lofað að raunvextir færu a.m.k. ofan í 6%, a.m.k. það. ( Gripið fram í: 5.) Ofan í 6% en sagt að það mundi verða athugað. Við skulum hafa þetta rétt eins og þetta var og gekk fyrir sig, hv. 1. þm. Suðurl. Við fórum fram á það að það yrðu 5%, en lendingin varð 6% og þessir hæstv. ráðherrar, allir með tölu, skrifuðu undir þetta. En Sjálfstfl. getur náttúrlega ekki sett sig á háan hest í þessu efni. Hann getur það ekki. Það var sá flokkur ásamt fyrst og fremst Alþfl. en Framsfl. er náttúrlega meðsekur í því hvernig vextirnir voru látnir fara á fyrstu mánuðum ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Og fólkið stynur undir því enn á eftir rúmra 14 mánaða setu þeirrar ríkisstjórnar. Það var allt komið í strand. En það átti að lækna allt að hækka og hækka vexti. Það var kenningin, það var hagfræðikenningin.
    Það er dálítið merkilegt að þegar vextirnir voru hækkaðir á árinu 1987 og voru tvöfaldaðir á nokkrum mánuðum, þá var það í raun og veru gert með handafli, með því að bjóða alltaf hærri og hærri vexti af ríkisvíxlunum, það var gert þannig. Hæstv. utanrrh., sem nú er, var þá fjmrh. og hv. 1. þm. Suðurl. forsrh. Þeir af þessum hv. þm. sem hafa jarðsamband ættu að vita hvernig er komið fyrir mörgum einstaklingum. Fyrstu tvo mánuðina á þessu ári voru 420 gjaldþrotabeiðnir. Það sýnir hvernig ástandið í þjóðfélaginu er. Ég er ekkert hissa þótt hæstv. forsrh. sé óánægður með þessa stöðu og hann sé undrandi yfir svörum Seðlabankans, ég er ekkert hissa á því. En það er miðað við erlendar hagfræðikenningar sem er búið að innleiða hér sjálfsagt af menntuðum hagfræðingum sem talið er, sem hafa ekkert jarðsamband við þjóðlífið. Það er málið.
    Þeir sem eru núna að missa íbúðirnar sínar. Var ekki einhver að tala um að Sjálfstfl. ætlaði að fara í kosningabaráttu undir kjörorðinu ,,frelsi og mannúð``? Er það mannúð að halda uppi vöxtunum þannig að fólk missi íbúðirnar sínar, tvístra fjölskyldunum, er það mannúð? (Gripið fram í.) Og svo segir Seðlabankinn að það þurfi að draga úr erfiðleikalánum frá húsnæðismálastjórn og segir að þensla muni aukast þess vegna. Hvers konar rugl er þetta? Þó að fólk fái lán til þess að borga skuldir í bönkum og annars staðar.
Það eru ekki ný eyðslulán. Það er farið yfir hvert atriði og þeir fá ekkert meira lán heldur en verður nauðsynlega að borga. Nei, ég held að umræðan um þessi mál öll nú og fyrr sé á þann veg að menn horfa næst sjálfum sér en lítið í kringum sig í þjóðfélaginu á þá örbirgð og þá eymd sem er víða. Það er hægt að benda á að það er víðar en hér á landi, það er rétt. En við erum nú með einar hæstu þjóðartekjur á einstakling þannig að það ætti ekki að þurfa að vera á þann veg sem nú er í þjóðfélaginu, 420 gjaldþrotabeiðnir á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs. Það er 420 of mikið.